8. júl. 2019

Brenndir lífeyrissjóðir stökkva á eldinn

Við sem greiðum stóran hluta launa okkar í lífeyrissjóði gerum eflaust flest þá eðlilegu kröfu til stjórnenda þeirra að þeir vandi sig við fjárfestingar, séu frekar íhaldssamir en ævintýragjarnir og að þeir séu nægilega jarðbundnir til að sjá í gegnum háfleygar söluræður braskara. Því miður hefur stjórnendum nokkurra lífeyrissjóða orðið hált á því svellinu að undanförnu. Má þar t.d. nefna 1,4 milljarða króna hlutabréfakaup fjögurra þeirra í Silicor Materials Holding árið 2015, fyrirtæki með vafasama rekstrarsögu sem ætlaði að framleiða sólarkísil með aðferð sem hvergi hafði áður verið beitt í heiminum! Verksmiðjan reis auðvitað aldrei og fé lífeyrisgreiðenda rann líklega allt í vasa lögfræðinga, ráðgjafa og stjórnenda fyrirtækisins, m.a. til að draga íbúa Hvalfjarðar í gegnum allt dómskerfið í árangurslausri tilraun til að koma í veg fyrir að verksmiðjan færi í gegnum mat á umhverfisáhrifum.

Annað og nýlegra dæmi um illa ígrunduð viðskipti stjórnenda lífeyrissjóða er rúmlega tveggja milljarða króna fjárfesting í kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, verksmiðju sem var rekin í þrot á þremur árum af einstaklingum sem vitað var að kunnu ekki til verka og áttu vafasama fortíð í viðskiptum og rekstri. Stjórnendur lífeyrissjóðanna þurftu að þola mikla gagnrýni vegna fjárfestingarinnar, bæði frá almennum eigendum sjóðanna sem töpuðu á þessu fé en einnig frá íbúum Reykjanesbæjar sem þurftu að búa við loftmengun frá verksmiðjunni. Lífeyrissjóðirnir brugðust við þessu með þeim óvenjulega hætti að kæra framkvæmdastjóra United Silicon og aðra stjórnendur félagsins til héraðssaksóknara. Töldu þeir að m.a. þyrfti að rannsaka hvort fjármunir United Silicon „hafi mögulega verið nýttir, með ólögmætum hætti, til að fjármagna aðkomu [framkvæmdastjórans], eða aðila honum tengdum, að verkefninu.“ Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá Héraðssaksóknara er þessi kæra enn til skoðunar. Í nýlegri skýrslu lífeyrissjóðanna um mögulega skaðabótaskyldu forsvarsmanna fyrirtækisins, ráðgjafa og opinberra stofnana segir svo: „Ástæða er að taka það sérstaklega til skoðunar hvort forsvarsmenn [United Silicon] hafi vitað eða mátt vita frá upphafi að áætlanir þeirra um uppbyggingu verksmiðjunnar í Helguvík hafi verið óraunhæfar og þá hugsanlega byggðar á röngum eða sviksamlegum forsendum“.

Málshátturinn segir að brennt barn forðist eldinn. Þess vegna vekur það furðu að nú séu lífeyrissjóðirnir aftur komnir í viðskiptasamband við annan af stofnendum United Silicon, nú í tengslum við virkjanaframkvæmd norður á Ströndum. Þar hefur sá farið með umboð fyrir ítalska huldumanninn Felix Von Longo-Liebenstein, sem var einnig eigandi lítils hlutar í hinu gjaldþrota kísilveri. Lífeyrissjóðirnir standa að þessum umdeildu virkjanaframkvæmdum í gegnum 50% hlut sinn í HS Orku og dótturfélagi þess, Vesturverk. Það var síðastnefnda fyrirtækið sem gerði samning um vatnsréttindi virkjunarinnar við þá tvímenninga, ítalska huldumanninn og stofnanda United Silicon, samning sem nú virðist hafa byggt á röngum landamerkjum! Ef dómstólar staðfesta að svo sé þá má telja víst að það borgi sig ekki að reisa og reka Hvalárvirkjun, enda hefur hún hingað til fallið í hóp allra óhagkvæmustu virkjanakosta sem völ er á hér á landi.

Í sjálfu sér ættu sársaukafull átök í samfélaginu á Ströndum og mikil umhverfisspjöll að vera næg ástæða fyrir lífeyrissjóðina til að leggja fyrirætlanir um Hvalárvirkjun á hilluna, en ofan á það bætist nú að ein af grunnforsendum framkvæmdarinnar er vafasamur samningur dótturfyrirtækis lífeyrissjóðanna við erlendan huldumann og íslenskan umboðsmann hans sem lífeyrissjóðirnir hafa kært fyrir grun um refsiverð brot í fyrri viðskiptum við sjóðina. Lífeyrissjóðirnir eiga tilvist sína undir því að almenningur beri til þeirra traust. Þess vegna geta þeir ekki leyft sér að nota lögskyldan lífeyrissparnað okkar til að fjármagna loftkastala braskara og huldumanna, efna til harðvítugra samfélagsátaka eins og norður á Ströndum eða til að berjast gegn hagsmunum almennings eins og gert var í Helguvík og Hvalfirði. Láti sjóðirnir ekki af þessum starfsháttum mun vígvöllur mótmæla og átaka að öllum líkindum færast frá Trékyllisvík í Árneshreppi til höfuðstöðva Landssamband lífeyrissjóða í Reykjavík.

19. maí 2019

Ómar og orkupakkinn

Í umræðunni um þriðja orkupakkann hef ég talsvert rekist á spurninguna – hvar eru náttúruverndarsinnarnir? Og þeir hafa vissulega ekki verið háværir í þessari umræðu. Þess vegna hitti ég náttúruverndar-goðsögnina Ómar Ragnarsson og ræddi við hann um málið.


24. mar. 2019

Þjóðarsjóður um loftslagsaðgerðir

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hér á landi þvert á þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér með undirritun alþjóðlegra samninga frá 1992 og gerð loftslagsáætlana frá 2009. Nýjasta útspil stjórnvalda, Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030, mun ekki snúa þessari þróun við ef marka má umsagnir um hana. Ólík samtök og stofnanir eins og Samtök ferðaþjónustunnar, Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Reykjavíkurborg, Landvernd, Grænni byggð og Umhverfisstofnun sammælast um að þykja áætlunin augljóslega vanfjármögnuð, ekki síst hvað varðar rafvæðingu samgangna (300 milljónir ár ári í fimm ár) og uppbyggingu almenningssamgangna (ótilgreind upphæð). Alls verður 6,8 milljörðum varið til loftslagsverkefna á næstu fimm árum en á sama tíma ætla stjórnvöld að verja 93 milljörðum til að auka mengandi flugumferð um Keflavíkurflugvöll um 45%.

Samkvæmt nýjustu umhverfiskönnun Gallup þá fjölgaði þeim sem hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á eigið líf og sinna nánustu úr 60% í 67% á einu ári. Þá segja 63% aðspurðra að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun og 69% fólks á aldrinum 18-29 ára er þeirrar skoðunar. Á undanförnum vikum hefur ungt fólk um allan heim krafist róttækari aðgerða í loftslagsmálum með svonefndu loftslagsverkfalli. Í yfirlýsingu forystufólks þessarar hreyfingar hér á landi segir að núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda sé ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og því er þess krafist að fjárframlög til loftslagsaðgerða verði aukin í 2,5% af landsframleiðslu, en þau eru nú um 0,05%. Í

Í ljósi þess að 2,5% af landsframleiðslu eru um 70 milljarðar á ári má gera ráð fyrir að það reynist stjórnvöldum þungt í vöfum að að koma til móts við þessa kröfu. Vissulega er fjárveitingavaldinu þröngt skorinn stakkur þegar kemur að breytingum á ríkisútgjöldum, ekki síst með tilkomu ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára, auk þess sem fjölmargir hagsmunir og hópar takast á um það fé sem er til skiptanna ár hvert. Þess vegna hef ég lagt til í umsögn um frumvarp fjármálaráðherra um Þjóðarsjóð að hann verði nýttur til að svara þessu ákalli. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða árlegan arð til Þjóðarsjóðsins, eða sem nemur 0,35%-0,7% af landsframleiðslu. Það er u.þ.b. tífalt hærri upphæð en stjórnvöld áætla nú að verja til loftslagsaðgerða. Þá mætti auka tekjur Þjóðarsjóðs með því að láta mengandi starfsemi greiða til hans í anda megunarbótareglunnar. Þannig mætti sjá fyrir sér að kolefnisgjald, sem áætlað er að nemi sex milljörðum á þessu ári, renni í sjóðinn. Auk þess verður að teljast eðlilegt að einum stærsta losunarvaldi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, Isavia ohf., yrði gert að greiða gjald til Þjóðarsjóðsins. Með þessum hætti gætu tekjur sjóðsins mögulega náð 1% af landsframleiðslu, eða um 28 milljörðum króna.

Af nægum verkefnum er að taka til að nýta þetta fé, t.d. við rafvæðingu samgangna, eflingu almenningssamgangna, nýsköpun, landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og eflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Slíkar aðgerðir hefðu fjölmörg önnur jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið, m.a. aukið orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands, bætt loftgæði og lýðheilsu, sterkari samkeppnihæfni íslensks atvinnulífs, vernd viðkvæmrar náttúru og aukið matvælaöryggi.

Brýnasta verkefni mannkyns er að forðast hrun siðmenningar af völdum loftslagshlýnunar. Við öll, fulltrúar almennings á Alþingi þar á meðal, hljótum að fallast á þá skoðun að framlag hins opinbera til loftslagsaðgerða, sem samsvarar 0,05% af landsframleiðslu, sé ekki í neinu vitrænu samræmi við þá hagsmuni sem eru í húfi. Með tilkomu Þjóðarsjóðs fá þingmenn kærkomið tækifæri til að svara ákalli ungra Íslendinga og lýsa hátt og skýrt yfir samstöðu allra kynslóða í þeim krefjandi verkefnum sem bíða okkar. Það gæfi okkur þó einhverja von um að hægt sé að forðast þau örlög sem unga fólkið okkar óttast mest.

10. jan. 2019

Stjórnvöld stefna að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda

Heimsbyggðinni hefur algjörlega mistekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það mun bitna illa á lífsgæðum þeirra sem nú eru á barnsaldri. Það hefur ekki vantað upp á hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna um mikilvægi þess að draga úr losun, t.d. hefur forsætisráðherra sagt að loftslagsbreytingar séu stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir og að viðbrögð við þeim skipti öllu um hvernig framtíð mannkynsins verði. Vísindamenn hafa áréttað mikilvægi skjótra aðgerða og fullyrða að mannkynið hafi einungis tólf ár til að koma í veg fyrir stjórnlausa hlýnun og hörmuleg áhrif á samfélög og lífríki jarðar – hrun siðmenningar eins og David Attenborough orðaði það á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi.

Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í aðdraganda ráðstefnunnar segir að mannkynið þurfi að gjörbylta hegðun sinni á fjórum meginsviðum – orkunotkun, landnotkun, borgarskipulagi og iðnaði. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur greindi stöðuna ágætlega í viðtali við RÚV þegar hann sagði að staðan krefðist byltingarkenndra breytinga á öllum okkar kerfum: „Því hvernig menn nýta land, því hvað menn borða, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Þetta er hægt, það er bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega hægt að bregðast nógu fljótt við … Eina spurningin um það hvort það sé hægt er hin pólitíska spurning, það er, er pólitískur vilji til að gera það eða ekki, þar liggur efinn og boltinn er hjá stjórnvöldum, þau verða að draga vagninn.“

Hér á landi hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist mikið á undanförnum árum, þvert á allar þær stefnur og aðgerðaáætlanir sem stjórnvöld hafa lagt fram. Samkvæmt nýjustu tölum er losun okkar á hvern einstakling sú mesta í allri Evrópu og hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Þrátt fyrir þetta árangursleysi segist ríkisstjórnin nú ætla að gera betur en kveðið sé á um í Parísarsamkomulaginu og Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040. En hjá þessari ríkisstjórn, eins og þeim fyrri, er óralangt milli orða og athafna. Á sama tíma og háleit markmið eru sett fram þá vinnur ríkisstjórnin að verkefnum og framkvæmdum sem munu auka mjög losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að „hruni siðmenningar“. Dæmi um þetta er opinbera fyrirtækið ISAVIA sem nú stefnir að stækkun Keflavíkurflugvallar til að geta aukið mengandi flugumferð um 45%. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun misnotar kerfi ESB um upprunaábyrgð raforku, sem á að stuðla að aukinni framleiðslu endurnýjanlegrar orku, og blekkir þannig neytendur sem telja sig stuðla að grænni orkuframleiðslu á meginlandi Evrópu. Stjórnvöld hafa einnig unnið að því, m.a. í gegnum Landsvirkjun og með beinum ríkisstuðningi, að fjölga kísilverum með þeim afleiðingum að mengandi kolabrennsla jafnast nú orðið á við það sem gerðist á fyrri hluta síðustu aldar. Og á sama tíma og rætt er um að draga úr kolefnisfótspori matvæla þá skrifa ráðherrar undir samninga um mengandi flutninga á íslensku lambakjöti til Indlands og Kína.

Leiðarahöfundur Financial Times skrifaði nýverið að viðbragðsleysi stjórnmálamanna í loftslagsmálum stafaði af tveimur ólíkum forsendum – blindni sumra en sjálfsblekkingu annarra. Þeir sem afneiti enn loftslagsbreytingum af mannavöldum séu blindir, en það sé engu betra að hinir sem átti sig á ógninni þykist bara bregðast við vandanum. Íslenskt ráðafólk fellur í síðari flokkinn. Það leggur fram langar áætlanir um skógrækt og rafvæðingu bílaflotans en lætur síðan eins og millilandasamgöngur og iðnaður komi sér ekki við. Það er eins og bogaskytta sem ætlar sér að hitta í mark með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Það eru til margar þjóðsögur um bogmenn sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að bjarga afkomendum sínum með því að kljúfa epli á höfði þeirra. Nú stöndum við í slíkum sporum sem samfélag og það er undir okkur komið hvort stjórnvöld komist upp með að sinna þeirri björgunaraðgerð með hálfum huga.

29. nóv. 2018

Klaustur-upptökurnar eru tilefni til sakamálarannsóknar

Það er alveg augljóst að Klaustur-upptökurnar munu draga dilk á eftir sér fyrir þá þingmenn sem eru þar í aðalhlutverki, en einnig fyrir stjórnkerfið allt. Á upptökunum heyrist þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra lýsa því hvernig hann ákvað árið 2014 að skipa fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins sendiherra í Washington, gegn loforði um að hann ætti inni „svipaðan“ greiða síðar. Um þetta segir hann:
Ég átti fund með Bjarna [Benediktsson] í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“
Formaður Miðflokksins heyrist síðan staðfesta þessi orð:
Ég veit að þetta er rétt með sendiherrastöðuna. Ég nefndi þetta við Bjarna. Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi þetta. … Niðurstaðan var sú að Bjarni féllst á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.

Eins heyrist fyrrverandi utanríkisráðherra segja að hann hafi á sínum tíma rætt þetta samkomulag við formann Vinstri-grænna og núverandi forsætisráðherra.

Það er nokkuð ljóst að með þessu hefur þingmaður Miðflokksins gerst brotlegur við 128. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður] heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Ákvæðinu um alþingismennina var bætt inn í lögin árið 2013 vegna fullgildingar samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu. Fram kom í máli þáverandi innanríkisráðherra að frumvarpið væri lagt fram í kjölfar ábendinga í skýrslu GRECO um framkvæmd Íslands á spillingarsamningi Evrópuráðsins og tilmæla vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 24. janúar 2013 með öllum greiddum atkvæðum og í einu umsögninni sem barst um málið sagði: „Alþýðusamband Íslands styður heils hugar lagabreytingar eins og þessa sem eru settar með það að marki að auka siðvæðingu samfélagsins.“

Við sama tækifæri var einnig bætt við sams konar ákvæði í 109. gr. laganna þar sem segir: „Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] 1) gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum] eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.“

Það er augljóst að Klaustur-upptökurnar eru ekki bara vandræðalegt mál fyrir umrædda þingmenn, heldur eru þær vitnisburður sem hlýtur að leiða til opinberrar sakamálarannsóknar lögreglu- eða ákæruvalds á mögulegum brotum þingmanns Miðflokksins á almennum hegningarlögum þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Aðild forsætisráðherra og fjármálaráðherra að málinu og mögulegt brot þeirra gegn 109. grein laganna yrði væntanlega hluti af slíkri rannsókn.