22. feb. 2024

Don Kíkóte orku­um­ræðunnar og hundar sem elta eigið skott

Það hefur verið dapurlegt en samt eilítið kómískt að fylgjast með orkuumræðunni undanfarið. Stjórnmálafólk og talsfólk orkufyrirtækja minnir á hund sem hleypur í hringi á eftir eigin rófu - það er mikið hlaupið og gelt en samt vita allir sem á horfa að markmiðið er illa valið og óraunhæft. Einkar áhugavert hefur verið að fylgjast með umhverfis- og orkumálaráðherra í þessari umræðu. Hann ber sjálfur ábyrgð á því að búa til óraunhæfar væntingar með afar misheppnaðri skýrslu um stöðu orkumála í ársbyrjun 2022. Orkufyrirtækin hafa síðan flaggað þeim óraunhæfu hugmyndum sem þar eru settar fram um gjörnýtingu landsins í þágu raforkuframleiðslu og kryddað þær með áróðursherferð um yfirvofandi orkuskort í raforkuríkasta landi heims. Svo rammt hefur kveðið að þessu af hálfu orkufyrirtækjanna að umhverfisráðherra baðst vægðar á ársfundi Samorku í fyrra og bað fyrirtækin um að hætta að kvarta yfir aðgerðarleysi stjórnvalda, enda hefði engin ríkisstjórn þjónustað orkufyrirtækin eins vel og sú sem nú er við völd. Þar rataðist honum satt orð á munn, því þótt það þjóni pólitískum hagsmunum þingmanna VG og Sjálfstæðisflokks að láta eins og milli þeirra sé djúpstæður ágreiningur í virkjanamálum þá er það líklega þingkona Framsóknarflokksins sem hefur komist næst því að segja satt og rétt frá stöðunni í orkumálum í nýlegu viðtali við Morgunblaðið: „Ég hef ekki séð eitt mál, sem tengist orkumálum, sem ekki hefur verið samþykkt í ríkisstjórnarflokkunum þremur. … Ég sé ekki alveg hvar núningurinn er.“ Hún benti réttilega á að Sjálfstæðisflokkurinn færi með umhverfis- og orkumálin og hann væri mjög óskýr í sínum málflutningi um það hvar vandinn lægi og til hvaða mála þingmenn ættu að taka afstöðu til. Það er ekki annað hægt en að finna til með þingkonu Framsóknarflokksins sem þarf að vinna með samstarfsflokkum sem nýta hvert tækifæri til að ala á upplýsingaóreiðu um orkumál.


Þingmönnum Viðreisnar, Miðflokks og Sjálfstæðisflokks hefur orðið tíðrætt um hægagang í orkumálum og umhverfisráðherra hefur gengið svo langt að tala um „algjöra stöðnun“ í orkuframleiðslu á undanförnum fimmtán árum. Engu að síður hefur aukning uppsetts rafafls undanfarinn áratug verið meiri en bæði áratugina 1983-1992 og 1993-2002 (sjá mynd að ofan). Aukningin stenst hins vegar auðvitað ekki samjöfnuð við áratuginn 2003-2012 (Kárahnjúkavirkjun og Hellisheiðarvirkjun) og 7. og 8. áratuginn (Búrfellsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun) þegar tvö jökulfljót voru virkjuð sérstaklega fyrir stóriðju. En þessar tölur sýna svart á hvítu hversu galin umræðan um orkuskort er, ekki nema að orkufyrirtækin hafi misst tökin á rekstri orkukerfisins og selt meiri orku en þau geta framleitt.

Umhverfisráðherra og margir aðrir stjórnmálamenn virðast því hafa tekið sér hlutverk Don Kíkóta þegar þeir ráðast á ímyndaðan andstæðing í formi orkuskorts. Enda verður þessum stjórnmálamönnum yfirleitt svarafátt þegar þeir eru beðnir um nákvæma útlistun á því hvað þeir vilji gera til að takast á við skortinn. Vill Sjálfstæðisflokkurinn draga úr eignarrétti landeigenda og rétti þeirra til að ráðstafa eigin landi? Vill Viðreisn draga úr réttindum almennings til að hafa áhrif á nærumhverfi sitt eða hafa skipulagsvaldið af sveitarfélögunum? Vill Miðflokkurinn skylda orkufyrirtækin með lögum til að reisa óhagkvæmar virkjanir sem munu leiða til verðhækkana á raforku til almennings? Svona spurningum þurfa orkuriddarar Alþingis að svara í stað þess að grípa til innihaldslausra upphrópana. Það hafa vissulega orðið grundvallarbreytingar á virkjanamálum á síðustu árum og áratugum sem gera það að verkum að það hefur dregið úr áhrifum alþingismanna þegar kemur að raforkumálum, að rammaáætlun undanskilinni. Frá 2003 hefur verið komið á samkeppnismarkaði sem gerir raforkukerfið allt flóknara í vöfum, dregur úr heildarsýn og fjarlægir stjórnmálamenn frá ákvörðunum um einstaka virkjanir. Við sjáum líka að orkufyrirtækin virðast eiga í vandræðum með að fóta sig í þessu nýja umhverfi, til marks um það er t.d. umræðan um raforkuleka milli kerfa stórkaupenda og heimila, rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Landsvirkjun og nýlegt dómsmál þar sem eitt ríkisfyrirtæki á orkumarkaði kærir annað. Alþingismenn eru orðnir svo áhrifalitlir í raforkumálum að þeir geta ekki einu sinni gegnt þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að tryggja það að almenningur, sem notar minna en 5% af raforku í landinu, eigi forgangsrétt að henni og þurfi ekki að sitja undir fráleitum áróðri orkufyrirtækjanna um að heimilin í landinu séu á barmi rafmagnsleysis.

Landsvirkjun stefnir nú hraðbyri að fyrstu stórvirkjuninni í byggð, Orkuveita Reykjavíkur þenur út virkjanasvæðið á Hellisheiði og HS Orka á Reykjanesi, meira að segja í hinum einstöku Eldvörpum. Þá á hálendið undir högg að sækja þar sem Landsvirkjun hefur auglýst útboð fyrir stóran vindmyllugarð í anddyri þess og Alþingi hefur aftur opnað á möguleika Landsvirkjunar til að reisa Skrokkölduvirkjun í hjarta hálendisins. Þá er allt í einu er farið að ræða fráleitar hugmyndir um virkjanir í Hvalá á Ströndum, í friðlandinu í Vatnsfirði og í Ölfusdal við Hveragerði eins og ekkert sé eðlilegra. Þar að auki hefur Landsvirkjun boðað eðlilegar stækkanir á virkjunum sem þegar hafa verið reistar. Þannig að þrátt fyrir tröllasögur um annað þá er það náttúruverndin sem á undir högg að sækja þessa dagana en ekki orkufyrirtækin. En einhverra hluta vegna kýs stjórnmálafólk og fjölmiðlar að enduróma tröllasögurnar frekar en að fjalla t.d. um það hvort orkufyrirtækin og opinberar stofnanir ráði við rekstur raforkukerfisins á samkeppnismarkaði, hvort fyrirtækin geti mögulega skapað meiri verðmæti úr þeirri orku sem nú þegar er virkjuð, hvort aukin sókn fyrirtækja í óhagkvæmari virkjanakosti muni leiða til hækkunar orkuverðs á almenning og fyrirtæki og hvort kostnaðurinn við fjölgun milliliða á raforkumarkaði kunni að koma niður á neytendum, en nú eru starfandi níu raforkusölufyrirtæki á okkar örlitla smásölumarkaði. Er til of mikils ætlast að alþingis- og fjölmiðlafólk hugi að hagsmunum náttúru og neytenda í stað þess að enduróma í sífellu áróðursbumbur virkjanaiðnaðarins.

4. sep. 2023

Aldarlöng ítök í bankakerfinu

Afskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, af bankakerfinu hafa enn einu sinni valdið almennri óánægju í samfélaginu. Þessi afskipti hans hafa nú staðið í rúman áratug og eru vel skjalfest í dómsskjölum og Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið. Afskipti fjölskyldu Bjarna, svonefndrar Engeyjarættar, af bankakerfinu ná hins vegar miklu lengra aftur í söguna, eða rúma öld — fjórar kynslóðir.

21. jún. 2023

Maðurinn sem kunni ekki að segja nei

Ég ímynda mér að ævi Jóhannesar Nordal sé efniviður í meiriháttar pólitískt drama. Þá á ég við eitthvað í anda Borgen eða House of Cards. Maðurinn var bankastjóri stærsta viðskiptabankans og síðar Seðlabankans í áratugi og stjórnarformaður stærsta orkufyrirtækis landsins í þrjátíu ár. Hann var efnahagsráðgjafi og persónulegur vinur fjölmargra helstu stjórnmálaleiðtoga borgaralegu flokkanna sem sóttust eftir að fá hann á framboðslista og buðu honum meira að segja stól forsætisráðherra — og eiginlega annað hvert starf sem losnaði í efstu lögum stjórnkerfisins ef marka má bókina. Og svo virðist sem Jóhannes hafi verið sú manngerð sem kunni ekki — eða kunni ekki við — að segja nei því það hlóðust á hann ábyrgðahlutverkin, sum hver sem hafa vart farið saman í nútímaljósi. Að minnsta kosti þætti það varla við hæfi í dag að einn og sami maðurinn gætti efnahagslegs stöðugleika sem Seðlabankastjóri á sama tíma og hann leiddi stærstu fjárfestingar þjóðarinnar í hlutverki sínu sem stjórnarformaður Landsvirkjunar.

En þrátt fyrir veigamikið hlutverk Jóhannesar í valdakerfinu þá stendur ævisagan Lifað með öldinni ekki undir væntingum um pólitískt drama eða sögulegar uppljóstranir. Hún er aftur á móti gott yfirlitsrit fyrir alla þá sem hafa áhuga á stjórnmála- og efnahagssögu 20. aldar.

Pistillinn er birtur í heild sinni á medium.com/gudmundurhordur.

25. maí 2023

Helgi­sagan um þjóðar­sátt

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra birti nýverið pistil á Vísi þar sem hann leggur sitt af mörkum við smíðina á goðsögninni um þjóðarsáttina 1990. Frasarnir sem hann notar einkennast af nokkrum helgisögublæ – samhent átak, framfarabraut og hvorki meira né minna en nýtt upphaf þjóðar. Litlu síðar mætti svo hagfræðingur í Vikulok Rásar 1 sem gekk svo langt í trúarlegri upphafningu þjóðarsáttarinnar að það jaðraði við hagfræðilega nýaldarhyggju: „Svona eru peningamálin, ef þú bara ákveður að lækka verðbólguna og allir taka þátt þá nærðu henni niður.“ Tilgangurinn með þessari helgisögusmíð er auðvitað sá að sannfæra launafólk um að það beri mesta ábyrgð á verðbólgunni og að það þjóni hagsmunum þess best að biðja ekki um kjarabætur sem halda í við verðhækkanir. Þannig hverfi verðbólgan eins og dögg fyrir sólu. Ef við horfum hins vegar aftur í tímann og jafnvel út fyrir landsteinana þá áttum við okkur fljótt á því að helgisögusmíðin um þjóðarsátt er sérkennilega mikil einföldun á veruleikanum. Fyrir þeirri fullyrðingu vil ég nefna þrjár ástæður:

1. Verðbólga var á nær stöðugri niðurleið frá 1980 og fram að þjóðarsáttarsamningunum 1990, fyrir utan árið 1983 þegar verðbólgan reyndist sú hæsta sem mælst hefur hér á landi. Árið 1980 var verðbólga 59% en var komin niður í 21% árið 1989, þ.e. ári áður en þjóðarsáttarsamningar voru undirritaðir og hafði þá lækkað um 38 prósentustig. Á jafn löngu tímabili eftir þjóðarsátt, þ.e. frá 1990 til 1999 lækkaði verðbólgan um 13 prósentustig. Þannig náðist þrefalt meiri árangur í að kveða niður verðbólgu á níu ára tímabili fyrir þjóðarsátt en á jafn löngu tímabili eftir hana. Líklega var árangursríkasta ákvörðunin á þessari vegferð vaxtafrelsið 1984 sem tók á þeim verðbólguhvata sem neikvæðir útlánavextir höfðu verið í pólitískt reknu bankakerfi. Um jákvæð áhrif þessa er meðal annars fjallað í nýlegri ævisögur Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, þar sem segir að frá 1981 til 1991 hafi sparnaður í hagkerfinu tvöfaldast, farið úr 50% af landsframleiðslu í rúmlega 100%. Þessi stóraukni sparnaður hafi stuðlað að betra jafnvægi í hagkerfinu.

2. Eins og sést á myndinni hér að neðan var hækkun verðbólgu á 8. áratugnum alþjóðlegt vandamál og lækkun verðbólgunnar á seinni hluta þess 9. og alls 10. áratugarins var líka alþjóðleg þróun. Olíukreppan á 8. áratugnum er augljós hvati fyrir hækkun verðbólgu á alþjóðavísu en hröð lækkun olíuverðs á seinni hluta 9. áratugarins og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns á 10. áratugnum eru líklega helstu ástæður lækkunar verðbólgu. Þannig fór meðaltalsverðbólga í þróuðum ríkjum (advanced eonomies) úr því að vera í kringum 12% á 8. áratugnum í um 2% á þeim 10. og fram að þeirri hækkun verðbólgu sem við höfum séð á allra síðustu misserum.

3. Í nýlegri bók Stefáns Ólafssonar, Baráttan um bjargirnar, eru rök færð fyrir því að áhrif þjóðarsáttarinnar hafi verið ofmetin. Hann heldur því fram að breytt gengisstefna, þ.e. aukið gengisaðhald eftir 1990, hafi haft meiri áhrif á að verðbólga lækkaði en hófstilltar launakröfur stéttarfélaga. Þá hafi frá árinu 2001 verið tekið upp verðbólgumarkmið sem fól í sér mikið aðhald gegn gengisfalli og tilheyrandi verðbólgu. Stefán telur að gengi krónunnar sýni fram á þennan árangur en meðalbreyting á raungengi frá 1960 til 1990 hafi verið 1,4% lækkun en frá 1991 til 2020 hafi orðið viðsnúningur með meðaltalshækkun um 0,1% á ári. Þannig hafi breytt gengisstefna verið „meginástæðan fyrir því að verðbólgan komst á mun lægra stig en áratugina þrjá á undan og að úr hinum miklu sveiflum og sviptingum í hagstjórninni dró.“


Það er rannsóknarefni hvernig helgisögur verða til í nútímasamfélagi. Í tilfelli þjóðarsáttarinnar er þó augljóst að þar hafa margir háskólahagfræðingar og stjórnmálamenn og samtök atvinnurekenda haft mest áhrif. Fjölmiðlar hafa síðan endurómað áróðurinn, t.d. þótti fréttamanni Stöðvar 2 óhætt að fullyrða í frétt árið 2018: „Það er margra áratuga hagsaga íslensks þjóðfélags að óábyrgar launahækkanir hafa keyrt upp verðbólgu og eyðilagt framkvæmd sjálfstæðrar peningastefnu í landinu.“ Fréttastofa RÚV hélt því síðan óhikað fram árið 2020 að það hafi verið „hófleg launahækkun“ þjóðarsáttarsamninganna sem hefði tekist að „hemja verðbólguna og við tóku ár með efnahagslegum stöðugleika.“ En þegar öllu er á botninn hvolft voru það líklega vaxtafrelsið, gengisaðhald, lækkun olíuverðs og alþjóðavæðing framleiðslu og fjármagns sem höfðu mest áhrif á það að hér komst á verðstöðugleiki.

Pistillinn var fyrst birtur á Vísi.is.

23. mar. 2023

Hægri stjórnin sem hótaði hernum

Sagan af leiðtogafundinum í Höfða árið 1986 er vel þekkt og ekki síst það afrek íslenskra stjórnvalda að taka á móti Reagan og Gorbachev og heimspressunni með fárra daga fyrirvara. En það er önnur saga sem tengist fundinum í Höfða sem er ekki eins vel þekkt þó að hún hafi varðað hagsmuni Íslands með beinni hætti en sjálfur leiðtogafundurinn. Það er saga tveggja ára langrar deilu íslenskra og bandarískra stjórnvalda, hótana hægri stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um brottvísun bandarískra hersins frá Keflavík, leynilegra samningafunda og neyðarfundar bandaríska þingsins.