24. mar. 2019

Þjóðarsjóður um loftslagsaðgerðir

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hér á landi þvert á þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér með undirritun alþjóðlegra samninga frá 1992 og gerð loftslagsáætlana frá 2009. Nýjasta útspil stjórnvalda, Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018-2030, mun ekki snúa þessari þróun við ef marka má umsagnir um hana. Ólík samtök og stofnanir eins og Samtök ferðaþjónustunnar, Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Reykjavíkurborg, Landvernd, Grænni byggð og Umhverfisstofnun sammælast um að þykja áætlunin augljóslega vanfjármögnuð, ekki síst hvað varðar rafvæðingu samgangna (300 milljónir ár ári í fimm ár) og uppbyggingu almenningssamgangna (ótilgreind upphæð). Alls verður 6,8 milljörðum varið til loftslagsverkefna á næstu fimm árum en á sama tíma ætla stjórnvöld að verja 93 milljörðum til að auka mengandi flugumferð um Keflavíkurflugvöll um 45%.

Samkvæmt nýjustu umhverfiskönnun Gallup þá fjölgaði þeim sem hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á eigið líf og sinna nánustu úr 60% í 67% á einu ári. Þá segja 63% aðspurðra að íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun og 69% fólks á aldrinum 18-29 ára er þeirrar skoðunar. Á undanförnum vikum hefur ungt fólk um allan heim krafist róttækari aðgerða í loftslagsmálum með svonefndu loftslagsverkfalli. Í yfirlýsingu forystufólks þessarar hreyfingar hér á landi segir að núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda sé ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5°C á heimsvísu og því er þess krafist að fjárframlög til loftslagsaðgerða verði aukin í 2,5% af landsframleiðslu, en þau eru nú um 0,05%. Í

Í ljósi þess að 2,5% af landsframleiðslu eru um 70 milljarðar á ári má gera ráð fyrir að það reynist stjórnvöldum þungt í vöfum að að koma til móts við þessa kröfu. Vissulega er fjárveitingavaldinu þröngt skorinn stakkur þegar kemur að breytingum á ríkisútgjöldum, ekki síst með tilkomu ríkisfjármálaáætlunar til fimm ára, auk þess sem fjölmargir hagsmunir og hópar takast á um það fé sem er til skiptanna ár hvert. Þess vegna hef ég lagt til í umsögn um frumvarp fjármálaráðherra um Þjóðarsjóð að hann verði nýttur til að svara þessu ákalli. Landsvirkjun hefur lýst því yfir að fyrirtækið geti greitt 10-20 milljarða árlegan arð til Þjóðarsjóðsins, eða sem nemur 0,35%-0,7% af landsframleiðslu. Það er u.þ.b. tífalt hærri upphæð en stjórnvöld áætla nú að verja til loftslagsaðgerða. Þá mætti auka tekjur Þjóðarsjóðs með því að láta mengandi starfsemi greiða til hans í anda megunarbótareglunnar. Þannig mætti sjá fyrir sér að kolefnisgjald, sem áætlað er að nemi sex milljörðum á þessu ári, renni í sjóðinn. Auk þess verður að teljast eðlilegt að einum stærsta losunarvaldi gróðurhúsalofttegunda hér á landi, Isavia ohf., yrði gert að greiða gjald til Þjóðarsjóðsins. Með þessum hætti gætu tekjur sjóðsins mögulega náð 1% af landsframleiðslu, eða um 28 milljörðum króna.

Af nægum verkefnum er að taka til að nýta þetta fé, t.d. við rafvæðingu samgangna, eflingu almenningssamgangna, nýsköpun, landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og eflingu innlendrar matvælaframleiðslu. Slíkar aðgerðir hefðu fjölmörg önnur jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið, m.a. aukið orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands, bætt loftgæði og lýðheilsu, sterkari samkeppnihæfni íslensks atvinnulífs, vernd viðkvæmrar náttúru og aukið matvælaöryggi.

Brýnasta verkefni mannkyns er að forðast hrun siðmenningar af völdum loftslagshlýnunar. Við öll, fulltrúar almennings á Alþingi þar á meðal, hljótum að fallast á þá skoðun að framlag hins opinbera til loftslagsaðgerða, sem samsvarar 0,05% af landsframleiðslu, sé ekki í neinu vitrænu samræmi við þá hagsmuni sem eru í húfi. Með tilkomu Þjóðarsjóðs fá þingmenn kærkomið tækifæri til að svara ákalli ungra Íslendinga og lýsa hátt og skýrt yfir samstöðu allra kynslóða í þeim krefjandi verkefnum sem bíða okkar. Það gæfi okkur þó einhverja von um að hægt sé að forðast þau örlög sem unga fólkið okkar óttast mest.

10. jan. 2019

Stjórnvöld stefna að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda

Heimsbyggðinni hefur algjörlega mistekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það mun bitna illa á lífsgæðum þeirra sem nú eru á barnsaldri. Það hefur ekki vantað upp á hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna um mikilvægi þess að draga úr losun, t.d. hefur forsætisráðherra sagt að loftslagsbreytingar séu stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir og að viðbrögð við þeim skipti öllu um hvernig framtíð mannkynsins verði. Vísindamenn hafa áréttað mikilvægi skjótra aðgerða og fullyrða að mannkynið hafi einungis tólf ár til að koma í veg fyrir stjórnlausa hlýnun og hörmuleg áhrif á samfélög og lífríki jarðar – hrun siðmenningar eins og David Attenborough orðaði það á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi.

Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í aðdraganda ráðstefnunnar segir að mannkynið þurfi að gjörbylta hegðun sinni á fjórum meginsviðum – orkunotkun, landnotkun, borgarskipulagi og iðnaði. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur greindi stöðuna ágætlega í viðtali við RÚV þegar hann sagði að staðan krefðist byltingarkenndra breytinga á öllum okkar kerfum: „Því hvernig menn nýta land, því hvað menn borða, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Þetta er hægt, það er bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega hægt að bregðast nógu fljótt við … Eina spurningin um það hvort það sé hægt er hin pólitíska spurning, það er, er pólitískur vilji til að gera það eða ekki, þar liggur efinn og boltinn er hjá stjórnvöldum, þau verða að draga vagninn.“

Hér á landi hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist mikið á undanförnum árum, þvert á allar þær stefnur og aðgerðaáætlanir sem stjórnvöld hafa lagt fram. Samkvæmt nýjustu tölum er losun okkar á hvern einstakling sú mesta í allri Evrópu og hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Þrátt fyrir þetta árangursleysi segist ríkisstjórnin nú ætla að gera betur en kveðið sé á um í Parísarsamkomulaginu og Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040. En hjá þessari ríkisstjórn, eins og þeim fyrri, er óralangt milli orða og athafna. Á sama tíma og háleit markmið eru sett fram þá vinnur ríkisstjórnin að verkefnum og framkvæmdum sem munu auka mjög losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að „hruni siðmenningar“. Dæmi um þetta er opinbera fyrirtækið ISAVIA sem nú stefnir að stækkun Keflavíkurflugvallar til að geta aukið mengandi flugumferð um 45%. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun misnotar kerfi ESB um upprunaábyrgð raforku, sem á að stuðla að aukinni framleiðslu endurnýjanlegrar orku, og blekkir þannig neytendur sem telja sig stuðla að grænni orkuframleiðslu á meginlandi Evrópu. Stjórnvöld hafa einnig unnið að því, m.a. í gegnum Landsvirkjun og með beinum ríkisstuðningi, að fjölga kísilverum með þeim afleiðingum að mengandi kolabrennsla jafnast nú orðið á við það sem gerðist á fyrri hluta síðustu aldar. Og á sama tíma og rætt er um að draga úr kolefnisfótspori matvæla þá skrifa ráðherrar undir samninga um mengandi flutninga á íslensku lambakjöti til Indlands og Kína.

Leiðarahöfundur Financial Times skrifaði nýverið að viðbragðsleysi stjórnmálamanna í loftslagsmálum stafaði af tveimur ólíkum forsendum – blindni sumra en sjálfsblekkingu annarra. Þeir sem afneiti enn loftslagsbreytingum af mannavöldum séu blindir, en það sé engu betra að hinir sem átti sig á ógninni þykist bara bregðast við vandanum. Íslenskt ráðafólk fellur í síðari flokkinn. Það leggur fram langar áætlanir um skógrækt og rafvæðingu bílaflotans en lætur síðan eins og millilandasamgöngur og iðnaður komi sér ekki við. Það er eins og bogaskytta sem ætlar sér að hitta í mark með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Það eru til margar þjóðsögur um bogmenn sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að bjarga afkomendum sínum með því að kljúfa epli á höfði þeirra. Nú stöndum við í slíkum sporum sem samfélag og það er undir okkur komið hvort stjórnvöld komist upp með að sinna þeirri björgunaraðgerð með hálfum huga.

29. nóv. 2018

Klaustur-upptökurnar eru tilefni til sakamálarannsóknar

Það er alveg augljóst að Klaustur-upptökurnar munu draga dilk á eftir sér fyrir þá þingmenn sem eru þar í aðalhlutverki, en einnig fyrir stjórnkerfið allt. Á upptökunum heyrist þingmaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra lýsa því hvernig hann ákvað árið 2014 að skipa fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins sendiherra í Washington, gegn loforði um að hann ætti inni „svipaðan“ greiða síðar. Um þetta segir hann:
Ég átti fund með Bjarna [Benediktsson] í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“
Formaður Miðflokksins heyrist síðan staðfesta þessi orð:
Ég veit að þetta er rétt með sendiherrastöðuna. Ég nefndi þetta við Bjarna. Bjarni má eiga það, hann viðurkenndi þetta. … Niðurstaðan var sú að Bjarni féllst á það að ef þetta gengi eftir, þá ætti Gunnar inni hjá Sjálfstæðismönnum.

Eins heyrist fyrrverandi utanríkisráðherra segja að hann hafi á sínum tíma rætt þetta samkomulag við formann Vinstri-grænna og núverandi forsætisráðherra.

Það er nokkuð ljóst að með þessu hefur þingmaður Miðflokksins gerst brotlegur við 128. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður] heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Ákvæðinu um alþingismennina var bætt inn í lögin árið 2013 vegna fullgildingar samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu. Fram kom í máli þáverandi innanríkisráðherra að frumvarpið væri lagt fram í kjölfar ábendinga í skýrslu GRECO um framkvæmd Íslands á spillingarsamningi Evrópuráðsins og tilmæla vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 24. janúar 2013 með öllum greiddum atkvæðum og í einu umsögninni sem barst um málið sagði: „Alþýðusamband Íslands styður heils hugar lagabreytingar eins og þessa sem eru settar með það að marki að auka siðvæðingu samfélagsins.“

Við sama tækifæri var einnig bætt við sams konar ákvæði í 109. gr. laganna þar sem segir: „Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] 1) gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að [5 árum] eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.“

Það er augljóst að Klaustur-upptökurnar eru ekki bara vandræðalegt mál fyrir umrædda þingmenn, heldur eru þær vitnisburður sem hlýtur að leiða til opinberrar sakamálarannsóknar lögreglu- eða ákæruvalds á mögulegum brotum þingmanns Miðflokksins á almennum hegningarlögum þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra. Aðild forsætisráðherra og fjármálaráðherra að málinu og mögulegt brot þeirra gegn 109. grein laganna yrði væntanlega hluti af slíkri rannsókn.

25. okt. 2018

N-ið: Pálmey Gísladóttir og Einar Bergmundur

Í þessum þætti fjalla ég um Neytendasamtökin – stöðu þeirra, fortíð og framtíð. Til þess að ræða þetta hef ég fengið tvo góða gesti, þau Pálmey Gísladóttur og Einar Bergmund, en þau hafa bæði gefið kost á sér til stjórnar Neytendasamtakanna, en kosningin fer fram um næstu helgi.


17. okt. 2018

Neyðarlög um laxeldi

Það skeikaði aðeins þremur dögum að Alþingi minntist tíu ára afmælis neyðarlaganna um bankakerfið með setningu neyðarlaga um stækkun laxeldis á Vestfjörðum. Um mikilvægi neyðarlaganna hina fyrri verður ekki deilt, en neyðarlögin hin síðari byggja á svo vafasömum grunni að þau hljóta að vekja alvarlegar spurningar um stjórnkerfið og viðhorf ráðherra til valds.

Sjálfskipað öngstræti

Í fyrsta lagi fullyrti sjávarútvegsráðherra í Kastljósi 8. október að úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri mjög afdráttarlaus og því væri ekkert annað í stöðunni en að loka starfsemi fyrirtækisins. Þetta er sérkennileg ályktun, ekki síst í ljósi þess að úrskurðarnefndin sjálf bendir á það í sínum úrskurði, „með þá miklu hagsmuni í huga sem hér um ræðir“, að það væru færar leiðir til að komast hjá stöðvun á rekstri fiskeldisfyrirtækjanna þó svo að hún teldi sig sjálfa ekki hafa heimild til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða. Vísaði nefndin m.a. til heimildar umhverfisráðherra til að veita tímabundna undanþágu og heimilda sjávarútvegsráðherra til að koma í veg fyrir tafarlausa lokun starfsemi. Í máli sérfræðings Umhverfisstofnunar kom fram að fyrirtækin gætu einnig haldið áfram starfsemi á grundvelli eldra leyfis. Það vekur furðu að ráðherrarnir hafi ekki valið að fara þessar leiðir meðalhófs sem stjórnsýslan og úrskurðarvaldið sjálft bentu á, í stað þess að ryðja illa ígrunduðu frumvarpi í gegnum Alþingi á nokkrum klukkustundum. Í umræðu á Alþingi sagði sjávarútvegsráðherra þessa afstöðu sína byggjast á „spjalli okkar í ráðuneytinu við lögfróða aðila“. Hvergi kemur fram í ferli málsins hvaða lögfróðu aðilar þetta eru eða á hvaða forsendum þeir byggðu skoðun sína. Þó ákvað ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að byggja ákvörðun sína frekar á þessari nafnlausu véfrétt en rituðum og rökstuddum úrskurði nefndar sem er að meirihluta skipuð af Hæstarétti.

Formgalli eða forsendubrestur?

Í öðru lagi sagði sjávarútvegsráðherra í Kastljósi að úrskurðarnefndin hefði einungis krafist frekari gagna „og í þeirri stöðu, ef það er bara skortur á gögnum eða upplýsingum þá er þetta mjög ósanngjörn krafa af hálfu stjórnvalda að setja starfsemina algjörlega í þrot á stundinni.“ Eins og að ofan er greint þá hefði alls ekki þurft að loka starfseminni á stundinni, það var forsenda sem sjávarútvegsráðherra ákvað að gefa sér, þvert á úrskurðarorð nefndarinnar. Þá lýsir það mikilli vanþekkingu ráðherra á lögunum að túlka niðurstöðu nefndarinnar á þann hátt að einungis hafi verið um skort á gögnum að ræða. Þvert á móti segir í úrskurðinum að samanburður valkosta sé ein „helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin“. Hér var því ekki um smávælegan galla á ferlinu að ræða, heldur skort á „lykilþætti í mati á umhverfisáhrifum“. Fram kemur í úrskurðinum að Hæstiréttur hafi staðfest að þegar þessu ákvæði laganna er ekki fylgt leiði það til ógildingar umhverfismats. Kærendur höfðu auk þess bent á þennan alvarlega ágalla á umhverfismatinu á fyrri stigum málsins og því hefði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar ekki átt að koma neinum verulega á óvart. Að sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra reyni að túlka þetta sem einfaldan „skort á gögnum“ eða „formgalla“ bendir til þess að þeir hafi vísvitandi reynt að afvegaleiða umræðu um málið, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi.

Ofmetnir hagsmunir

Í þriðja lagi virðist ekkert raunverulegt hagsmunamat hafa farið fram áður en gripið var til þess kosts að keyra lagafrumvarp í gegnum Alþingi á einum degi, án umsagna og ígrundaðrar umræðu. Sjávarútvegsráðherra sagði á Alþingi að hann hefði tekið fjárhagslega, umhverfislega og samfélagslega hagsmuni til skoðunar og um hafi verið að ræða aðgerð til að koma í veg fyrir „óafturkræfa og óþarfa sóun verðmæta“. Þó er hvergi að finna í frumvarpinu neinar upplýsingar eða greiningu á því hver þessi verðmæti eru sem kölluðu á neyðarlög. Formaður atvinnuveganefndar sparaði heldur ekki stóru orðin þegar hún fullyrti í umræðu á Alþingi að fiskeldisfyrirtækin, byggðin og fólkið gætu staðið frammi fyrir „óafturkræfum skaða“. Samt er ekki að sjá að þingmenn hafi fengið neinar upplýsingar, t.d. skýrslur eða minnisblöð, með upplýsingum um yfirvofandi tjón.

Rekstur fiskeldis á svæðinu hefur staðið síðan 2010 með leyfi til framleiðslu á 3.000 tonnum á ári og telja verður líklegt að fyrirtækin hefðu getað haldið áfram stærstum hluta starfsemi sinnar á forsendum síns gamla starfsleyfis, hefði verið raunverulegur vilji til þess hjá ráðherrum og stofnunum að fara leið meðalhófs, þar til endanleg niðurstaða fengist í málið fyrir dómstólum. Af yfirlýsingu Umhverfisstofnunar 10. október er heldur ekki að skilja að um mikið yfirvofandi tjón sé að ræða, en þar segir að seiði hafi „einungis verið sett út á einu eldissvæði og umfang því lítið enn sem komið er.“ Í umfjöllun Alþingis virðist því of mikið hafa verið gert úr hinum bráðu og óafturkræfu hagsmunum fiskeldisfyrirtækjanna og byggðarinnar.

Óábyrgar yfirlýsingar um skaðabótaskyldu

Í fjórða lagi hafa sjávarútvegsráðherra, aðrir ráðherrar og þingmenn fjallað um meinta skaðabótaskyldu ríkisins í þessu máli á mjög kæruleysislegan hátt. Þannig sagði sjávarútvegsráðherra í þingræðu að spyrja þyrfti hvað gerðist ef dómstóll kæmist að annarri niðurstöðu en úrskurðarnefndin, „í hvaða stöðu eru menn þá, búnir að loka sjoppunni eins og sagt er? Þá situr ríkið bara uppi með skaðabótaaábyrgðina af því.“ Formaður atvinnuveganefndar fullyrti síðan að ríkið gæti „orðið skaðabótaskylt svo háum fjárhæðum nemi ef við grípum ekki inn í.“ Fyrir þessum fullyrðingum voru þó ekki færð nein sérstök rök í umræðu um frumvarpið, hvað þá sérfræðiálit. Þvert á móti má álykta sem svo að lög um mat á umhverfisáhrifum girði fyrir það að framkvæmdaaðili geti sótt skaðabætur á nokkru stigi máls, enda er þar kveðið á um að framkvæmdaraðilinn beri sjálfur ábyrgð á umhverfismatinu. Það hefur að auki verið staðfest með dómi Hæstaréttar (575/2016). Fiskeldisfyrirtækin vissu vel að ferlinu væri ekki lokið með útgáfu starfsleyfisins í árslok 2017, enda virkjaðist þá fyrst kæruréttur í málinu sem var nýttur einungis þremur vikum síðar. Andstæðingar fiskeldisins höfðu auk þess bent fiskeldisfyrirtækjunum á það áður í ferli málsins að umhverfismatið væri haldið þeim ágalla sem úrskurðarnefndin staðfesti síðar. Það er afar óábyrgt af hálfu ráðherra og þingmanna, og ófyrirleitið gagnvart skattgreiðendum, að lýsa yfir skaðabótaskyldu ríkissjóð að svo lítt athuguðu máli.

Brot á alþjóðlegum skuldbindingum

Í fimmta lagi eru talsverðar líkur á að við setningu neyðarlaga um fiskeldi hafi alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Árósasamningnum verið brotnar. Stjórn Landverndar telur t.d. að tvær stoðir samningsins hafi verið brotnar, en félagið hefur unnið fjölda kærumála á undanförnum árum þar sem tekist hefur verið á um rétt almennings samkvæmt samningnum. Þá kom fram í umræðu á Alþingi að sérfræðingur í Árósasamningnum hefði komið á fund atvinnuveganefndar þingsins og ekki treyst sér til að fullyrða að frumvarpið stæðist samninginn. Enda er í nýju lögunum sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að kæra bráðabirgðaleyfið, þ.e. að leyfi ráðherra sé endanlegt á stjórnsýslustigi. Þar með er brotið á skýlausum kærurétti almennings í umhverfismálum. Í Liechtenstein er til fordæmi fyrir slíkri ráðstöfun stjórnvalda og hefur EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi þá brotið gegn lögum um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun ESB þar að lútandi (E3/15).

Hræðsluáróður fyrirtækja og fjármálaráðherra

Í úrskurði nefndarinnar má finna forvitnilegar upplýsingar frá eigendum fiskeldisfyrirtækjanna um það hvaða brýnu hagsmunir voru undir í málinu. Þar segir á einum stað að þeir þurfi að halda fiskeldinu í „fullri“ framleiðslu, því „rekstrarstöðvun myndi umsvifalaust virkja gjaldfellingarheimildir banka og fjármálastofnana“. Forstjóri annars fiskeldisfyrirtækisins sá sérstaka ástæðu til að tilkynna atvinnuveganefnd þetta í bréfi til atvinnuveganefndar Alþingis 5. október, þ.e. að lántökuheimildir yrðu afturkallaðar vegna skilyrða í lánasamningum. Málið var þannig strax teiknað þannig upp að öll starfsemi fyrirtækjanna væri í húfi, en ekki bara stækkunaráformin. „Allt eða ekkert“ varð strax sú forsenda sem fiskeldisfyrirtækin gáfu sér í málinu, í stað þess að leita þeirra lausna sem úrskurðarnefndin lagði til eða halda áfram rekstri á forsendum eldra leyfis, eins og Umhverfisstofnun lagði til. Bankinn réði ferðinni, þrátt fyrir að augljóslega hafi verið vafasamt að byggja stóra fjármálagjörninga á leyfi sem var enn í hefðbundnu ferli umhverfismats. Þar virðast fiskeldisfyrirtækin viljandi hafa teflt á tæpasta vað, og Arion-banki, illa brenndur af gjaldþroti kísilvers í Helguvík, kannski sett fiskeldisfyrirtækjunum stranga skilmála í ljósi þess að leyfi til stækkunar var ekki í hendi.

Í þessari stöðu kom sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin að einn af eigendum þeirra, sakborningur í svonefndu Skeljungsmáli, hefur verið trúnaðarvinur fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins um árabil og m.a. hýst pólitískt „stuðningsmannafélag“ hans. Enda greip fjármálaráðherra til þess óyfirvegaða og óvenjulega ráðs að tjá sig mjög afdráttarlaust um þetta flókna deilumál á facebook mjög skömmu eftir birtingu síðasta úrskurðarins, í máli sem var meira að segja á starfssviði annars ráðherra í ríkisstjórninni. Þannig lagðist fjármálaráðherra á árarnar með fiskeldisfyrirtækjunum við að hræða Vestfirðinga, fjölmiðla, embættisfólk og þingmenn til tafarlausra aðgerða. Einungis þremur dögum seinna hafði Alþingi samþykkt lög um málið á þeim fölsku forsendum að byggð á Vestfjörðum væri í bráðri hættu og verið væri að gæta meðalhófs. Líklega er þetta mál alvarlegasta misbeiting löggjafarvalds sem við höfum orðið vitni að, tja, allt síðan dómsmálaráðherra skipaði Landsrétt á ólögmætan hátt fyrir rúmu ári síðan. Það verður líklega einhver bið á því að Alþingi og ráðherrar endurheimti hið margumtalaða traust.