17. okt. 2021

Stéttaátök og kosningasvindl

Í Alþingiskosningunum 1927 urðu tveir menn uppvísir að atkvæðafölsunum í máli sem hefur verið nefnt Hnífsdalsmálið, eina kosningasvindlinu hér á landi sem hefur komið inn á borð kjörbréfanefndar Alþingis, Hæstaréttar og Scotland Yard. Ég rakti þessa sögu í pistli sem hægt er að lesa á gudmundurhordur.medium.com, en í nýjum hlaðvarpsþætti fylgi ég pistlinum eftir með viðtali við Sigurð Pétursson sagnfræðing, en hann hefur skrifað mikið um vestfirska verkalýðssögu og þar á meðal um Hnífsdalsmálið.


3. sep. 2021

Lýðræðisleiðin í kvótamálum

Bráðum verða liðin fjörutíu ár frá því að kvótakerfi var komið á í sjávarútvegi og þá mun það hafa verið við lýði hálfa lýðveldissöguna. Sjálfur er ég fáum árum eldri en kerfið og þess vegna hafa gallar þess verið til umræðu alveg frá því að ég fór að fylgjast með pólitískri umræðu.

Í fyrstu bar mest á umræðu um neikvæð áhrif þess á einstaka sveitarfélög eða landshluta, en í kjölfar hrunsins hefur umræðan í auknum mæli snúist um réttmætan hlut þjóðarinnar í auðlindaarðinum og þá yfirburðastöðu sem eigendur útgerðarfyrirtækja geta náð á öðrum sviðum viðskiptalífsins í krafti hans. Það er síðan á allra síðustu misserum sem okkur hefur orðið ljóst hvernig útgerðarfélögin skaða orðspor þjóðarinnar erlendis, allt sunnan frá Namibíu til Norðurlandanna, og hvernig fyrirtækin beita ógnarvaldi sínu til að kæfa gagnrýna umræðu og veikja opinbert eftirlit.

Þetta hefur gert það að verkum að einungis 14% aðspurðra segjast ánægð með núverandi útfærslu á kvótakerfinu og 64% telja að sjálfu lýðræðinu stafi ógn af því. Samt sem áður bendir ekkert til þess að kerfinu verði breytt, t.d. í kjölfar kosninga í haust. Ástæða þess er einföld, eins og Gylfi Magnússon prófessor fjallað ágætlega um í nýlegri grein - þröngir sérhagsmunir fárra skáka alltaf hagsmunum fjöldans vegna þess að þeir sem eiga ríkra sérhagsmuna að gæta berjast af miklu meiri hörku en dreifður hópur almennings, þar sem hver og einn hefur mun minni hagsmuna að gæta. Að auki má bæta við þessa greiningu Gylfa að hinn dreifði almenningur hefur ólíkar skoðanir á því hvernig laga skuli kerfið, t.d. hvort og þá hversu hratt eigi að taka kvóta af útgerðunum eða hvort taka eigi fullt eða eðlilegt gjald fyrir veiðiréttinn. Þess vegna hefur árangur af stjórnmálabaráttu umbótaflokka orðið lítill á þessu sviði í hartnær fjóra áratugi, nema ef vera skyldi veiðigjaldið sem vinstristjórninni 2009-2013 tókst að gera að tekjustofni fyrir ríkissjóð.

Vegna hinna dreifðu hagsmuna almennings og ólíkra krafna um umbætur mun vald og auður Samherja og þeirra líkra halda áfram að aukast á komandi árum, nema að almenningur komi sér saman um tillögur að breytingum á kerfinu. Lýðræðisfélagið Alda hefur lagt til aðferð að því marki og birt á lydraedisleidin.alda.is. Lýðræðisleiðin felur í sér tvö skref á næsta kjörtímabili, vönduð úttekt á kostum og göllum kerfisins yrði það fyrra en í kjölfarið fylgdi þátttökulýðræðisferli með slembivöldu borgaraþingi og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í könnun sem MMR vann fyrir Öldu í sumar segjast 56% fylgjandi því að þessi leið sé farin en 25% eru því andvíg. Á borgaraþingum eins og hér um ræðir fá 50 til 150 fulltrúar bæði aðstöðu og tíma til að ræða flókin og erfið viðfangsefni og með slembivali er tryggt að þeir endurspegli samsetningu þjóðarinnar, t.d. út frá aldri, kyni og búsetu.

Hugmyndin um galla fulltrúalýðræðisins og þörfina fyrir aukið lýðræðislegt vald almennings er ekki ný af nálinni. Þannig skrifaði Páll Briem, þingmaður og mikill framfaramaður, undir lok 19. aldar að þingið væri ekki það sama og þjóðin og að þingvilji væri ekki þjóðarvilji: ,,Þjóðin á að ráða og þess vegna á að takmarka vald þingmanna, segi ég. … Það verður verkefni næstu aldar að búa til takmarkaðan parlamentarisma, eins og þessi öld hefur búið til takmarkað konungsveldi.“ Rúmri öld síðar skrifaði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á sömu nótum um að þjóðin væri ekki bara jafn vel í stakk búin til að taka ákvarðanir eins og kjörnir fulltrúar, hún væri þeim fremri: ,,Hún hefur það umfram hina kjörnu fulltrúa að sérhagsmunahópar eiga ekki jafn auðvelt með að ná til þjóðarinnar allrar eins og til einstakra þingmanna eða sveitarstjórnarmanna til að hafa áhrif á þá."

Í ljósi þess að Alþingi hefur gengið illa að svara kalli almennings um breytingar á kvótakerfinu þá hvet ég alla flokka sem nú eru í framboði til að gera tillögur Öldu um lýðræðisleiðina að sínum. Þannig verður hægt að taka hagsmuni fjöldans fram yfir þrönga sérhagsmuni útgerðarinnar.

(Pistillinn var fyrst birtur á Kjarnanum 2.9.2021)

21. mar. 2021

Meint ættleysi EimreiðarhópsinsGunnar Smári Egilsson skrifaði nýverið fróðlegan pistil sem var birtur á Miðjunni undir fyrirsögninni „Eimreiðarhópurinn var hópur hinna ættlausu innan flokksins“. Í pistlinum sagði að hópurinn hefði rofið tök gömlu valdaættanna á Sjálfstæðisflokknum og ættarsaga flokksins væri svona: „Fyrst kemur tímabil þar sem rótgrónar valda- og auðættir velja sína formenn, í 54 ár frá 1929-1983. Þá kemur að formönnum Eimreiðarhópsins sem eru lítið eða ekkert tengdir þessum ættum. Þeir eru formenn frá 1983-2009, í 26 ár. Og þá hrynur Ísland undan stefnu flokksins og flokkurinn með. Og valdamesta ætt flokksins, Engeyingar, komu þá sínum manni að, Bjarna Benediktssyni yngri.“ 

Áhrif Eimreiðarhópsins svonefnda á íslensk stjórnmál frá því um 1980 verða seint ofmetin, enda fóru nokkrir einstaklingar úr hópnum með óhóflega mikil völd í stjórnmálum, viðskiptum og dómskerfinu um langt skeið. Og rétt eins og að fyrsta lögmál varmafræðinnar segir okkur að orka verði ekki til úr engu þá getum við dæmt af reynslunni að samfélagsleg völd verða heldur aldrei til úr engu. Það verður þess vegna að teljast nokkuð ótrúverðugt að nokkrir einstaklingar, „ættlausir“ hugsjónamenn, geti náð algjörum tökum á valdamesta stjórnmálaflokki landsins og þar með gangverki samfélagsins eins og þarna gerðist. Enda er það ekki saga Eimreiðarhópsins, nema síður sé. 

Eimreiðarhópurinn er hópur manna sem eru fæddir í kringum 1950, skoðanabræður sem „krunkuðu sig saman“ þegar þeir voru í háskólanámi, eins og einn úr hópnum orðaði það í viðtali. Þeir urðu eftirtektarverðir boðberar frjálshyggju innan Sjálfstæðisflokksins þegar þeir tóku við útgáfu Eimreiðarinnar árið 1972. Þar var margt skrifað um gildi einstaklingshyggjunnar og ókosti sósíalismans og hafa sumir ályktað að Eimreiðarhópurinn hafi verið á réttum stað á réttum tíma þegar samfélög Vesturlanda gengu í gegnum hugmyndafræðilegt breytingaskeið nýfrjálshyggjunnar í kringum 1980. Hópurinn hafi þannig komist til valda og áhrifa með því að fylla upp í hugmyndafræðilegt tómarúm innan Sjálfstæðisflokksins. En það stenst varla skoðun, enda hefur hugmyndafræðileg umræða sjaldnast slík áhrif ein og sér. Það er þess vegna nauðsynlegt að gefa því nánari gaum hvaða einstaklingar skipuðu Eimreiðarhópinn og hvort og þá hvaða tengsl þeir höfðu við ráðandi valdahópa í samfélaginu, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Skulu hér nefndir fimm áhrifamenn í hópnum sem urðu síðar forstjórar, ráðherrar, ráðuneytisstjórar, Hæstaréttardómarar og stjórnarformenn stórfyrirtækja: 

  1. Tengdasonur þingmanns Sjálfstæðisflokksins 1946-1962 sem var náinn bandamaður Jóhanns Hafstein, formanns flokksins 1970-1973. Að þingferli loknum var hann gerður að bankastjóra flokksins í Útvegsbankanum 1963-1984, en Útvegsbankinn var ein af helstu valdastoðum Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma. 
  2. Sonur auðmanns sem var náinn bandamaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1961-1970. 
  3. Tengdasonur framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stórveldis í viðskiptalífinu, sem sjálfur var sonur stórkaupmanns og trausts liðsmanns Sjálfstæðisflokksins eins og Jóhann Hafstein orðaði það í minningargrein. Tengdasonur dóttur bankastjóra Útvegsbankans 1932-1955.
  4. Barnabarn fyrsta formanns Félags íslenskra stórkaupmanna og fyrsta heiðursfélaga þess. 
  5. Sonur kaupmanns sem sat í stjórnum Verslunarráðs Íslands, Félags íslenskra iðnrekenda, Félags íslenskra stórkaupmanna og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kvæntist barnabarni bæði ritstjóra Morgunblaðsins 1924-1963 og framkvæmdastjóra Kveldúlfs, fyrsta formanns Vinnuveitendasambandsins og bróður Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins 1934-1961. 
Eimreiðarhópurinn byggði þannig að stórum hluta á rótgrónum völdum innan Sjálfstæðisflokksins og gömlum auð, en að auki á gáfum, metnaði, harðdrægni og leiðtogahæfileikum „ættlausra“ manna innan hans. Hópurinn reyndist síðan á réttum stað á hárréttum tíma þegar gamli valdahópurinn í kringum Morgunblaðið, Eimskipafélagið, Skeljung, Sjóvá og Íslenska aðalverktaka, með Geir Hallgrímsson í forystu, var orðinn lúinn eftir áralanga valdabaráttu innan flokksins og þurfti á liðsauka að halda. Til þess verks gekk Eimreiðarhópurinn mjög vasklega og hafði fullan sigur. Þess vegna verð ég að gera athugasemd við söguskoðun Gunnars Smára Egilssonar, eins og ég skil hana. Stjórnartími Eimreiðarhópsins 1983-2009 markaði alls ekki rof í valdasögu ættarvelda innan Sjálfstæðisflokksins, því að jafnvel þó að formenn flokksins á þessum tíma hafi sjálfir verið „ættlausir“ þá var valdakerfið að baki þeim jafn tengt ættarveldum og áður.

9. feb. 2021

Óspilltu fljóti fórnað fyrir 0,3% meiri raforku

Búið er að virkja meginfarveg fjögurra af tíu stærstu vatnasviða landsins, þ.e. Þjórsár, Blöndu, Jökulsár á Dal og Lagarfljóts. Orkufyrirtæki hafa sóst eftir því að virkja fjórar af þessum ám til viðbótar; Hvítá í Árnessýslu, Héraðsvötn, Kúðafljót og Skjálfandafljót, þannig að einungis tvær af tíu stærstu ám landsins fengju að renna óhindrað frá jökli til sjávar; Hvítá í Borgarfirði og Jökulsá á Fjöllum. Það mætti þess vegna halda því fram að á Íslandi séu stór óvirkjuð jökulfljót í útrýmingarhættu.

Nú er Skjálfandafljóti við það að verða spillt ef sveitarstjórn Þingeyjarsveitar veitir leyfi til þess. Til stendur að færa fljótið í verndarflokk rammaáætlunar samkvæmt þeirri tillögu sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi, enda er fljótið metið með þriðja mesta náttúruverndargildið af öllum þeim svæðum sem voru til umfjöllunar rammaáætlunar. Það stefndi því allt í að Skjálfandafljóti yrði þyrmt. En þá gerðist hið óvænta að fyrirtækið Einbúavirkjun ehf. sótti um að reisa virkjun í fljótinu miðju, virkjun sem ekki er fjallað um í rammaáætlun vegna þess að hún er sögð vera 9,8 MW, 0,2MW undir því 10 MW marki sem telst lágmarks stærð virkjunar til að hún sé tekin til umfjöllunar í rammaáætlun.

Fyrir utan mikið rask á nútíma eldhrauni þar sem virkjunin á að rísa í Bárðardal og neikvæð áhrif á dýralíf, þá mun virkjunin raska fyrir fullt og allt því jarðfræðilega ferli sem býr í fljóti sem þessu. Eins og segir í umsögn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga þá mun virkjunin færa stóran hluta rennslis fljótsins úr farvegi þess á 2,6 km kafla og mun farvegurinn standa nær vatnslaus þegar minnst rennsli er í ánni að vetri og „þannig mun virkjunin hafa áhrif á þá náttúrulegu ferla sem mótað hafa t.d. Goðafoss“. Náttúruverndarnefndin telur að virkjunin muni hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif á fljótið og hraunin sem „mynda órofa vist- og jarðfræðilega heild“. Umhverfisstofnun bendir síðan á að stífla virkjunarinnar muni draga úr aurburði fljótsins og því muni virkjunin líklega hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.

Hér á landi eru nú framleiddar 19.500 gígavattsstundir af rafmagni. Það gerir okkur að heimsmeisturum í raforkuframleiðslu með meira en tvöfalt meiri raforku á hvern einstakling en sú þjóð sem er í öðru sæti á heimslistanum. Að auki má ætla að við framleiðum nú um stundir talsvert meira af raforku en við höfum not fyrir vegna lokunar og framleiðsluminnkunar stóriðjufyrirtækja. Hér er því engin þörf fyrir aukna raforkuframleiðslu. Það blasir því við hversu fráleit sú hugmynd er að fórna óspilltu fljóti og rjúfa náttúrulega ferla sem eru mældir á jarðfræðilegum tímaskala, til þess eins að auka raforkuframleiðslu hér á landi um 69 gígavattsstundir, eða um 0,3%. Það getur enginn með góðri samvisku lagt þetta tvennt á vogarskálarnar og komist að þeirri niðurstöðu að Einbúavirkjun fái að rísa.

Með þessum orðum skora ég sveitarstjórn Þingeyjarsveitar að hafna tillögum um Einbúavirkjun og vernda Skjálfandafljót um ókomna tíð.


2. feb. 2021

Einkavætt í hugmyndafræðilegu hugsanaleysi

Fjármálaráðherra átti í vök að verjast á Alþingi þegar umræða um einkavæðingu Íslandsbanka fór fram. Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar vörpuðu fram eðlilegum spurningum um fyrirkomulag og forsendur einkavæðingarinnar sem fjármálaráðherra svaraði einungis með ásökunum um hugmyndafræðilegar öfgar þeirra, en líkti sjálfur íslenska bankakerfinu við það norður-kóreska og kínverska! Heilbrigðum efa og skynsamri varkárni var þannig svarað með öfgafullum upphrópunum. Gagnrýnin hugsun var afgreidd sem kommúnismi. Þrátt fyrir allt sem þjóðin gekk í gegnum í fjármálhruninu 2008 fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins, þykir núverandi formanni hans boðlegt að bjóða almenningi upp á trumpíska frasa þegar grundvöllur íslenska fjármálakerfisins er til umræðu. Hann veitti engin hughreystandi svör um forsendur einkavæðingarinnar, bara upphrópanir um hugmyndafræðilega yfirburði sína. Fjármálaráðherra hagaði sér því miður eins og bráðlátur bardagamaður, en ekki sá vandvirki sáttasemjara sem þjóðin þarf nú á að halda til að treysta sér í aðra einkavæðingu bankakerfisins undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna virðast allir þeirrar skoðunar að nú eigi að hefja einkavæðingu Íslandsbanka og vísa í stjórnarsáttmálann þess efnis. Skoðum þess vegna hvað segir um boðaða einkavæðingu í sáttmálanum. Þar segir vissulega að leita eigi leiða til að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. En það er ekki allt og sumt. Fyrst segir í sáttmálanum: „Sátt þarf að ríkja um fyrirkomulag fjármálakerfisins til framtíðar.“ Síðar segir í sama kafla: „Eignarhald á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum verður að vera gagnsætt. … Mikilvægt að dregið sé úr áhættu óskyldra þátta í starfsemi fjármálafyrirtækja“. Það slær mann óneitanlega að ríkisstjórnin virðist einungis ætla að efna það eitt sem segir um einkavæðinguna í sáttmálanum en ekki hitt sem fjallar um sátt, gagnsæi og áhættu óskyldra rekstrarþátta. Nýleg könnun sýnir að 56% almennings er andvígur einkavæðingu Íslandsbanka en innan við fjórðungur fylgjandi. Í könnun sem stjórnvöld létu sjálf gera haustið 2018 sögðust 61% vera jákvæð fyrir því að ríkið ætti viðskiptabanka en einungis 13,5% sögðust neikvæð. 57% sögðust bera lítið eða ekkert traust til íslenska bankakerfisins en 16% treystu því vel eða fullkomlega. Hrunið, græðgi, saga bankakerfisins og spilling voru algengustu ástæður þess að fólk vantreysti bönkunum. Það er því augljóst að með einkavæðingu Íslandsbanka er ríkisstjórnin beinlínis að vinna gegn eigin fyrirheitum í stjórnarsáttmála um að vinna að samfélagslegri sátt um fjármálakerfið. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki staðið við loforð um að eignarhald banka þurfi að vera gagnsætt. Þannig fékk stór hluthafi í Arion-banka undanþágu frá reglum um að upplýsa um raunverulega eigendur og varað hefur verið við að íslenskar stofnanir hafi enn ekki burði til að greina mögulega falin eignatengsl í væntanlegum eigendahópi einkavæddra banka. Þá hefur ríkisstjórnin heldur ekki staðið við loforð um að draga úr áhættu óskyldra þátta í starfsemi bankanna með því að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. Forseti Alþingis sagðist í nýlegu viðtali „vonast til“ að sett yrðu lög um þetta á „næstu mánuðum“. Þannig að af öllu því sem ríkisstjórnin lofaði í stjórnarsáttmála um breytingar á bankamarkaði virðist hún ætla að standa við það eitt að hefja einkavæðinguna.

Við sem erum eldri en tvævetur vitum að íslenska bankakerfið hefur einkennst af óstöðugleika sem hefur jafnan bitnað á öllum almenningi með verðbólgu, miklum gengisbreytingum og hækkunum afborgana. Þess vegna hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þróun kerfisins á síðustu árum þar sem meiri ró hefur færst yfir, verðbólga hefur verið í lægri kantinum, mikil rekstrarhagræðing hefur farið fram í bönkunum og örlað hefur á samkeppni á lánamarkaði. Óróleikamerkin hafa hins vegar komið frá einkareknu bönkunum. Þannig hafa fréttir borist af miklu útlánatapi Arion-banka, sumir úr eigendahópi bankans hafa farið huldu höfði, bankinn virðist vera leiðandi í endurupptöku kaupaukakerfis fyrir stjórnendur og stundað umdeild uppkaup á eigin bréfum (sem Seðlabankinn hefur varað við). Og fólk úr innsta kjarna Sjálfstæðisflokksins hefur raðað sér í stjórnunarstöður í bankanum. Gamma, annar einkabanki sem var í eigu og rekinn af innanbúðarfólki í Sjálfstæðisflokknum, sigldi í strand árið 2019. En af ríkisreknu bönkunum, Landsbanka og Íslandsbanka, heyrist fátt annað en að þeir skaffa reglulegar arðgreiðslur í ríkissjóð. Í ljósi þessa þarf maður líklega að vera blindaður af hugmyndafræði til þess að álykta að bankarekstur eigi endilega betur heima í höndum einkafjárfesta en þeirra sem starfa í þágu almannahagsmuna.

Páll Skúlason, heimspekingur og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, skrifaði um hugmyndafræðina á því örlagaríka ári 2008: „Hugmyndafræðin styðst ekki við rök heldur það sem segir sig sjálft og ekki þarf að ræða eða rökstyðja. Þannig kyndir hún undir hugsunarleysi. … Hættan við alla hugmyndafræði er sú að hún hafnar fyrirfram gildi gagnrýninnar hugsunar og telur sig þegar hafa höndlað sannleikann.“ Forysta Sjálfstæðisflokksin hefur í gegnum tíðina komið bönkum og opinberum rekstri í hendur vina og vandamanna í skjóli hugmyndafræðilegs hugsanaleysis. Nú fellur það í hlut almennings að koma í veg fyrir að sá leikur endurtaki sig. Einkavæðing þarf að fara fram á réttum forsendum, ekki þeim einum að Sjálfstæðisflokkurinn heimti hana.