12. mar. 2020

Hlaðvarp: Þjóðaratkvæðagreiðsla um auðlindaákvæði

Nú eru fimm ár liðin síðan hópur fólks safnaði undirskriftum undir yfirskriftinni „Þjóðareign“ með það að markmiði að stöðva frumvarp Sigurðar Inga Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að afhenda útgerðum makrílkvóta til lengri tíma en eins árs. Tæplega 54 þúsund Íslendingar ljáðu hópnum nafn sitt og varð þetta því fimmta fjölmennasta undirskriftasöfnun sem hefur farið fram hér á landi. Og frumvarpið varð aldrei að lögum. Nú hefur þessi sami hópur sent forseta Alþingis og öllum formönnum þingflokka áskorun þess efnis að þjóðin fái að kjósa milli tveggja tillagna að auðlindaákvæði í stjórnarskrá, annars vegar tillögu Stjórnlagaráðs og hins vegar tillögu sem ríkisstjórnin lagði fram til umsagnar um mitt ár í fyrra. Ég ræddi við Bolla Héðinsson, en hann er einn af þeim sem að áskoruninni standa.


15. feb. 2020

Hlaðvarp: Stytting vinnuvikunnar

Það hefur sýnt sig að stytting vinnuvikunnar eykur bæði afköst og hamingju starfsfólks. En hvers vegna erum við þá ekki komin lengra á þessari vegferð? Ég ræddi við Guðmund D. Haraldsson, stjórnarmann í Öldu og áhugamann um styttingu vinnutímans.

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan, en einnig er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpinu á öllum hlaðvarpsveitum.


5. des. 2019

Sjávarútvegsráðherra er vanhæfur

Tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar við eigendur Samherja eru svo mikil að þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra sagðist hann sjálfur ætla að „meta hæfi sitt“ þegar mál sem tengdust Samherja kæmu til umfjöllunar í ráðuneytinu. Síðan eru liðin tvö ár – hálft kjörtímabil – og skiptin sem hann hefur metið sig vanhæfan eru engin. Maðurinn sem hefur þegið fé og ýmsar sporslur frá Samherja og er í fallegu vinasambandi við forstjóra félagsins hefur aldrei – ekki einu sinni - séð ástæðu til að efast um eigið hæfi til að fjalla um málefni fyrirtækisins.

Samt hafa næg tilefni verið til. Sjávarútvegsráðherrann hefur til að mynda lagt fram á Alþingi og fengið samþykkt umdeilt lagafrumvarp um kvótasetningu makríls sem færði Samherja gríðarleg verðmæti. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Ráðherrann hefur síðan stuðlað að framkvæmd laganna með þeim hætti að verðmæti Samherja hafa aukist enn frekar. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Það er síðan sérstök ákvörðun að aðhafast ekki í einstaka málum sem tengjast Samherja beint. Til að mynda hefur sjávarútvegsráðherra ekki brugðist við endurteknum ábendingum Fiskistofu um galla í reglum um vigtun afla, reglum sem hafa mikil áhrif á afkomu Samherja. Hann hefur heldur ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum um galla í lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að of miklar fiskveiðiheimildir safnist á sömu hendur, ákvæði sem hefur mikil áhrif á rekstur og arðsemi Samherja. Sjávarútvegsráðherra telur sig líklega vel hæfan til að svæfa þessi mál í ráðuneytinu.

Forsætisráðherra hefur varið stöðu sjávarútvegsráðherra og segir að hann njóti síns stuðnings þar til að hann verði beinlínis uppvís að lögbrotum. Að baki þessu viðhorfi er ísköld lagahyggja en ekkert pólitískt siðferði. Reyndar má halda því fram að þessi afstaða standist ekki einu sinni góða stjórnsýsluhætti, enda segir í 3. gr. stjórnsýslulaga að ráðherra kunni að vera vanhæfur „ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“ Sjávarútvegsráðherra hefur allan sinn stjórnmálaferil verið bendlaður við pólitískar ákvarðanir sem tengjast vexti og viðgangi Samherja, fyrst í tengslum við sölu á Söltunarfélagi Dalvíkur árið 1990 þegar hann var bæjarstjóri þar og síðar þegar Samherji hafði stærsta togara landsins af Ísfirðingum þegar sjávarútvegsráðherra var samtímis bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarformaður Samherja. Það er því alveg óhætt að álykta sem svo að fyrir hendi séu aðstæður til að draga óhlutdrægni sjávarútvegsráðherra í efa og þar af leiðandi ákvarðanir hans um eigið hæfi í ráðuneytinu.

Á undanförnum árum hafa staðið yfir meiriháttar átök um makrílkvóta Íslendinga og milljarða verðmætin sem honum fylgja. Stóru útgerðarfélögin töldu að þau hefðu ekki fengið allan þann kvóta sem þeim bar samkvæmt lögum og stefndu ríkinu til að fá skaðabótaskyldu sína staðfesta. Hæstiréttur dæmdi fyrirtækjunum í vil í desember í fyrra og nú undirbúa þau skaðabótakröfur sínar upp á milljarða, kannski tugi milljarða, vegna þessa. Samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis þá kemur það í hlut sjávarútvegsráðherra að ákveða hvort bótaskyldan verði viðurkennd eða þá hvort og hvernig henni verði andmælt. Hvernig eiga skattgreiðendur að treysta sjávarútvegsráðherra til þess að gæta sinna hagsmuna í þessu máli þegar hann hefur allan sinn stjórnmálaferil verið flæktur í hagsmunagæslu fyrir Samherja? Eitt er allavega víst að hann mun meta sjálfan sig vel hæfan til að taka þessa ákvörðun. Það er því í okkar höndum að verja þessa sameiginlegu hagsmuni okkar með því að krefjast afsagnar sjávarútvegsráðherra á kröfufundi á Austurvelli laugardaginn 7. desember kl. 14. Sjáumst þar.

22. nóv. 2019

30 ástæður til að mótmæla - aftur

Nú eru fimm ár síðan ég skrifaði víðlesinn pistil með þrjátíu ástæðum til að mótmæla á Austurvelli (hann er að vísu horfinn af dv.is en lifir hér). Þá hafði verið boðað til mótmæla gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, m.a. vegna lekamálsins svokallaða. Nú verður aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar aftur mótmælt á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14 og mér datt í hug að prófa að endurtaka leikinn. Þið megið svo bæta á þennan lista eftir þörfum í ummælum hér að neðan.
 1. Við sitjum uppi með sjávarútvegsráðherra sem er vanhæfur til að fjalla um málefni stærsta útgerðarfélags landsins.
 2. Veiðigjöldin lækka og þau duga ekki einu sinni fyrir kostnaði við stjórnsýslu í kringum útgerðina. Á sama tíma sanka stórútgerðarmenn að sér fordæmalausum auðæfum á íslenska vísu og leggja undir sig önnur svið atvinnulífsins.
 3. Eigendur útgerðanna voru fyrirferðarmiklir í Panamaskjölunum og virðast enn geyma fé og fyrirtæki í þekktum skattaskjólum.
 4. Stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við skýrslu Ríkisendurskoðunar um algjöran skort á eftirliti með því að útgerðirnar vigti afla samkvæmt lögum.
 5. Makrílkvótinn var gefinn útgerðarfyrirtækjum og nú ætla sömu fyrirtæki að sækja milljarða í skaðabætur til skattgreiðenda vegna þess að gjöfin var ekki nægilega auðsótt á sínum tíma.
 6. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þegið og þiggja enn háa fjárhagsstyrki frá útgerðinni.
 7. Hagfræðingur sem hefur viljað koma á eignarrétti útgerðarinnar á fiskinum í sjónum er orðinn Seðlabankastjóri. Hans fyrsta verk var að koma tölvupóstum uppljóstrara innan bankans í hendur stjórnarformanns Samherja. Sami maður var starfsmaður fjárglæfrafyrirtækjanna Kaupþings og Gamma og er nú orðinn æðsti yfirmaður fjármálaeftirlits í landinu.
 8. Forsætisráðherra tilkynnti uppljóstrara innan Seðlabankans til lögreglu.
 9. Við sitjum uppi með fjármálaráðherra sem hefur orðið uppvís að mörgum vafasömum fjármálagjörningum. 
 10. Einkavæðing bankanna er að hefjast undir stjórn þessa sama fjármálaráðherra og án þess að síðasta einkavæðing bankanna hafi verið rannsökuð fyrst, þ.á.m. möguleg lögbrot henni tengdri. 
 11. Vinna hafin við undirbúning einkavæðingar Keflavíkurflugvallar.  
 12. Leynt og ljóst unnið að aukinni einkavæðingu raforkukerfisins.
 13. Ríkisstjórnin vinnur gegn hagsmunum neytenda með því að veikja samkeppnislögin.
 14. Ísland hefur verið sett á gráan lista FATF vegna aðgerðaleysis í baráttu við peningaþvætti.
 15. Alþingi hefur ekki samþykkt tillögu stjórnarandstöðunnar um rannsókn á peningaþvætti sem kann að hafa verið stundað í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans.
 16. Ríkisstjórnin ætlar að verja greiðendur fjármagnstekjuskatts fyrir verðbólgu og lækka erfðaskatt á meðan því er haldið fram að innviðir samfélagsins svelti.
 17. Þeir sem þurfa að treysta einungis á greiðslur frá Tryggingastofnun er haldið í fátækt og ríkisstjórnin undirbýr jarðveginn fyrir ómanneskjulegt starfsgetumat.
 18. Lögmaður ríkisstjórnarinnar ræðst að hinum sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu með óþverrabrögðum.
 19. Stjórnvöld vísuðu óléttri móður úr landi, þvert á ráð hjúkrunarfræðings.
 20. Ríkisstjórnin boðar veggjöld sem leggjast þyngst á þá sem eru tekjulægstir.
 21. Nýja stjórnarskráin fæst ekki rædd á vegum stjórnvalda en þess í stað eru settar fram útvatnaðar tillögur sem sumar eru beinlínis skaðlegar hagsmunum almennings.
 22. Lífeyrissjóðakerfinu er enn stjórnað af atvinnurekendum.
 23. Lífeyrissjóðsgreiðslur verða sífellt hærra hlutfall af launum almennings, lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa verið skert og unnið er að hækkun lífeyrisaldurs.
 24. Unnið er því að reisa Hvalárvirkjun innan Drangajökulsvíðerna með stuðningi ríkisstjórnarinnar.
 25. Unnið að gangsetningu kísilvers í Helguvík þvert á vilja heimamanna. 
 26. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar þá hefur fátt markvert gerst í loftslagsmálum. 
 27. Uppljóstrun í Klausturmálinu um „greiða á móti greiða“ forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við veitingu sendiherraembætta hafði engar afleiðingar.
 28. Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís að grímulausri spillingu við skipan dómara í Landsrétt. Kostnaður skattgreiðenda af málinu er kominn yfir 60 milljónir og heldur áfram að hækka.
 29. Auðmenn, jafnt innlendir sem erlendir, kaupa upp mikinn fjölda jarða án nokkurra takmarkanna.
 30. Auðlindaarðinum af virkjunum Landsvirkjunar á að verja til áhættufjárfestinga í gegnum svonefndan Þjóðarsjóð.

Sjáumst á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14.

14. nóv. 2019

Kveikur – hvað svo?

Í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um starfshætti Samherja hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar sagt að málinu eigi að ljúka með rannsókn saksóknara og skattrannsóknarstjóra. Gott og vel – það er svona eins og að búa í fjölbýli með einstaklingi sem hefur orðið uppvís að einhverju vafasömu í eigin rekstri og hann eigi bara að halda áfram að sjá um sjóð húsfélagsins. Líklega yrði andinn í blokkinni ekki góður – og andinn í samfélaginu verður heldur ekki góður ef mútumál Samherja leiðir ekki til breytinga á umsjón okkar með fiskveiðiauðlindinni og samskiptum stjórnmálamanna og valdamikils viðskiptafólks.

Nú leikur enginn vafi á því lengur að það er eitthvað rotið í útgerðarvaldinu. Því til staðfestingar þarf ekki að leita lengra en í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar er t.d. að finna mann sem var nýverið dæmdur fyrir peningaþvætti, meiriháttar bókhaldslagabrot og meiriháttar skattalagabrot. Þar situr svo einn eigenda Samherja sem var staðinn að því að brjóta skattalög og er nú sakaður um að hafa greitt namibískum stjórnmálamönnum mútur. Þriðjan má svo nefna mann sem ber ábyrgð á rúmlega 20 milljarða króna gjaldþroti og hefur síðan verið viðriðinn vafasöm viðskipti. Svo má ekki gleyma að útgerðarfólk var fyrirferðarmikið í Panamaskjölunum og hefur sumt verið kært fyrir milljarða króna skattsvik.

Auður þessa hóps varð til með ákvörðunum þingmanna, fyrst með tilkomu kvótakerfisins 1984 og síðan með lögum 1997 sem heimiluðu veðsetningu kvótans. Þar með varð fjandinn laus í íslensku efnahagslífi, enda var peningaprentunarvald þannig fært í hendur fámenns hóps. Afleiðingarnar urðu þær að skuldir sjávarútvegsins í íslenskum bönkum voru um 560 milljarðar við bankahrunið 2008. Eftir hrunið hafa völd þessa hóps síðan bara vaxið, enda hefur hefur eiginfjárstaða útgerðanna batnað um 355 millj­arða króna og eigendur þeirra fengið 92,5 millj­arða í arð­greiðsl­ur. Þannig hefur orðið til ofurstétt útgerðarmanna, eins og Þórður Snær Júlíusson orðar það í nýlegri grein á Kjarnanum, sem „ræður þorra íslensks sjáv­ar­út­vegs, hafa efn­ast út fyrir allt sem eðli­legt þykir á síð­ustu árum og teygt sig til ítaka á öðrum sviðum sam­fé­lags­ins með þessa pen­inga að vopni. Þeir eiga hlut­deild í smá­sölu­mark­aðn­um, flutn­inga­fyr­ir­tækj­um, inn­lendri fram­leiðslu, trygg­inga­fyr­ir­tækjum og stærstu inn­flytj­endum lands­ins, svo fátt eitt sé nefnt.“

Í lýðræðisríkjum þarf almenningur að vera á sífelldum verði gagnvart auðræði (e. plutocracy) og fyrirtækjaræði (e. corporatocracy), sér í lagi í auðlindaríkum samfélögum eins og Íslandi þar sem yfirráð yfir auðlindum geta fært fámennum hópum óhófleg völd og áhrif. Þess vegna verða viðbrögð stjórnmálanna við mútumáli Samherja að vera meira afgerandi en ríkisstjórnin hefur boðað. Hér þarf að setja á fót rannsóknarnefnd sem hefur næg úrræði til að rannsaka í fyrsta lagi fjárhagsleg og félagsleg tengsl útgerðarmanna, stjórnmálamanna og stjórnenda í bankakerfinu, í öðru lagi völd útgerðarfólks á öðrum sviðum atvinnulífsins og krosseignatengsl fyrirtækja í þeirra eigu og í þriðja lagi hvort og þá hvernig arði af fiskveiðiauðlindinni hefur verið komið úr landi, t.d. með undanskoti afla, eignarhaldi íslenskra útgerða á erlendum félögum og óeðlilegri milliverðlagningu. Þá þarf ríkisstjórnin að hverfa frá stefnu sinni um lækkun veiðigjalda og hækki þau þannig að þau nái að lágmarki 50% af auðlindarentunni (þau eru nú um 10%). Það þarf að breyta lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda þannig að útgerðarfélögum, dótturfélögum þeirra og eigendum útgerðarfélaga og fyrirtækjum í þeirra eigu verði bannað að styrkja stjórnmálaflokka og frambjóðendur í prófkjörum og forsetakosningum. Hér þarf að herða á reglum um eignarhluti tengdra aðila í sjávarútvegsfyrirtækjum og brjóta upp samsteypur sem færa of mikil völd í fárra hendur, t.d. Útgerðarfélag Reykjavíkur, Samherja og FISK Seafood. Efla þarf starf Fiskistofu, sér í lagi eftirlit með vigtun sjávarafla, eins og Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á í skýrslu. Svo er engin ástæða til að draga það lengur að samþykkja tillögu Stjórnlagaráðs um að náttúruauðlindir verði lýstir þjóðareign í stjórnarskrá, rétt eins og samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 með 83% atkvæða. Og auðvitað gengur það ekki að þjóðin sitji uppi með sjávarútvegsráðherra sem viðurkennir sjálfur að hann sé vanhæfur til að fjalla um málefni stærsta útgerðarfélags landsins.

Það bíður okkar mikið verk að verja auðlindina okkar og lýðræðið. Sjáumst á Austurvelli.

17. okt. 2019

Virkjanaframkvæmdir í hálendisþjóðgarði

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd þingmanna og sveitarstjórnarmanna sem á að gera tillögu að stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Nefndin hefur nú birt áherslur sínar til umsagnar og fjallar þar m.a. um virkjanamál innan garðsins. Af þeim má ætla að þjóðgarðurinn muni ekki hafa í för með sér neina aukna vernd náttúrusvæða fyrir orkuöflun. Þannig segir á einum stað að hægt verði að „viðhalda og þróa núverandi orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs“ og að „málefni orkunýtingar í þjóðgarðinum kallist á við áætlanir Alþingis um orkunýtingu og orkudreifingu og tekið verði tillit til þeirra í frumvarpinu“. 

Ljóst er að þetta orðalag mun bjóða upp á áframhaldandi deilur um núverandi orkuvinnslusvæði innan væntanlegra marka þjóðgarðsins, t.d. í Þjórsárverum þar sem Landsvirkjun hefur enn upp áætlanir um veituframkvæmd í tengslum við aðrar virkjanir í Þjórsá, nú undir nafni Kjalölduveitu. Eins mun þetta orðalag hafa þau áhrif að áfram verður hægt að reisa nýjar virkjanir innan þjóðgarðsins, fái þær samþykki Alþingis samkvæmt Rammaáætlun. Þar má m.a. nefna Hágönguvirkjun og Skrokkölduvirkjun á miðju hálendinu sem myndu skerða verðmæta náttúru og hálendisvíðerni. Að minnsta kosti sjö aðrar virkjanir eru nú í biðflokki Rammaáætlunar sem gætu fallið innan marka hálendisþjóðgarðs. 

Í skýrslu frá 2013 um óbyggð víðerni í Evrópu sem nefnist Wilderness register and indicator for Europe kemur fram að stór hluti villtustu víðerna Evrópu sé á Íslandi, eða 42% samkvæmt niðurstöðu eins skýrsluhöfundar. Víðerni á hálendi Íslands eru því meðal síðustu stóru víðerna Evrópu og mikilvægt er að fjalla um hálendið í því ljósi. Verulega hefur gengið á þessi víðerni á síðustu árum og áratugum, ekki síst með stórum virkjanaframkvæmdum eins og byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Samkvæmt einni rannsókn minnkuðu víðernin um 68% á tímabilinu 1936 til 2010. Það er mikilvægt að stöðva þessa þróun og það hlýtur að vera meðal markmiða stjórnvalda með stofnun sérstaks hálendisþjóðgarðs. Ef ætlunin er ekki að veita hálendisvíðernum og íslenskri náttúru vernd fyrir stórfelldum virkjanaframkvæmdum þá er óhætt að álykta sem svo að vinna að stofnun þjóðgarðsins sé tilefnislaus eyðsla á almannafé og vinnutíma þingmanna og opinberra starfsmanna.


10. okt. 2019

Ys og þys út af engu

Nú þegar kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar er hálfnað er eðlilegt að meta árangur hennar í hinum ýmsu málum, náttúruverndinni þar á meðal. Við sem stóðum í náttúruverndarbaráttu á kjörtímabili vinstri stjórnarinnar 2009-2013 munum að aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn er engin trygging fyrir öflugu náttúruverndarstarfi, nema síður sé. Sú ríkisstjórn vann hörðum höndum að uppbyggingu stóriðju á Bakka og í Helguvík, m.a. með framlögum úr ríkissjóði og virkjunum á einstæðum jarðhitasvæðum, leyfi var veitt til leitar og vinnslu olíu í íslensku hafsvæði og svæði eins og Mývatn, miðhálendið og Drangajökulsvíðerni voru sett í svonefndan virkjanaflokk rammaáætlunar.

Það voru því ekki miklar væntingar sem maður bar til samstarfs Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þeim f lokkum sem gangast við því að vera virkjanaflokkar af gamla skólanum. Engu að síður má ríkisstjórnin eiga það að hún hefur gengið vasklega fram – í hinum óumdeildu málum. Þannig hefur Jökulsá á Fjöllum verið friðuð, enda var hún sett í verndarflokk rammaáætlunar 2013, hefur verið innan þjóðgarðs frá 2008 og ég þekki ekki það orkufyrirtæki sem er svo galið að ætla sér að virkja Dettifoss. Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið stækkaður með því að færa undir hann svæði sem hafði hvort sem er verið sjálfstætt friðland í 45 ár. Og þriðji „stóri“ áfangi þessarar ríkisstjórnar í náttúruverndarmálum var svo skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. Lauk þar með vegferð sem var svo óumdeild að hún hófst í tíð hægri stjórnarinnar 2013-2017 þegar umhverfisráðherra Framsóknarflokksins tilnefndi þjóðgarðinn til heimsminjaskrár.

Á þessum tveimur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki lyft litla fingri í umdeildum átakamálum á sviði náttúruverndar, nema þá til að aðstoða framkvæmdaraðila eins og í laxeldismálinu sem þjösnað var í gegnum Alþingi síðastliðið haust. Nefna má nokkur fleiri mál sem benda til þess að svonefndir framkvæmdaaðilar mæti aldrei nokkurri andstöðu hjá þessari ríkisstjórn:

Framkvæmdir við Hvalárvirkjun eru hafnar þrátt fyrir neikvætt umhverfismat og fjölda kærumála. Um 50 virkjanir eru í undirbúningi utan Rammaáætlunar, margar hverjar mjög umdeildar. Gefið hefur verið út rannsóknarleyfi fyrir virkjun í Djúpá þrátt fyrir að áin sé í verndarf lokki Rammaáætlunar. Unnið er að undirbúningi virkjunar í Skjálfandafljóti þrátt fyrir að áin sé í biðflokki Rammaáætlunar. Unnið er að gangsetningu kísilvers í Helguvík gegn vilja íbúa í Reykjanesbæ. Unnið er að fjölgun stóriðjuvera á Bakka með tilheyrandi mengun á svæðinu, þörf fyrir fjölgun virkjana og aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Undirbúningur fyrir hafnargerð í Finnafirði mun vera kominn á fullt. Undirbúningur fyrir vegagerð í gegnum Teigsskóg er hafinn að nýju. Gengið er hratt á síðustu óspilltu víðernin hér á landi, þ. á m. Drangajökulsvíðerni með virkjun Hvalár og Landsvirkjun vinnur enn að undirbúningi jarðhitavirkjunar á miðhálendinu.

Ríkisstjórnin hefur nýtt fyrri hluta yfirstandandi kjörtímabils til að fegra umbúðir náttúruverndarinnar en hún hefur ekki lagt í að taka á innihaldinu. Það kemur í ljós á næstu tveimur árum hvort eftirmæli ríkisstjórnarinnar á þessu sviði verða, en miðað við árangurinn hingað til gætu þau orðið „Ys og þys út af engu“.

(Greinin var fyrst birt í Fréttablaðinu 10. október 2019).