25. maí 2023

Helgi­sagan um þjóðar­sátt

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra birti nýverið pistil á Vísi þar sem hann leggur sitt af mörkum við smíðina á goðsögninni um þjóðarsáttina 1990. Frasarnir sem hann notar einkennast af nokkrum helgisögublæ – samhent átak, framfarabraut og hvorki meira né minna en nýtt upphaf þjóðar. Litlu síðar mætti svo hagfræðingur í Vikulok Rásar 1 sem gekk svo langt í trúarlegri upphafningu þjóðarsáttarinnar að það jaðraði við hagfræðilega nýaldarhyggju: „Svona eru peningamálin, ef þú bara ákveður að lækka verðbólguna og allir taka þátt þá nærðu henni niður.“ Tilgangurinn með þessari helgisögusmíð er auðvitað sá að sannfæra launafólk um að það beri mesta ábyrgð á verðbólgunni og að það þjóni hagsmunum þess best að biðja ekki um kjarabætur sem halda í við verðhækkanir. Þannig hverfi verðbólgan eins og dögg fyrir sólu. Ef við horfum hins vegar aftur í tímann og jafnvel út fyrir landsteinana þá áttum við okkur fljótt á því að helgisögusmíðin um þjóðarsátt er sérkennilega mikil einföldun á veruleikanum. Fyrir þeirri fullyrðingu vil ég nefna þrjár ástæður:

1. Verðbólga var á nær stöðugri niðurleið frá 1980 og fram að þjóðarsáttarsamningunum 1990, fyrir utan árið 1983 þegar verðbólgan reyndist sú hæsta sem mælst hefur hér á landi. Árið 1980 var verðbólga 59% en var komin niður í 21% árið 1989, þ.e. ári áður en þjóðarsáttarsamningar voru undirritaðir og hafði þá lækkað um 38 prósentustig. Á jafn löngu tímabili eftir þjóðarsátt, þ.e. frá 1990 til 1999 lækkaði verðbólgan um 13 prósentustig. Þannig náðist þrefalt meiri árangur í að kveða niður verðbólgu á níu ára tímabili fyrir þjóðarsátt en á jafn löngu tímabili eftir hana. Líklega var árangursríkasta ákvörðunin á þessari vegferð vaxtafrelsið 1984 sem tók á þeim verðbólguhvata sem neikvæðir útlánavextir höfðu verið í pólitískt reknu bankakerfi. Um jákvæð áhrif þessa er meðal annars fjallað í nýlegri ævisögur Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, þar sem segir að frá 1981 til 1991 hafi sparnaður í hagkerfinu tvöfaldast, farið úr 50% af landsframleiðslu í rúmlega 100%. Þessi stóraukni sparnaður hafi stuðlað að betra jafnvægi í hagkerfinu.

2. Eins og sést á myndinni hér að neðan var hækkun verðbólgu á 8. áratugnum alþjóðlegt vandamál og lækkun verðbólgunnar á seinni hluta þess 9. og alls 10. áratugarins var líka alþjóðleg þróun. Olíukreppan á 8. áratugnum er augljós hvati fyrir hækkun verðbólgu á alþjóðavísu en hröð lækkun olíuverðs á seinni hluta 9. áratugarins og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns á 10. áratugnum eru líklega helstu ástæður lækkunar verðbólgu. Þannig fór meðaltalsverðbólga í þróuðum ríkjum (advanced eonomies) úr því að vera í kringum 12% á 8. áratugnum í um 2% á þeim 10. og fram að þeirri hækkun verðbólgu sem við höfum séð á allra síðustu misserum.

3. Í nýlegri bók Stefáns Ólafssonar, Baráttan um bjargirnar, eru rök færð fyrir því að áhrif þjóðarsáttarinnar hafi verið ofmetin. Hann heldur því fram að breytt gengisstefna, þ.e. aukið gengisaðhald eftir 1990, hafi haft meiri áhrif á að verðbólga lækkaði en hófstilltar launakröfur stéttarfélaga. Þá hafi frá árinu 2001 verið tekið upp verðbólgumarkmið sem fól í sér mikið aðhald gegn gengisfalli og tilheyrandi verðbólgu. Stefán telur að gengi krónunnar sýni fram á þennan árangur en meðalbreyting á raungengi frá 1960 til 1990 hafi verið 1,4% lækkun en frá 1991 til 2020 hafi orðið viðsnúningur með meðaltalshækkun um 0,1% á ári. Þannig hafi breytt gengisstefna verið „meginástæðan fyrir því að verðbólgan komst á mun lægra stig en áratugina þrjá á undan og að úr hinum miklu sveiflum og sviptingum í hagstjórninni dró.“


Það er rannsóknarefni hvernig helgisögur verða til í nútímasamfélagi. Í tilfelli þjóðarsáttarinnar er þó augljóst að þar hafa margir háskólahagfræðingar og stjórnmálamenn og samtök atvinnurekenda haft mest áhrif. Fjölmiðlar hafa síðan endurómað áróðurinn, t.d. þótti fréttamanni Stöðvar 2 óhætt að fullyrða í frétt árið 2018: „Það er margra áratuga hagsaga íslensks þjóðfélags að óábyrgar launahækkanir hafa keyrt upp verðbólgu og eyðilagt framkvæmd sjálfstæðrar peningastefnu í landinu.“ Fréttastofa RÚV hélt því síðan óhikað fram árið 2020 að það hafi verið „hófleg launahækkun“ þjóðarsáttarsamninganna sem hefði tekist að „hemja verðbólguna og við tóku ár með efnahagslegum stöðugleika.“ En þegar öllu er á botninn hvolft voru það líklega vaxtafrelsið, gengisaðhald, lækkun olíuverðs og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns sem höfðu mest áhrif á það að hér komst á verðstöðugleiki.

Pistillinn var fyrst birtur á Vísi.is.

30. okt. 2022

Rangar ályktanir dregnar af gjaldþroti Íbúðalánasjóðs

Það er líklega ekkert mikilvægara stjórnmálamanni en að njóta almenns trausts. Þess vegna kemur það mér alltaf jafn mikið á óvart þegar stjórnmálamenn draga ályktanir í mikilvægum málum sem virðast hvorki byggja á rökum né reynslu. Það treysta nefnilega fáir stjórnmálamanni sem byggir afstöðu sína á kreddum og alvöruleysi. Viðbrögð sjálfstæðismanna við fyrirsjáanlegu og yfirvofandi gjaldþroti Íbúðalánasjóðs hafa því komið mér á óvart, ekki síst þar sem það blasir við öllum að Sjálfstæðisflokkinn bráðvantar að sannfæra fleiri kjósendur um að honum sé treystandi fyrir efnahagsmálum.

Gjaldþrot Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóður) hefur verið fyrirsjáanlegt um árabil, enda ekki að ástæðulausu sem Alþingi ákvað árið 2010 að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd valinkunnra sérfræðinga sem var falið að rannsaka málið. Skýrsla nefndarinnar var birt árið 2013 og þar er m.a. fjallað um ábyrgð stjórnmálamanna á lögum sem samþykkt voru árið 2004 og leiddu til þeirra kerfisbreytinga sem kosta munu almenning um 50-200 milljarða króna þegar upp verður staðið. Þar segir í kafla 9.4.6: „Fyrir Alþingi var lagt lagafrumvarp um nýtt form á fjármögnun Íbúðalánasjóðs sem fól í sér mikla áhættu fyrir ríkissjóð … Frumvarpið gerði ráð fyrir að fjármögnunarbréf sjóðsins yrðu hvorki innkallanleg né lántakar þyrftu að greiða uppgreiðslugjald. Það voru mistök. … Alþingi samþykkti lögin þrátt fyrir aðvaranir Seðlabankans. … Ábyrgðin er fyrst og fremst þingsins að samþykkja gölluð lög.“

Það vekur óneitanlega athygli að meðal þeirra þingmanna sem greiddu þessu gallaða frumvarpi atkvæði sitt eru báðir þeir menn sem nú eru í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, orkumálaráðherrann Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sá hinn sami og telur sig nú hæfan til að gæta hagsmuna skattgreiðenda í málinu. Þeir Guðlaugur og Bjarni kunna að halda því fram núna að þingmenn hafi á sínum tíma verið fullvissaðir um að Íbúðalánasjóður myndi grípa til almennrar áhættustýringar sem átti að koma í veg fyrir að skattgreiðendur sætu uppi með milljarða tjón. En þá hafa þeir greinilega hvorki tekið mark á viðvörunum Seðlabankans né lagt við hlustir í þingsal þegar flokksbróðir þeirra, Pétur Blöndal, varaði við afleiðingum frumvarpsins. Hann sagði í þingræðu þann 29. mars 2004 að sá augljósi vandi sem frumvarpið skapaði væri óleysanlegur. Gert væri ráð fyrir að skuldabréf sjóðsins yrðu seld með óbreytanlegum vöxtum til framtíðar og ef vextir lækkuðu niður í það sem tíðkaðist í löndunum í kringum okkur þá gæti þetta orðið „óskaplegur baggi fyrir ríkissjóð … Ríkissjóður er með ábyrgð á þessum bréfum en hefur enga útgönguleið ef vextir lækka mjög mikið. Það getur orðið mjög þungbært fyrir ríkissjóð. … Menn þurfa að átta sig á þessu og ganga með galopin augun af því að þeir eru að taka á sig mjög mikla skuldbindingu fyrir ríkissjóð og ég vara við því.“

Því miður virðist mannvalið í Sjálfstæðisflokknum heldur hafa versnað síðan þessi orð féllu og þekking innan hans á hagstjórnarmálum síst hafa aukist. Að minnsta kosti ef tekið er mið af ályktunum sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast hafa dregið af þessu örlagaríka frumvarpi sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði sitt árið 2004. Þannig skrifaði t.d. þingmaður flokksins grein á liðnu ári þar sem hann heldur því fram að saga Íbúðalánasjóðs sýni fram á að ríkið eigi ekki að vasast í rekstri fjármálastofnana, en nefnir ekki einu orði mistökin sem þingmenn sjálfstæðisflokksins gerðu við lagasetninguna 2004. Það er svona eins og að horfa á skip sigla á ísjaka og sökkva og álykta út frá því að skip eigi ekki að vasast í því að sigla, frekar en að styrkja hefði þurft stefni skipsins eða hafa einhvern á útkikki. Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók nýverið viðtal við fjármálaráðherra þar sem sá síðarnefndi lýsti því ágætlega hvernig áhættan sem hann og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tóku með lögunum árið 2004 hefði „raungerst.“ En spyrillinn, þingmaður flokksins, var svo uppfullur af pólitískum kreddum að hann áttaði sig ekki á orsökum og afleiðingum málsins og ályktaði að gjaldþrot Íbúðalánasjóðs sýndi fram á að rekstur opinberrar lánastofnunar eða samfélagsbanka væri „bara vitleysa.“ Ef þingmanninum þykir þetta frambærilegur málflutningur þá má eflaust gagnálykta á jafn grunnhygginn hátt að bankahrunið 2008, sem kostaði almenning ómældar fjárhæðir og erfiðleika, hafi sýnt fram á að rekstur banka í einkaeigu sé bara vitleysa.

Það er óumdeilt að gjörðir þingmanna Sjálfstæðisflokksins 2004 eru orsök þess að almenningur situr nú uppi með skuldir Íbúðalánasjóðs á sínum herðum. Afleiðingar málsins virðast hins vegar ætla að verða umdeildari. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast draga þann lærdóm einan að fjármálastarfsemi eigi aldrei að vera rekin á samfélagslegum forsendum. Aðrir hljóta þá að álykta að málsvarar Sjálfstæðisflokksins séu enn það kreddufastir og alvörulausir að þeim sé ekki treystandi fyrir efnahagsstjórninni. Annað væri „bara vitleysa.“

12. sep. 2022

Efna­hags­leg á­hætta virkjana­stefnunnar

Landsvirkjun hefur vegnað vel á síðustu misserum, ekki síst vegna mikilla verðhækkana á álmörkuðum á liðnu ári og fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Fram hefur komið að rekstrartekjur fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins hafi verið hærri en nokkru sinni. Það er því sannarlega ástæða til að gleðjast yfir þeirri stöðu sem Landsvirkjun er í þessa stundina ­‒ er á meðan er. En verandi reynslunni ríkari eftir hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða 2008 þá verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika að veður skipist fljótt í lofti.

Samkvæmt S&P er Landsvirkjun með lánshæfismatið BBB+. Í BBB flokk falla fyrirtæki sem eru talin hafa burði til að standa við skuldbindingar sínar í núverandi ástandi en kunna að lenda í vandræðum ef halla tekur undan fæti í hagkerfi heimsins. Það ætti því að hringja varúðarbjöllum í höfuðstöðvum Landsvirkjunar að heimsmarkaðsverð á áli hefur fallið um 39% á síðustu sex mánuðum, hagvöxtur í Evrópu fer hratt minnkandi og vextir fara hratt hækkandi á þeim mörkuðum sem Landsvirkjun sækir lán. Hér á landi er síðan brýnasta hagstjórnarverkefnið að ná niður verðbólgu í umhverfi þar sem við sjáum fram á mikla fjárfestingarþörf á húsnæðismarkaði og stjórnvöld boða mikla fjárfestingar, t.d á samgönguinnviðum. Þá lítur út fyrir að hagvöxtur verði hár á næstu árum og frá atvinnulífinu berast þau tíðindi að útlán til fyrirtækja fari ört vaxandi og að sjaldan eða aldrei hafi fyrirtæki skort starfsfólk eins og nú. Peningastefnunefnd Seðlabankans telur að herða þurfi taumhaldið og ákvarðanir í atvinnulífi muni skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Það er því ekkert í hagkerfinu, hvorki hér á landi né á heimsvísu, sem gefur til kynna að nú sé rétt að hefja stórfelldar virkjanaframkvæmdir í þeim anda sem stjórnvöld og forysta Landsvirkjunar hafa boðað. Þvert á móti. Undir þessum kringumstæðum þarf að koma í veg fyrir að Landsvirkjun hefji vegferð lánadrifinnar virkjanastefnu sem myndi að líkindum kosta almenning og þorra íslenskra fyrirtækja milljarða vegna vaxtahækkana. Ráðlegra væri að nýta næstu ár til að lækka áfram skuldir Landsvirkjunar svo fyrirtækið geti stuðlað að stöðugleika í hagkerfinu, skilað samfélaginu arðgreiðslum og byggt sig upp fjárhagslega til að takast á við þann ólgusjó sem mun skekja efnahagskerfi heimsins næstu árin.

11. apr. 2022

Góð­æris­blinda Lands­virkjunar

Stjórnendum Landsvirkjunar varð tíðrætt um það á ársfundi nýverið að fyrirtækið ætlaði að taka vel á móti framtíðinni. Það var augljóst af kynningum á fundinum að þessi framtíð felur í sér gjörnýtingu íslenskra vatnsfalla og jarðhitasvæða. Því til réttlætingar var t.d. vísað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að ná eigi fullum orkuskiptum 2040 og Ísland verði þá óháð jarðefnaeldsneyti. Stjórnendum Landsvirkjunar varð líka tíðrætt um nýlega orkuskýrslu umhverfisráðherra og virðast líta á orkufrekustu sviðsmynd hennar sem verkefnahandbók fyrir fyrirtækið. Samkvæmt sviðsmyndum skýrslunnar þarf að auka orkuframleiðslu um 68% til 124% til 2040 ef ná á ,,fullum orkuskiptum“. Það eru 13.000 til 23.694 nýjar gígawattstundir (GWs) á átján árum, eða þrjár til fimm nýjar Kárahnjúkavirkjanir. Kárahnjúkavirkjun er að vísu svo óvenju stór virkjun á íslenskan mælikvarða að það væri kannski eðlilegra að miða við virkjun sem er nær meðalstærð virkjana hér á landi, t.d. Blönduvirkjun sem hefur 720 GWs orkugetu. Framtíðarsýn Landsvirkjunar er þá að reisa 18 til 33 slíkar virkjanir á næstu 18 árum.

En Blönduvirkjun verður víst ekki reist nema einu sinni. Og hvaða svæði þarf þá að leggja undir virkjanir til að framtíð Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar verði að veruleika? Nefnum nokkur:
  • Hrafnarbjargavirkjun (585 GWs) og Fljótshnjútsvirkjun (405 GWs) í Skjálfandafljóti. Þær myndu eyðileggja Aldeyjarfoss og fleiri náttúruverðmæta í fljótinu. Svæðin eru auk þess í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt þeim tillögum sem liggja nú fyrir Alþingi.
  • Skatastaðavirkjun (1090 GWs) og Villinganesvirkjun (215 GWs) í Jökulsánum í Skagafirði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt tillögum sem nú liggja fyrir Alþingi.
  • Hvamms- (720 GWs), Holta- (450 GWs) og Urriðafossvirkjunar í neðri hluta Þjórsár (1037 GWs). Þetta eru umdeildar virkjanir, enda fyrstu stórvirkjanir Landsvirkjunar í byggð sem hefðu auk þess neikvæð áhrif á stærsta villta laxastofn landsins og þurrkuðu upp vatnsmesta foss landsins.
  • Stækkun Blönduveitu (195 GWs) og vindmyllur í Blöndulundi (350 GWs).
  • Vindmyllur í Búrfellslundi (300 GWs).
  • Stækkun Kröfluvirkjunar (370 GWs).
  • Hvalárvirkjunar í Árneshreppi (320 GWs) sem er mjög umdeildur og óhagkvæmur virkjanakostur og Austurgilsvirkjun á Vestjörðum (228 GWs)
  • Hagavatnsvirkjun (120 GWs) og Skrokkalda á hálendinu (260 GWs) sem hafa mætt harðri andstöðu ferðaþjónustu og náttúruverndarfólks.
  • Eldvörp á Reykjanesi (410 GWs) og Trölladyngja (410 GWs). Einhver fallegustu jarðhitasvæði landsins í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
  • Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn (756 GWs). Virkjunin gæti haft neikvæð áhrif á ómetanlegt lífríki vatnsins og er auk þess í jaðri þorpsins í Reykjahlíð.
  • Hverfisfljótsvirkjun (244 GWs), Hólmsárvirkjun (480 GWs) og Búlandsvirkjun (1057 GWs) í Skaftárhreppi. Allt virkjanir sem myndu spilla ægifögru svæði á hálendisjaðrinum.
Nú verð ég að viðurkenna að mig þrýtur ímyndunarafl til að telja upp fleiri mögulega virkjanakosti og þá vantar enn rúmar 3.000 GWs til að ná upp í neðri mörk þess sem Landsvirkjun segist ætla að virkja á næstu átján árum. Og í þessari upptalningu eru margar virkjanir sem öllum á að vera ljóst að verða aldrei að veruleika vegna ríkra náttúruverndarahagsmuna, andstöðu heimamanna og vandræða við nýtingu jarðhitasvæða. Með því að leggja raunhæft mat á ofangreindan lista má álykta að hér verði í mesta lagi hægt að virkja um 3.000 til 4.000 GWs á næstu árum og áratugum, eða sem samsvarar eins og einni Kárahnjúkavirkjun eða fimm Blönduvirkjunum. Það er 20% aukning miðað við framleiðslugetu virkjana árið 2020, eitthvað sem þætti dágott hjá flestum þjóðum og myndi duga okkur fyrir rafvæðingu bílaflotans og vel rúmlega það.

Það er ekki mjög hughreystandi að horfa upp á forystu Landsvirkjunar tapa jarðtengingu með tali um tvöföldun raforkuframleiðslu á fáum árum. Við getum rétt ímyndað okkur hvaða efnahagslegu áhrif það hefði ef hér ætti að reisa fimm Kárahnjúkavirkjanir á tveimur áratugum. Það þarf ekki langskólanám í hagfræði til að sjá fyrir sér að Seðlabankinn þyrfti að grípa til verulegra vaxtahækkana til að kæla hagkerfið, skortur yrði á vinnuafli í öðrum atvinnugreinum og húsnæðisskortur myndi aukast vegna mikils innflutnings verkafólks. En kannski má rekja þetta óraunsæi forystu Landsvirkjunar til þess að fyrirtækið nýtur nú óvenju góðs rekstrarumhverfis þar sem afurðaverð er í hæstu hæðum og vaxtakjör með besta móti. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem íslenskir athafnamenn eru slegnir góðærisblindu rétt áður en vaxtahækkanir og leiðrétting verðlags á heimsmarkaði kippa þeim aftur niður á jörðina.

Tökum vel á móti framtíðinni, en reynum að gera það með sæmilegu raunsæi. Virkjum það litla sem við þurfum til að rafvæða bílaflotann, en dokum svo við til að sjá hvort og þá hvaða tæknilausnir verða þróaðar fyrir orkuskipti í samgöngum á sjó og í lofti. Það er ástæðulaust að hefja stórkostleg átök um virkjanamál fyrr en að það liggur ljóst fyrir hvort virkjana sé þörf.

11. mar. 2022

Meintur orkuskortur og áhrif alþjóðamarkaða

Umræða um mein­tan raf­orku­skort hjá raf­orku­rík­ustu þjóð heims hefur verið hávær frá því á haust­mán­uð­um. Hún hefur verið rekin áfram af for­stjóra Lands­virkj­unar sem byrj­aði að lýsa því yfir 30. sept­em­ber að fyr­ir­tækið þyrfti að reisa fleiri virkj­anir þar sem raf­orku­kerfið „væri nálægt því að vera full­nýtt og að mestu bundið í lang­tíma­samn­ingum við núver­andi við­skipta­vin­i“.

Í til­kynn­ingu Lands­virkj­unar 19. nóv­em­ber var því síðan lýst að við­skipta­vinir fyr­ir­tæk­is­ins hefðu jafnt og þétt aukið raf­orku­notkun sína og keyrðu flestir „á fullum afköst­u­m“. Raf­orku­kerfið væri því þá þegar orðið nær „full­nýtt“. Þegar við þetta bætt­ist svo lélegt vatnsár þá átti ekki að koma neinum á óvart að Lands­virkjun ætti ekki til umframorku á afslátt­ar­kjörum þegar útgerð­ar­menn vildu fara að bræða loðnu í byrjun des­em­ber. Enda eru loðnu­bræðslur líka mjög lélegur við­skipta­vinur raf­orku­fram­leið­anda eins og Lands­virkj­un­ar, þar sem þær kaupa raf­orku á miklum afslætti og ein­ungis til mjög skamms tíma í senn.

Það er því glóru­laus fjár­fest­ing að virkja vatns­fall sér­stak­lega fyrir loðnu­bræðslu og það gerir eng­inn án ríku­legs stuðn­ings úr almanna­sjóðum eða þá að lofts­lags­rökin rétt­læti það að Lands­virkjun verði bein­línis skylduð af stjórn­völdum til að selja útgerð­inni umbeðna raf­orku á veg­legum afslætti.

Næsta upp­hlaup í raf­orku­um­ræð­unni leiddi síðan for­stjóri Lands­nets, sem vandar nú ekki alltaf til verka. Til marks um það má nefna að þetta opin­bera fyr­ir­tæki hefur verið gert aft­ur­reka með hækk­anir á verð­skrám, orðið upp­víst að mik­il­vægum stað­reynda­villum í áætl­un­um, reynt að leyna gögnum fyrir almenn­ingi og „týnt“ 28 millj­arða króna kostn­að­ar­á­ætl­un.

Núna flutti for­stjór­inn þjóð­inni hræðslu­á­róður um að raf­orku­skortur á Íslandi gæti orðið við­var­andi og hvatti almenn­ing til að spara raf­magn! Ummælin tengd­ust fréttum af því að stefnt hefði í lokun lít­illar sund­laugar á Vest­fjörð­um, allt þar til að við­kom­andi bæj­ar­ráð ákvað að stóla ekki lengur á umframorku á afslátt­ar­kjörum og kaupa for­gangsorku fullu verði. Vand­inn var því ekki orku­skort­ur, heldur ákvæði í orku­kaupa­samn­ing­um. Sú spurn­ing stendur því nú upp á stjórn­mála­menn hvort skylda eigi Lands­virkjun til að skaffa orku til hita­veitu á köldum svæðum á kjörum sem stand­ast sam­an­burð við önnur land­svæði. Þeir hafa hins vegar verið á annarri veg­ferð á und­an­förnum árum með mark­aðsvæð­ingu raf­orku­kerf­is­ins sem fær­ist sífellt fjær hug­myndum um sam­fé­lags­lega þjón­ustu og ábyrgð.

Um miðjan febr­úar kynnti Lands­virkjun glæsi­legan árs­reikn­ing síð­asta árs og þar kemur m.a. fram að rekstr­ar­tekjur juk­ust um rúm 23% frá fyrra ári og hafa aldrei verið meiri í sögu fyr­ir­tæk­is­ins. Enda er Lands­virkjun nú í drauma­stöðu orku­sal­ans, þar sem heims­mark­aðs­verð á áli er í hæstu hæðum á sama tíma og stór­iðju­ver víða um heim neyð­ist til að draga úr fram­leiðslu vegna gríð­ar­legrar verð­hækk­unar raf­orku. Alþjóð­lega orku­kreppan bitnar ekki eins á íslenskri stór­iðju og hún getur því nýtt hátt álverð til að auka fram­leiðslu sína og kaupir þar af leið­andi alla þá orku sem Lands­virkjun hefur á boðstóln­um. Íslensku álfyr­ir­tækin eru í svo góðri stöðu um þessar mundir að þau stefna að stækk­un­um, eins og full­yrt er í nýrri skýrslu umhverf­is­ráðu­neyt­is­ins um orku­mark­að­inn.

For­stjóri Lands­virkj­unar virð­ist svo áfram um að verða við óskum stór­iðj­unnar um aukna raf­orku að fyr­ir­tækið hefur opin­ber­lega lýst því yfir að það sæk­ist eftir að gjör­nýta Þjórsá niður í Urriða­foss, auk þess sem það sæk­ist nú eftir að færa Skjálf­anda­fljót og Jök­ul­árnar í Skaga­firði úr vernd­ar­flokki Ramma­á­ætl­un­ar. For­stjór­inn klæðir kröf­una vissu­lega í grænan bún­ing óraun­hæfra orku­skipta, m.a. milli­landa­flugs og útflutn­ing raf­elds­neyt­is, en það er öllum aug­ljóst að áróð­ur­strommur Lands­virkj­unar eru nú barðar svo hátt og ört vegna stöð­unnar á hrá­vöru­mörk­uðum og orku­kreppu sem nú skekur erlenda stór­iðju.

Það eru vissu­lega margar mik­il­vægar spurn­ingar tengdar orku­málum sem stjórn­mála­menn standa frammi fyrir um þessar mund­ir, en hvort hér stefni í orku­skort er ekki ein þeirra. Það er ótti sem Lands­virkjun og virkj­ana­iðn­að­ur­inn breiðir nú út í áróð­urs­skyni en á ekk­ert erindi í umræðu sem þarf að vera bæði upp­lýst og yfir­veguð og fjalla um sam­fé­lags­legar skyldur Lands­virkj­unar og kosti og galla sam­keppn­i­svæð­ingar raf­orku­mark­að­ar­ins. Nátt­úru­vernd­ar­hreyf­ingin leggur sitt af mörkum í þeirri umræðu, þ.á.m. með Nátt­úru­vernd­ar­þingi 19. mars næst­kom­andi. Áhuga­samir eru hvattir til að mæta þangað og leggja sitt lóð á vog­ar­skál­ina.