4. sep. 2023

Aldarlöng ítök í bankakerfinu

Afskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, af bankakerfinu hafa enn einu sinni valdið almennri óánægju í samfélaginu. Þessi afskipti hans hafa nú staðið í rúman áratug og eru vel skjalfest í dómsskjölum og Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið. Afskipti fjölskyldu Bjarna, svonefndrar Engeyjarættar, af bankakerfinu ná hins vegar miklu lengra aftur í söguna, eða rúma öld — fjórar kynslóðir.

21. jún. 2023

Maðurinn sem kunni ekki að segja nei

Ég ímynda mér að ævi Jóhannesar Nordal sé efniviður í meiriháttar pólitískt drama. Þá á ég við eitthvað í anda Borgen eða House of Cards. Maðurinn var bankastjóri stærsta viðskiptabankans og síðar Seðlabankans í áratugi og stjórnarformaður stærsta orkufyrirtækis landsins í þrjátíu ár. Hann var efnahagsráðgjafi og persónulegur vinur fjölmargra helstu stjórnmálaleiðtoga borgaralegu flokkanna sem sóttust eftir að fá hann á framboðslista og buðu honum meira að segja stól forsætisráðherra — og eiginlega annað hvert starf sem losnaði í efstu lögum stjórnkerfisins ef marka má bókina. Og svo virðist sem Jóhannes hafi verið sú manngerð sem kunni ekki — eða kunni ekki við — að segja nei því það hlóðust á hann ábyrgðahlutverkin, sum hver sem hafa vart farið saman í nútímaljósi. Að minnsta kosti þætti það varla við hæfi í dag að einn og sami maðurinn gætti efnahagslegs stöðugleika sem Seðlabankastjóri á sama tíma og hann leiddi stærstu fjárfestingar þjóðarinnar í hlutverki sínu sem stjórnarformaður Landsvirkjunar.

En þrátt fyrir veigamikið hlutverk Jóhannesar í valdakerfinu þá stendur ævisagan Lifað með öldinni ekki undir væntingum um pólitískt drama eða sögulegar uppljóstranir. Hún er aftur á móti gott yfirlitsrit fyrir alla þá sem hafa áhuga á stjórnmála- og efnahagssögu 20. aldar.

Pistillinn er birtur í heild sinni á medium.com/gudmundurhordur.

25. maí 2023

Helgi­sagan um þjóðar­sátt

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra birti nýverið pistil á Vísi þar sem hann leggur sitt af mörkum við smíðina á goðsögninni um þjóðarsáttina 1990. Frasarnir sem hann notar einkennast af nokkrum helgisögublæ – samhent átak, framfarabraut og hvorki meira né minna en nýtt upphaf þjóðar. Litlu síðar mætti svo hagfræðingur í Vikulok Rásar 1 sem gekk svo langt í trúarlegri upphafningu þjóðarsáttarinnar að það jaðraði við hagfræðilega nýaldarhyggju: „Svona eru peningamálin, ef þú bara ákveður að lækka verðbólguna og allir taka þátt þá nærðu henni niður.“ Tilgangurinn með þessari helgisögusmíð er auðvitað sá að sannfæra launafólk um að það beri mesta ábyrgð á verðbólgunni og að það þjóni hagsmunum þess best að biðja ekki um kjarabætur sem halda í við verðhækkanir. Þannig hverfi verðbólgan eins og dögg fyrir sólu. Ef við horfum hins vegar aftur í tímann og jafnvel út fyrir landsteinana þá áttum við okkur fljótt á því að helgisögusmíðin um þjóðarsátt er sérkennilega mikil einföldun á veruleikanum. Fyrir þeirri fullyrðingu vil ég nefna þrjár ástæður:

1. Verðbólga var á nær stöðugri niðurleið frá 1980 og fram að þjóðarsáttarsamningunum 1990, fyrir utan árið 1983 þegar verðbólgan reyndist sú hæsta sem mælst hefur hér á landi. Árið 1980 var verðbólga 59% en var komin niður í 21% árið 1989, þ.e. ári áður en þjóðarsáttarsamningar voru undirritaðir og hafði þá lækkað um 38 prósentustig. Á jafn löngu tímabili eftir þjóðarsátt, þ.e. frá 1990 til 1999 lækkaði verðbólgan um 13 prósentustig. Þannig náðist þrefalt meiri árangur í að kveða niður verðbólgu á níu ára tímabili fyrir þjóðarsátt en á jafn löngu tímabili eftir hana. Líklega var árangursríkasta ákvörðunin á þessari vegferð vaxtafrelsið 1984 sem tók á þeim verðbólguhvata sem neikvæðir útlánavextir höfðu verið í pólitískt reknu bankakerfi. Um jákvæð áhrif þessa er meðal annars fjallað í nýlegri ævisögur Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, þar sem segir að frá 1981 til 1991 hafi sparnaður í hagkerfinu tvöfaldast, farið úr 50% af landsframleiðslu í rúmlega 100%. Þessi stóraukni sparnaður hafi stuðlað að betra jafnvægi í hagkerfinu.

2. Eins og sést á myndinni hér að neðan var hækkun verðbólgu á 8. áratugnum alþjóðlegt vandamál og lækkun verðbólgunnar á seinni hluta þess 9. og alls 10. áratugarins var líka alþjóðleg þróun. Olíukreppan á 8. áratugnum er augljós hvati fyrir hækkun verðbólgu á alþjóðavísu en hröð lækkun olíuverðs á seinni hluta 9. áratugarins og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns á 10. áratugnum eru líklega helstu ástæður lækkunar verðbólgu. Þannig fór meðaltalsverðbólga í þróuðum ríkjum (advanced eonomies) úr því að vera í kringum 12% á 8. áratugnum í um 2% á þeim 10. og fram að þeirri hækkun verðbólgu sem við höfum séð á allra síðustu misserum.

3. Í nýlegri bók Stefáns Ólafssonar, Baráttan um bjargirnar, eru rök færð fyrir því að áhrif þjóðarsáttarinnar hafi verið ofmetin. Hann heldur því fram að breytt gengisstefna, þ.e. aukið gengisaðhald eftir 1990, hafi haft meiri áhrif á að verðbólga lækkaði en hófstilltar launakröfur stéttarfélaga. Þá hafi frá árinu 2001 verið tekið upp verðbólgumarkmið sem fól í sér mikið aðhald gegn gengisfalli og tilheyrandi verðbólgu. Stefán telur að gengi krónunnar sýni fram á þennan árangur en meðalbreyting á raungengi frá 1960 til 1990 hafi verið 1,4% lækkun en frá 1991 til 2020 hafi orðið viðsnúningur með meðaltalshækkun um 0,1% á ári. Þannig hafi breytt gengisstefna verið „meginástæðan fyrir því að verðbólgan komst á mun lægra stig en áratugina þrjá á undan og að úr hinum miklu sveiflum og sviptingum í hagstjórninni dró.“


Það er rannsóknarefni hvernig helgisögur verða til í nútímasamfélagi. Í tilfelli þjóðarsáttarinnar er þó augljóst að þar hafa margir háskólahagfræðingar og stjórnmálamenn og samtök atvinnurekenda haft mest áhrif. Fjölmiðlar hafa síðan endurómað áróðurinn, t.d. þótti fréttamanni Stöðvar 2 óhætt að fullyrða í frétt árið 2018: „Það er margra áratuga hagsaga íslensks þjóðfélags að óábyrgar launahækkanir hafa keyrt upp verðbólgu og eyðilagt framkvæmd sjálfstæðrar peningastefnu í landinu.“ Fréttastofa RÚV hélt því síðan óhikað fram árið 2020 að það hafi verið „hófleg launahækkun“ þjóðarsáttarsamninganna sem hefði tekist að „hemja verðbólguna og við tóku ár með efnahagslegum stöðugleika.“ En þegar öllu er á botninn hvolft voru það líklega vaxtafrelsið, gengisaðhald, lækkun olíuverðs og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns sem höfðu mest áhrif á það að hér komst á verðstöðugleiki.

Pistillinn var fyrst birtur á Vísi.is.

23. mar. 2023

Hægri stjórnin sem hótaði hernum

Sagan af leiðtogafundinum í Höfða árið 1986 er vel þekkt og ekki síst það afrek íslenskra stjórnvalda að taka á móti Reagan og Gorbachev og heimspressunni með fárra daga fyrirvara. En það er önnur saga sem tengist fundinum í Höfða sem er ekki eins vel þekkt þó að hún hafi varðað hagsmuni Íslands með beinni hætti en sjálfur leiðtogafundurinn. Það er saga tveggja ára langrar deilu íslenskra og bandarískra stjórnvalda, hótana hægri stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um brottvísun bandarískra hersins frá Keflavík, leynilegra samningafunda og neyðarfundar bandaríska þingsins.

23. nóv. 2022

Ingibjörg og Jónas

Sagnfræðingafélagið efndi nýverið til málþings um Ingibjörgu H. Bjarnason, fyrstu konuna sem var kosin á Alþingi. Kristín Ástgeirsdóttir flutti þar erindi sem hún nefndi Málsvari kvenna eða „besta sverð íhaldsins“? Erindið var vel flutt og ályktanir um mikilvægan þátt Ingibjargar í stjórnmálasögunni skýrar og vel rökstuddar. Það eru samt nokkur atriði sem rétt er að bregðast við í tengslum við umfjöllun Kristínar um Jónas Jónsson frá Hriflu, samskipti hans við Ingibjörgu og afstöðu hans til kvenréttinda og menntunar kvenna.