10. jan. 2021

Þjóðgarður er meira en merkimiðinn

Umhverfisráðherra hefur lagt fram stjórnarfrumvarp á Alþingi um hálendisþjóðgarð. Viðbrögð við frumvarpinu hafa vakið furðu, sér í lagi margir fyrirvarar samstarfsflokka Vinstri Grænna í ríkisstjórn, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Af þessu tilefni ræddi ég við Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, en náttúruverndarhreyfingin hefur fjölmargt við hálendisfrumvarpið að athuga þó að það hafi ekki farið eins hátt í fjölmiðlum og óánægja sveitarstjórnarmanna. 

11. nóv. 2020

Rjúfum klíkuböndin í bankakerfinu

Það getur verið hjálplegt fyrir skilning okkar á sögunni og þróun hennar að skipta henni í tímabil. Þannig hefur stjórnmálasögu 20. aldar t.d. verið skipt í tímabil sjálfstæðisstjórnmála og stéttastjórnmála til að útskýra þróun flokkakerfisins og helstu átakamála. Eins auðveldar það okkur að skilja þróun atvinnulífs og neytendamála ef við skiptum öldinni upp í tímabil frjálsra viðskipti og hafta. Þó að stjórnmálaumræðan beri þess kannski ekki merki þá stöndum við núna á mikilvægum skilum tveggja tímabila í Íslandssögunni þar sem grundvöllur valda og áhrifa næstu ára eða áratuga verður lagður. Það er nefnilega fátt sem mótar samfélagið á djúpstæðari hátt en bankakerfið og nú bíður okkar að ákveða framtíðar rekstrarfyrirkomulag Landsbanka og Íslandsbanka, en saman mynda þeir um 70% verðmætis alls bankakerfisins.

Segja má að saga íslenska bankakerfisins skiptist í þrjú tímabil; Heimastjórnartímabilið (1886-1930), helmingaskiptatímabilið fyrra (1930-1990) og helmingaskiptatímabilið síðara (1990-2008). Heimastjórnartímabilið í bankakerfinu hófst með stofnun Landsbankans árið 1886 og Íslandsbanka 1904 og lauk með gjaldþroti þess síðarnefnda árið 1930. Á þessum tíma réð fámennur hópur völdum, að mestu tengdur Heimastjórnarflokknum, á mjög örlagaríku tímabili í hagsögu þjóðarinnar þar sem til varð fámenn auðstétt kaupmanna og útgerðarmanna og fyrstu íslensku stórfyrirtækin voru stofnuð. Framsóknarflokkurinn, með Jónas frá Hriflu í broddi fylkingar, náði síðan á undraskömmum tíma að komast til valda innan Landsbankans og með gjaldþroti Íslandsbanka 1930 og stofnun Útvegsbanka í kjölfarið má segja að fyrra helmingaskiptakerfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bankakerfinu hafi byrjað að mótast. Það var síðan meitlað í stein með sögulegum sættum Jónasar og Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, í stjórn Landsbankans þegar bjarga þurfti Kveldúlfi, útgerðarfélagi Ólafs og Sambandsfyrirtækjum Framsóknarflokksins frá gjaldþroti undir lok fjórða áratugarins. Kerfið þjónaði þessum flokkshagsmunum mjög vel þar til það varð í raun gjaldþrota, sligað af pólitísku útlánakerfi og lágum vöxtum sem stjórnmálamenn handstýrðu á tímum mikillar og viðvarandi verðbólgu. Kerfið stóð ekki undir sér og fyrra helmingaskiptakerfið fjaraði út á níunda áratugnum með gjaldþroti Útvegsbanka og alvarlegum rekstrarvanda Landsbankans í tengslum við gjaldþrot Sambands íslenskra samvinnufélaga. Tímabilinu lauk með því að vald til vaxtaákvarðana var fært til bankanna sjálfra og einkavæðing þeirra hófst. Þriðja tímabil bankasögunnar, helmingaskiptatímabilið síðara, hófst árið 1990 þegar fjórir litlir einkabankar voru sameinaðir nýlega einkavæddum fjárfestingasjóðum ríkisins undir nafni Íslandsbanka-FBA. Tímabilinu lauk síðan árið 2008 með hruni bankakerfisins í kjölfar misheppnaðrar einkavæðingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á Landsbanka og Búnaðarbanka.

Tímabilin þrjú í sögu íslenska bankakerfisins einkenndust öll af miklu valdi fámennra hópa sem nýttu bankakerfið til að stórefnast og skjóta enn styrkari stoðum undir eigin völd í viðskiptalífi og stjórnmálum, oft á kostnað stöðugleika í hagkerfinu og afkomu almennings. Tólf árum eftir bankahrun er enn óljóst hvernig við ætlum að skipuleggja kerfið til frambúðar, hvernig fjórða tímabil bankasögunnar eigi að verða. Ríkisstjórnin hefur boðað einkavæðingu þess þó að skoðanakannanir sýni að einungis 12% kjósenda styðji þá vegferð. Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, hefur lagt til að almenningur fái sjálfur að ákveða framtíðarskipan bankakerfisins á lýðræðislegan hátt með slembivöldu borgaraþingi, skoðanakönnunum og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í könnun sem MMR vann fyrir félagið segjast 65% vera fylgjandi slíku ferli. Þingkosningar fara fram á næsta ári og þá gefst stjórnmálaflokkunum tækifæri til að lýsa því fyrir kjósendum hvernig þeir vilji skipuleggja fjórða tímabil bankakerfisins og hvort almenningur eigi að fá að taka þátt í mótun þess. Vonandi nýtum við það tækifæri til að rjúfa þau klíkubönd sem hafa einkennt bankerfið okkar allt frá upphafi og skapa hér kerfi sem stuðlar að fjölbreyttu atvinnulífi, jafnræði og stöðugleika.

13. okt. 2020

Íslandsmet í undirskriftasöfnun

Stjórnarskrárfélagið safnar nú undirskriftum almennings við þá kröfu að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur ekki viljað heyra á þetta minnst og hefur boðað eigin stjórnarskrártillögur. Flokkarinar virðast að vísu ekki ná samstöðu um þessar tillögur og nú er margt sem bendir til að við förum í gegnum enn eitt kjörtímabilið þar sem stjórnarskráin tekur engum breytingum. Undirskriftasöfnun stjórnarskrárfélagsins lýkur mánudaginn 19. október og af því tilefni sló ég á þráðinn til Katrínar Oddsdóttur, eins af forsvarsmönnum Stjórnarskrárfélagsins, og óskaði henni til hamingju með árangurinn, en þegar við ræddum saman voru undirskriftirnar 27494, en eru nú tveimur dögum seinna 28.526. Það er líklega nýtt met innan þess undirskriftakerfis sem rekið er á vegum stjórnvalda á island.is.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið.

1. sep. 2020

Slembivalin borgaraþing og rökræðufundir

Stjórnvöld hafa gert tvær alvöru tilraunir til þátttökulýðræðis á síðustu árum, fyrst með stjórnlagaþinginu og þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012 og síðan með svonefndum rökræðufundi um breytingar á stjórnarskrá sem haldinn var í nóvember 2019. Við vitum hver urðu afdrif þjóðaratkvæðagreiðslunnar – niðurstaða hennar var hunsuð – en það kemur í ljós á næstu vikum og mánuðum hvort núverandi ríkisstjórn muni taka mark á niðurstöðum 230 Íslendinga sem voru slembivaldir til þátttöku á rökræðufundinum í fyrra, fundar sem ríkisstjórnin sjálf boðaði til. Nýlegar tillögur um forsetaembættið benda þó til þess að lítið tillit verði tekið til rökræðukönnunarinnar. 

Ég ræddi við Sævar Finnbogason, doktorsnema í heimspeki sem leggur stund á lýðræðisrannsóknir, stjórnarmann í Öldu lýðræðisfélagi og einn af þeim sem komu að skipulagningu og úrvinnslu fundarins, en hann varar við afleiðingum þess að stjórnvöld hunsi endurtekið niðurstöður lýðræðislegs samráðs við almenning, það muni grafa undan trausti á slíkum aðferðum og leiða til þess að fólk sjái ekki ástæðu til að verja tíma sínum í slíkt samráð. En við Sævar byrjðum okkar spjall á því að ræða um slembivalin borgaraþing og möguleikann á því að efna til slíkra þinga til að ná niðurstöðum í málum sem stjórnmálaflokkarnir virðast ekki ráða við, eins og t.d. fiskveiðistjórnunarkerfið og auðlindaákvæði í stjórnarskrá. 

5. ágú. 2020

Vinsamlegt verðmat

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifaði eftirtektarverða færslu á facebooksíðu sína 22. júlí síðastliðinn þar sem hann skoraði á Fjármálaeftirlitið og Héraðssaksóknara að taka til skoðunar viðskipti með Lindarvatn ehf., m.a. vegna aðgerðaleysis stjórna lífeyrissjóðanna sem tengjast viðskiptunum. En það voru lokaorð Ragnars sem vöktu sérstaka forvitni mína: „Ég mun svo halda áfram þar sem frá var horfið og fjalla um fleiri mál sem tengjast þessum snillingum en þá mun ég senda frá mér uppskriftina af því hvernig sjallarnir græða 850 milljónir, og grilla á kvöldin, með því að selja almenningshlutafélaginu Festi, sem er í eigu lífeyrissjóðanna, 3 ára fyrirtæki, sem framleiðir ekki neitt, á 30 faldri ebitda en þar koma við sögu m.a. Magnús Júlíusson fyrrum formaður sambands ungra sjálfstæðismanna og fleiri góðir gestir.“

Þarna er formaður VR að öllum líkindum að boða umfjöllun um fyrirtækið Íslensk orkumiðlun, en það var í eigu Bjarna Ármannssonar, Kaupfélags Skagfirðinga, Ísfélags Vestmannaeyja og fleiri. Umræddur Magnús Júlíusson er annar tveggja starfsmanna fyrirtækisins og hluthafi. Festi, eignarhaldsfélag sem er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, keypti Íslenska orkumiðlun fyrr á þessu ári fyrir 722 milljónir króna, greitt með hlutabréfum í Festi og reiðufé.
Það er tvennt sem vekur sérstaka athygli manns í tengslum við þessi viðskipti, annars vegar þeir einstaklingar sem að þeim standa og hins vegar verðmatið á Íslenskri orkumiðlun. Eins og áður segir var Bjarni Ármannsson stærsti hluthafi Íslenskrar orkumiðlunar og stjórnarformaður þess en þeir sem stjórna Festi eru Þórður Már Jóhannesson stjórnarformaður og Eggert Þór Kristófersson forstjóri. Það þarf ekki að leita lengi á netinu til að komast að því að þessi þrír einstaklingar tengjast viðskipta- og vinaböndum. Í umfjöllun Stundarinnar frá 2015 segir: „Eggert Þór er nátengdur Bjarna Ármannssyni, fyrrum forstjóra Glitnis og meðal hans nánustu samstarfsmanna“, en í fréttinni er fjallað um 1.200 milljóna króna gjaldþrot einkahlutafélaga Eggerts. Í umfjöllun Morgunblaðsins árið 2003 má svo lesa um það að Bjarni Ármannsson hafi ráðið æskuvin sinn Þórð Má til Kaupþings og síðar Straums, en báðir tengjast þeir stórum gjaldþrotamálum Bankahrunsins.

Fyrr á árinu virðast þessir nánu vinir og samstarfsmenn hafa metið Íslenska orkumiðlun, í eigu Bjarna Ármannssonar, á 850 milljónir króna og ákveðið að Festi, fyrirtæki í eigu lífeyrissjóðanna en undir stjórn þeirra Þórðar og Eggerts, keypti félagið. Þetta verðmat vekur þó óneitanlega upp nokkrar spurningar, líkt og Ragnar Þór Ingólfsson hefur bent á. Hann segir að kaupverðið bendi til að fyrirtækið hafi verið keypt á 30 faldri svonefndri EBITDA, en viðteknara viðmið á kaupverði fyrirtækja er fjórum til sex sinnum EBITDA. Íslensk orkumiðlun framleiðir ekkert og á engar stórar eignir, það er bara milliliður á raforkumarkaði milli framleiðanda og kaupanda. Líkurnar á að slíkt fyrirtæki geti boðið betri verð en stóru orkufyrirtækin og skilað eigendum sínum jafnframt viðunandi arði eru litlar sem engar. Auk þess virðast mikilvægustu sölusamningar fyrirtækisins, m.a. við Granda og fleiri fiskvinnslufyrirtæki, vera gerðir til mjög skamms tíma, eða tveggja ára. Framtíð fyrirtækisins hvílir því á afar veikum grunni. Kaup Festi á Íslenskri orkumiðlun eru réttlætt með því að N1, dótturfélag Festa, ætli að færa sig inn á raforkumarkaðinn til að taka þátt í raforkuvæðingu bílaflotans. Það hljómar samt sérkennilega að kaupa veikburða fyrirtæki á 722 milljónir til þess að sinna slíkum viðskiptum þegar það myndi einungis kosta N1 eða Festi 15 milljónir króna að stofna nýtt raforkusölufyrirtæki.

Hátt verðmat Festa á Íslenskri orkumiðlun og persónuleg tengsl forystumanna þessara fyrirtækja hljóta að verða til þess að stærstu hluthafar í Festi, þ.e. Lífeyrissjóður verslunarmanna (11,2%), Gildi – lífeyrissjóður (9,7%), Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (7,6%) og fleiri lífeyrissjóðir, hefji sérstaka athugun á þessum viðskiptum. Gerist það ekki munu varnaðarorð Ragnars Þórs, formanns VR, halda áfram að bergmála um samfélagið: „Atvinnulífið hefur farið ránshendi um lífeyrissjóði landsmanna árum og áratugum saman í skjóli eftirlitsleysis, meðvirkni verkalýðshreyfingarinnar og ítaka SA í stjórnum lífeyrisjóðanna.“