5. jún. 2020

Öll þjóðfélög á öllum tímum hafa notað vímuefni

Hlaðvarpið að þessu sinni er viðtal sem ég átti við Þorstein Úlfar Björnsson, en hann hefur skrifað bækur um sögu vímuefnanotkunar og það sem hann kallar fáránleika fíknistríðsins. Þá hefur hann nýverið birt nokkrar greinar um sama efni á Kjarnanum. Við settumst niður og ræddum um frjálslyndari viðhorf til kannabisneyslu, aukinn skilning á læknandi áhrifum hugvíkkandi efna og cbd-olíu, áhrif nýrra laga um neyslurými og reynslu Þorsteins af neyslu sveppa sem hann segir að hafi hjálpað sér að vinna úr erfiðum tilfinningum.

Ég vil árétta að þó að við ræðum vímuefni á hlutlausum, stundum jákvæðum nótum, þá er það alls ekki ætlun mín að hvetja til neyslu slíkra efna. Sjálfur er ég sannfærður um að vímuefnaneysla geti varla verið mannbætandi, en að sama skapi þykist ég vita að það verði aldrei komið í veg fyrir að mannskepnan leitist eftir því að komast í vímuástand til afslöppunar eða gleðiauka, til að fylla upp í tómleikatilfinningu, fá frí frá erfiðum minningum eða tilfinningum, nú eða bara til að svala forvitni. Sagan ætti að hafa kennt okkur það um mannlegt eðli. Þá hefur orðið mikil breyting á viðhorfum vísindasamfélagsins til vímuefnaneyslu í lækningaskini, marijuana nýtist t.d. til að draga úr verkjum og ógleði meðal krabbameinssjúkra og hugvíkkandi efni eins og LSD virðast geta, í litlum skömmtum, haft jákvæð áhrif á þá sem glíma við þunglyndi og kvíða. Það er þess vegna að mínu mati skaðleg einföldun að draga upp svarthvíta mynd af vímuefnum og glæpavæða sum þeirra og neytendur þeirra. Það hlýtur að vera að betra að nálgast þessa umræðu á raunsærri, heiðarlegri og mannúðlegri hátt.


13. maí 2020

„Þú ert fólkið sem kaus þig“

Viðtal sem ég átti við Andrés Inga Jónsson, þingmann utan flokka, en hann hefur setið á þingi fyrir Vinstri Græna frá 2016 en sagði sig úr þingflokknum fyrir hálfu ári síðan. Við ræddum um það hvernig sé að vera þingmaður án flokks, um stjórnarmyndunina 2017, dramatíska flokkráðs- og þingfundi, stjórnarskrána, lýðræðismálin, umhverfismálin og framtíð Andrésar í stjórnmálum. Síðan svaraði hann einnig nokkrum spurningum af twitter og facebook, m.a. um smekk á tónlist, bjór og sósum.

Þú getur hlustað á viðtalið í spilaranum hér að neðan en þú getur einnig gerst áskrifandi að hlaðvarpinu á hlaðvarpsveitum, t.d. Google Podcast, Apple Podcast og Spotify.

7. maí 2020

Bankar eiga að vera bankar Sjálfstæðisflokksins

Mikilvægi bankakerfisins í samfélagsgerðinni verður aldrei ofmetið en um það liggur leiðin að völdum í viðskiptalífi og stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líklega gengið lengst íslenskra stjórnmálaflokka í að viðhalda áhrifum sínum innan bankakerfisins í gegnum tíðina. Til marks um það má nefna nokkur af stærstu gjaldþrotamálum Íslandssögunnar þar sem fulltrúar flokksins sátu allt í kringum borðið, t.d. einkavæðingu bankanna og bankahrunið í upphafi aldarinnar, Hafskipsmálið og gjaldþrot Útvegsbanka á níunda áratug síðustu aldar og jafnframt Kveldúlfsmálið á fjórða áratugnum. Þessi eitraða blanda stjórnmála- og bankakerfis hefur skapað kerfi spillingar, fjárhagslegs óhófs og efnahagslegra hamfara. Almenningur stendur á hliðarlínunni og horfir á kerfið rísa og falla á um það bil tíu ára fresti með verðbólguskotum, gengisfalli og miklum verðhækkunum á nauðsynjavörum og húsnæðislánum. Hinir, þessir sem hafa beinan aðgang að valdafólki innan bankakerfisins, geta hins vegar nýtt sér efnhagshamfarirnar með gjaldeyrisviðskiptum, erlendum skattaskjólum, skuldlausum eignum, uppboðum á eignum gjaldþrota launafólks og nú síðast fjárfestingaleið Seðlabankans.

Í dag fer Sjálfstæðisflokkurinn með mikil völd í bankakerfinu í gegnum Bankasýslu ríkisins þar sem flokkurinn heldur um stjórnvölinn með tvo af þremur stjórnarmönnum, annars vegar pólitískan trúnaðarmann formanns flokksins og hins vegar fyrrverandi þingmann hans. Það þarf því engan að undra að fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins hafi verið treyst fyrir formennsku í bankaráði Íslandsbanka fyrir hönd Bankasýslunnar til margra ára. Þessi völd hafa reynst flokknum svo mikilvæg að hætt hefur verið við að leggja Bankasýsluna niður eins og lög gerðu ráð fyrir. Sjálfstæðismenn hafa líka verið fyrirferðarmiklir við stjórnvölinn í Arionbanka, eina stóra viðskiptabankanum sem ekki er í opinberri eigu. Reyndar fær almenningur ekki að vita hverjir stærstu eigendur bankans eru á sama tíma og smæstu félagasamtökum og húsfélögum hefur verið gert að upplýsa stjórnvöld um „raunverulegt eignarhald“. Stjórnarformaður Arionbanka hefur verið áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga og var í hinum alræmda Eimreiðarhópi, m.a. með áðurnefndum fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Annar stjórnarmaður hefur verið fulltrúi flokksins í stjórn RÚV og landskjörstjórn. Bankastjóri Arionbanka er fyrrverandi aðstoðarmaður formanns flokksins í fjármálaráðuneytinu og aðstoðarbankastjórinn er bróðir varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Um tengsl smærri banka við flokkinn hefur líka talsvert verið fjallað, t.d. hinn alræmda og nú gjaldþrota Gamma. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara stjórnmálaflokkur, hann er miklu heldur einn armur valdabandalags frekar fámenns hóps fólks innan bankakerfis og viðskiptalífs.

Það er því ekki að ástæðulausu sem Sjálfstæðisflokkurinn hafnar öllum tillögum um að nýta tækifærið með opinberu eignarhaldi á Landsbankanum til að stofna samfélagsbanka. Flokkurinn sér aðeins tvo kosti í stöðunni svo hann haldi áfram um alla þræði bankakerfisins, óbreytt ástand eða einkavæðingu. Framtíðarsýn meirihluta almennings er hins vegar önnur og betri ef marka má skoðanakönnun sem Gallup gerði nýverið fyrir Öldu, félag um sjálfbærni og lýðræði. Samkvæmt henni eru einungis 19% aðspurðra hlynnt einkavæðingu bankanna en 62% andvíg og 65% telja að ákveða eigi framtíð bankakerfisins með lýðræðislegum hætti, t.d. borgaraþingi. Þá reyndust 58% hlynnt því að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka en einungis 15% voru því andvíg. Þessu hljóta ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna að taka fagnandi, en flokkarnir hafa talað fyrir samfélagsbanka og samþykkt ályktanir slíkum bankarekstri til stuðnings. Í stefnuskrá Vinstri-grænna segir t.d. að gera eigi „nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum“. Og formaður flokksins hefur farið fögrum orðum um samfélagsbanka í þingsal: „Ég hef opinberlega lýst yfir miklum áhuga á að við ræðum þessi mál hér í þinginu. Það er að segja að sá banki sem er í eigu hins opinbera hann starfi samkvæmt öðrum lögmálum en við sjáum almennt í bankastarfsemi og auðvitað er slík starfsemi vel þekkt. Ég vil nú bara minna á það að Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs runnu til slíks samfélagsbanka fyrir nokkrum árum“. Flokksþing Framsóknarflokksins hefur ályktað á sömu nótum: „Framsóknarflokkurinn telur að annar ríkisbankanna eigi að vera áfram í eigu þjóðarinnar, með það að markmiði að þjóna samfélaginu sem best. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að samfélagsbanki hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á sem bestum kjörum. Þannig má efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu.“ Og þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur rætt þá hugmynd í þingsal að breyta öðrum ríkisbankanum í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd: „Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts. Um 40% af umfangi fjármálakerfisins þar eru sparisjóðir. Þeir vinna fyrir nærumhverfið og hafa það á stefnuskrá sinni að sinna viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja á samfélagslegum forsendum.“

Vinstri-græn og Framsóknarflokkurinn fengu nítján þingmenn í síðustu kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn sextán. Með þessum sextán þingmönnum, 25% atkvæða í kosningum, hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið að vera einráður í málefnum bankakerfisins. Stofnun samfélagsbanka hefur ekki þokast fram um eitt skref, enda hefur formaður Sjálfstæðisflokksins sagt algjörlega mótfallinn hugmyndinni og að „bankar eigi að vera bankar”. Hann hefði líka getað orðað þetta svona: Bankar Sjálfstæðisflokksins eiga að vera bankar Sjálfstæðisflokksins. Því miður virðast ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna hafa gefist upp á sannfæringu sinni í þessu máli, jafnvel þótt hún njóti stuðnings meirihluta kjósenda og þingmanna. Sá rúmi meirihluti almennings sem treystir ekki bankakerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað og stjórnað mun því ekki fá að njóta hófstillts bankakerfis sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika. Sjálfstæðiflokkurinn leyfir það ekki.

12. mar. 2020

Hlaðvarp: Þjóðaratkvæðagreiðsla um auðlindaákvæði

Nú eru fimm ár liðin síðan hópur fólks safnaði undirskriftum undir yfirskriftinni „Þjóðareign“ með það að markmiði að stöðva frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, um að afhenda útgerðum makrílkvóta til lengri tíma en eins árs. Tæplega 54 þúsund Íslendingar ljáðu hópnum nafn sitt og varð þetta því fimmta fjölmennasta undirskriftasöfnun sem hefur farið fram hér á landi. Og frumvarpið varð aldrei að lögum. Nú hefur þessi sami hópur sent forseta Alþingis og öllum formönnum þingflokka áskorun þess efnis að þjóðin fái að kjósa milli tveggja tillagna að auðlindaákvæði í stjórnarskrá, annars vegar tillögu Stjórnlagaráðs og hins vegar tillögu sem ríkisstjórnin lagði fram til umsagnar um mitt ár í fyrra. Ég ræddi við Bolla Héðinsson, en hann er einn af þeim sem að áskoruninni standa.

15. feb. 2020

Hlaðvarp: Stytting vinnuvikunnar

Það hefur sýnt sig að stytting vinnuvikunnar eykur bæði afköst og hamingju starfsfólks. En hvers vegna erum við þá ekki komin lengra á þessari vegferð? Ég ræddi við Guðmund D. Haraldsson, stjórnarmann í Öldu og áhugamann um styttingu vinnutímans.

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan, en einnig er hægt að gerast áskrifandi að hlaðvarpinu á öllum hlaðvarpsveitum.

5. des. 2019

Sjávarútvegsráðherra er vanhæfur

Tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar við eigendur Samherja eru svo mikil að þegar hann tók við embætti sjávarútvegsráðherra sagðist hann sjálfur ætla að „meta hæfi sitt“ þegar mál sem tengdust Samherja kæmu til umfjöllunar í ráðuneytinu. Síðan eru liðin tvö ár – hálft kjörtímabil – og skiptin sem hann hefur metið sig vanhæfan eru engin. Maðurinn sem hefur þegið fé og ýmsar sporslur frá Samherja og er í fallegu vinasambandi við forstjóra félagsins hefur aldrei – ekki einu sinni - séð ástæðu til að efast um eigið hæfi til að fjalla um málefni fyrirtækisins.

Samt hafa næg tilefni verið til. Sjávarútvegsráðherrann hefur til að mynda lagt fram á Alþingi og fengið samþykkt umdeilt lagafrumvarp um kvótasetningu makríls sem færði Samherja gríðarleg verðmæti. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Ráðherrann hefur síðan stuðlað að framkvæmd laganna með þeim hætti að verðmæti Samherja hafa aukist enn frekar. Hann taldi sig ekki vanhæfan til þess. Það er síðan sérstök ákvörðun að aðhafast ekki í einstaka málum sem tengjast Samherja beint. Til að mynda hefur sjávarútvegsráðherra ekki brugðist við endurteknum ábendingum Fiskistofu um galla í reglum um vigtun afla, reglum sem hafa mikil áhrif á afkomu Samherja. Hann hefur heldur ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum um galla í lögum sem ætlað er að koma í veg fyrir að of miklar fiskveiðiheimildir safnist á sömu hendur, ákvæði sem hefur mikil áhrif á rekstur og arðsemi Samherja. Sjávarútvegsráðherra telur sig líklega vel hæfan til að svæfa þessi mál í ráðuneytinu.

Forsætisráðherra hefur varið stöðu sjávarútvegsráðherra og segir að hann njóti síns stuðnings þar til að hann verði beinlínis uppvís að lögbrotum. Að baki þessu viðhorfi er ísköld lagahyggja en ekkert pólitískt siðferði. Reyndar má halda því fram að þessi afstaða standist ekki einu sinni góða stjórnsýsluhætti, enda segir í 3. gr. stjórnsýslulaga að ráðherra kunni að vera vanhæfur „ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.“ Sjávarútvegsráðherra hefur allan sinn stjórnmálaferil verið bendlaður við pólitískar ákvarðanir sem tengjast vexti og viðgangi Samherja, fyrst í tengslum við sölu á Söltunarfélagi Dalvíkur árið 1990 þegar hann var bæjarstjóri þar og síðar þegar Samherji hafði stærsta togara landsins af Ísfirðingum þegar sjávarútvegsráðherra var samtímis bæjarstjóri á Ísafirði og stjórnarformaður Samherja. Það er því alveg óhætt að álykta sem svo að fyrir hendi séu aðstæður til að draga óhlutdrægni sjávarútvegsráðherra í efa og þar af leiðandi ákvarðanir hans um eigið hæfi í ráðuneytinu.

Á undanförnum árum hafa staðið yfir meiriháttar átök um makrílkvóta Íslendinga og milljarða verðmætin sem honum fylgja. Stóru útgerðarfélögin töldu að þau hefðu ekki fengið allan þann kvóta sem þeim bar samkvæmt lögum og stefndu ríkinu til að fá skaðabótaskyldu sína staðfesta. Hæstiréttur dæmdi fyrirtækjunum í vil í desember í fyrra og nú undirbúa þau skaðabótakröfur sínar upp á milljarða, kannski tugi milljarða, vegna þessa. Samkvæmt áliti Umboðsmanns Alþingis þá kemur það í hlut sjávarútvegsráðherra að ákveða hvort bótaskyldan verði viðurkennd eða þá hvort og hvernig henni verði andmælt. Hvernig eiga skattgreiðendur að treysta sjávarútvegsráðherra til þess að gæta sinna hagsmuna í þessu máli þegar hann hefur allan sinn stjórnmálaferil verið flæktur í hagsmunagæslu fyrir Samherja? Eitt er allavega víst að hann mun meta sjálfan sig vel hæfan til að taka þessa ákvörðun. Það er því í okkar höndum að verja þessa sameiginlegu hagsmuni okkar með því að krefjast afsagnar sjávarútvegsráðherra á kröfufundi á Austurvelli laugardaginn 7. desember kl. 14. Sjáumst þar.

22. nóv. 2019

30 ástæður til að mótmæla - aftur

Nú eru fimm ár síðan ég skrifaði víðlesinn pistil með þrjátíu ástæðum til að mótmæla á Austurvelli (hann er að vísu horfinn af dv.is en lifir hér). Þá hafði verið boðað til mótmæla gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, m.a. vegna lekamálsins svokallaða. Nú verður aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar aftur mótmælt á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14 og mér datt í hug að prófa að endurtaka leikinn. Þið megið svo bæta á þennan lista eftir þörfum í ummælum hér að neðan.
 1. Við sitjum uppi með sjávarútvegsráðherra sem er vanhæfur til að fjalla um málefni stærsta útgerðarfélags landsins.
 2. Veiðigjöldin lækka og þau duga ekki einu sinni fyrir kostnaði við stjórnsýslu í kringum útgerðina. Á sama tíma sanka stórútgerðarmenn að sér fordæmalausum auðæfum á íslenska vísu og leggja undir sig önnur svið atvinnulífsins.
 3. Eigendur útgerðanna voru fyrirferðarmiklir í Panamaskjölunum og virðast enn geyma fé og fyrirtæki í þekktum skattaskjólum.
 4. Stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við skýrslu Ríkisendurskoðunar um algjöran skort á eftirliti með því að útgerðirnar vigti afla samkvæmt lögum.
 5. Makrílkvótinn var gefinn útgerðarfyrirtækjum og nú ætla sömu fyrirtæki að sækja milljarða í skaðabætur til skattgreiðenda vegna þess að gjöfin var ekki nægilega auðsótt á sínum tíma.
 6. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þegið og þiggja enn háa fjárhagsstyrki frá útgerðinni.
 7. Hagfræðingur sem hefur viljað koma á eignarrétti útgerðarinnar á fiskinum í sjónum er orðinn Seðlabankastjóri. Hans fyrsta verk var að koma tölvupóstum uppljóstrara innan bankans í hendur stjórnarformanns Samherja. Sami maður var starfsmaður fjárglæfrafyrirtækjanna Kaupþings og Gamma og er nú orðinn æðsti yfirmaður fjármálaeftirlits í landinu.
 8. Forsætisráðherra tilkynnti uppljóstrara innan Seðlabankans til lögreglu.
 9. Við sitjum uppi með fjármálaráðherra sem hefur orðið uppvís að mörgum vafasömum fjármálagjörningum. 
 10. Einkavæðing bankanna er að hefjast undir stjórn þessa sama fjármálaráðherra og án þess að síðasta einkavæðing bankanna hafi verið rannsökuð fyrst, þ.á.m. möguleg lögbrot henni tengdri. 
 11. Vinna hafin við undirbúning einkavæðingar Keflavíkurflugvallar.  
 12. Leynt og ljóst unnið að aukinni einkavæðingu raforkukerfisins.
 13. Ríkisstjórnin vinnur gegn hagsmunum neytenda með því að veikja samkeppnislögin.
 14. Ísland hefur verið sett á gráan lista FATF vegna aðgerðaleysis í baráttu við peningaþvætti.
 15. Alþingi hefur ekki samþykkt tillögu stjórnarandstöðunnar um rannsókn á peningaþvætti sem kann að hafa verið stundað í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans.
 16. Ríkisstjórnin ætlar að verja greiðendur fjármagnstekjuskatts fyrir verðbólgu og lækka erfðaskatt á meðan því er haldið fram að innviðir samfélagsins svelti.
 17. Þeir sem þurfa að treysta einungis á greiðslur frá Tryggingastofnun er haldið í fátækt og ríkisstjórnin undirbýr jarðveginn fyrir ómanneskjulegt starfsgetumat.
 18. Lögmaður ríkisstjórnarinnar ræðst að hinum sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu með óþverrabrögðum.
 19. Stjórnvöld vísuðu óléttri móður úr landi, þvert á ráð hjúkrunarfræðings.
 20. Ríkisstjórnin boðar veggjöld sem leggjast þyngst á þá sem eru tekjulægstir.
 21. Nýja stjórnarskráin fæst ekki rædd á vegum stjórnvalda en þess í stað eru settar fram útvatnaðar tillögur sem sumar eru beinlínis skaðlegar hagsmunum almennings.
 22. Lífeyrissjóðakerfinu er enn stjórnað af atvinnurekendum.
 23. Lífeyrissjóðsgreiðslur verða sífellt hærra hlutfall af launum almennings, lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa verið skert og unnið er að hækkun lífeyrisaldurs.
 24. Unnið er því að reisa Hvalárvirkjun innan Drangajökulsvíðerna með stuðningi ríkisstjórnarinnar.
 25. Unnið að gangsetningu kísilvers í Helguvík þvert á vilja heimamanna. 
 26. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar þá hefur fátt markvert gerst í loftslagsmálum. 
 27. Uppljóstrun í Klausturmálinu um „greiða á móti greiða“ forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við veitingu sendiherraembætta hafði engar afleiðingar.
 28. Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís að grímulausri spillingu við skipan dómara í Landsrétt. Kostnaður skattgreiðenda af málinu er kominn yfir 60 milljónir og heldur áfram að hækka.
 29. Auðmenn, jafnt innlendir sem erlendir, kaupa upp mikinn fjölda jarða án nokkurra takmarkanna.
 30. Auðlindaarðinum af virkjunum Landsvirkjunar á að verja til áhættufjárfestinga í gegnum svonefndan Þjóðarsjóð.

Sjáumst á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14.