17. okt. 2019

Virkjanaframkvæmdir í hálendisþjóðgarði

Ríkisstjórnin hefur skipað nefnd þingmanna og sveitarstjórnarmanna sem á að gera tillögu að stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Nefndin hefur nú birt áherslur sínar til umsagnar og fjallar þar m.a. um virkjanamál innan garðsins. Af þeim má ætla að þjóðgarðurinn muni ekki hafa í för með sér neina aukna vernd náttúrusvæða fyrir orkuöflun. Þannig segir á einum stað að hægt verði að „viðhalda og þróa núverandi orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs“ og að „málefni orkunýtingar í þjóðgarðinum kallist á við áætlanir Alþingis um orkunýtingu og orkudreifingu og tekið verði tillit til þeirra í frumvarpinu“. 

Ljóst er að þetta orðalag mun bjóða upp á áframhaldandi deilur um núverandi orkuvinnslusvæði innan væntanlegra marka þjóðgarðsins, t.d. í Þjórsárverum þar sem Landsvirkjun hefur enn upp áætlanir um veituframkvæmd í tengslum við aðrar virkjanir í Þjórsá, nú undir nafni Kjalölduveitu. Eins mun þetta orðalag hafa þau áhrif að áfram verður hægt að reisa nýjar virkjanir innan þjóðgarðsins, fái þær samþykki Alþingis samkvæmt Rammaáætlun. Þar má m.a. nefna Hágönguvirkjun og Skrokkölduvirkjun á miðju hálendinu sem myndu skerða verðmæta náttúru og hálendisvíðerni. Að minnsta kosti sjö aðrar virkjanir eru nú í biðflokki Rammaáætlunar sem gætu fallið innan marka hálendisþjóðgarðs. 

Í skýrslu frá 2013 um óbyggð víðerni í Evrópu sem nefnist Wilderness register and indicator for Europe kemur fram að stór hluti villtustu víðerna Evrópu sé á Íslandi, eða 42% samkvæmt niðurstöðu eins skýrsluhöfundar. Víðerni á hálendi Íslands eru því meðal síðustu stóru víðerna Evrópu og mikilvægt er að fjalla um hálendið í því ljósi. Verulega hefur gengið á þessi víðerni á síðustu árum og áratugum, ekki síst með stórum virkjanaframkvæmdum eins og byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Samkvæmt einni rannsókn minnkuðu víðernin um 68% á tímabilinu 1936 til 2010. Það er mikilvægt að stöðva þessa þróun og það hlýtur að vera meðal markmiða stjórnvalda með stofnun sérstaks hálendisþjóðgarðs. Ef ætlunin er ekki að veita hálendisvíðernum og íslenskri náttúru vernd fyrir stórfelldum virkjanaframkvæmdum þá er óhætt að álykta sem svo að vinna að stofnun þjóðgarðsins sé tilefnislaus eyðsla á almannafé og vinnutíma þingmanna og opinberra starfsmanna.


10. okt. 2019

Ys og þys út af engu

Nú þegar kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar er hálfnað er eðlilegt að meta árangur hennar í hinum ýmsu málum, náttúruverndinni þar á meðal. Við sem stóðum í náttúruverndarbaráttu á kjörtímabili vinstri stjórnarinnar 2009-2013 munum að aðild Vinstri grænna að ríkisstjórn er engin trygging fyrir öflugu náttúruverndarstarfi, nema síður sé. Sú ríkisstjórn vann hörðum höndum að uppbyggingu stóriðju á Bakka og í Helguvík, m.a. með framlögum úr ríkissjóði og virkjunum á einstæðum jarðhitasvæðum, leyfi var veitt til leitar og vinnslu olíu í íslensku hafsvæði og svæði eins og Mývatn, miðhálendið og Drangajökulsvíðerni voru sett í svonefndan virkjanaflokk rammaáætlunar.

Það voru því ekki miklar væntingar sem maður bar til samstarfs Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þeim f lokkum sem gangast við því að vera virkjanaflokkar af gamla skólanum. Engu að síður má ríkisstjórnin eiga það að hún hefur gengið vasklega fram – í hinum óumdeildu málum. Þannig hefur Jökulsá á Fjöllum verið friðuð, enda var hún sett í verndarflokk rammaáætlunar 2013, hefur verið innan þjóðgarðs frá 2008 og ég þekki ekki það orkufyrirtæki sem er svo galið að ætla sér að virkja Dettifoss. Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið stækkaður með því að færa undir hann svæði sem hafði hvort sem er verið sjálfstætt friðland í 45 ár. Og þriðji „stóri“ áfangi þessarar ríkisstjórnar í náttúruverndarmálum var svo skráning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá UNESCO. Lauk þar með vegferð sem var svo óumdeild að hún hófst í tíð hægri stjórnarinnar 2013-2017 þegar umhverfisráðherra Framsóknarflokksins tilnefndi þjóðgarðinn til heimsminjaskrár.

Á þessum tveimur árum sem liðin eru af kjörtímabilinu hefur ríkisstjórnin hins vegar ekki lyft litla fingri í umdeildum átakamálum á sviði náttúruverndar, nema þá til að aðstoða framkvæmdaraðila eins og í laxeldismálinu sem þjösnað var í gegnum Alþingi síðastliðið haust. Nefna má nokkur fleiri mál sem benda til þess að svonefndir framkvæmdaaðilar mæti aldrei nokkurri andstöðu hjá þessari ríkisstjórn:

Framkvæmdir við Hvalárvirkjun eru hafnar þrátt fyrir neikvætt umhverfismat og fjölda kærumála. Um 50 virkjanir eru í undirbúningi utan Rammaáætlunar, margar hverjar mjög umdeildar. Gefið hefur verið út rannsóknarleyfi fyrir virkjun í Djúpá þrátt fyrir að áin sé í verndarf lokki Rammaáætlunar. Unnið er að undirbúningi virkjunar í Skjálfandafljóti þrátt fyrir að áin sé í biðflokki Rammaáætlunar. Unnið er að gangsetningu kísilvers í Helguvík gegn vilja íbúa í Reykjanesbæ. Unnið er að fjölgun stóriðjuvera á Bakka með tilheyrandi mengun á svæðinu, þörf fyrir fjölgun virkjana og aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Undirbúningur fyrir hafnargerð í Finnafirði mun vera kominn á fullt. Undirbúningur fyrir vegagerð í gegnum Teigsskóg er hafinn að nýju. Gengið er hratt á síðustu óspilltu víðernin hér á landi, þ. á m. Drangajökulsvíðerni með virkjun Hvalár og Landsvirkjun vinnur enn að undirbúningi jarðhitavirkjunar á miðhálendinu.

Ríkisstjórnin hefur nýtt fyrri hluta yfirstandandi kjörtímabils til að fegra umbúðir náttúruverndarinnar en hún hefur ekki lagt í að taka á innihaldinu. Það kemur í ljós á næstu tveimur árum hvort eftirmæli ríkisstjórnarinnar á þessu sviði verða, en miðað við árangurinn hingað til gætu þau orðið „Ys og þys út af engu“.

(Greinin var fyrst birt í Fréttablaðinu 10. október 2019).

12. sep. 2019

Vegtollar, einkavæðing og lýðræðislegt umboð

Nýverið birti YouGov áhugaverða niðurstöðu könnunar á viðhorfi breskra kjósenda og þingmanna til þess hvort þingmenn ættu að framfylgja eigin vilja eða kjósenda sinna. Hundrað þingmenn voru spurðir og af þeim sögðust 80 fylgja eigin dómgreind, jafnvel þó að það gangi gegn vilja kjósenda þeirra. Einungis þrettán þingmenn voru á öndverðum meiði. Það kemur kannski ekki á óvart að kjósendur tóku annan pól í hæðina og sögðust 63% þeirra að þingmenn væru kosnir til að fylgja vilja kjósenda en 7% töldu að þingmenn ættu að láta eigin dómgreind ráða.

Þessi niðurstaða endurspeglar líklega það sem kalla mætti umboðsvanda fulltrúalýðræðisins. Almenningur hefur ekki lengur trú á að stjórnmálamenn gæti hagsmuna hans á þingi eða taki mark á skoðunum kjósenda að kosningum loknum. Við þekkjum mörg dæmi úr íslenskum stjórnmálum sem benda til þess að þetta sé raunverulegur vandi. Til að mynda hefur ríkisstjórnin nú boðað nýjan skatt á akandi vegfarendur, bæði á höfuðborgarsvæðinu og hringveginum, þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til að meirihluti almennings sé andsnúinn slíkum gjöldum og að enginn flokkur hafi talað fyrir þeim fyrir síðustu kosningar, heldur þvert á móti. Formaður Framsóknarflokksins andmælti slíkum hugmyndum í stjórnarandstöðu og sagði að uppbygging vegakerfisins ætti að greiða úr ríkissjóði. Formaður Vinstri-grænna og leiðtogi þeirrar ríkisstjórnar sem nú ætlar að leggja á vegatolla sagði á landsfundi flokksins skömmu fyrir Alþingiskosningar 2017: „Er það ekki Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massa­vís? … Við munum ekki hækka skatta á almenn­ing í land­inu.“

Því miður virðast lýðræðismál heldur hafa þróast á verri veg hér á landi að undanförnu, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað og ákall almennings um aukið beint vald í kjölfar hrunsins. Ríkisstjórnin boðaði t.d. engar raunverulegar lýðræðisumbætur í stjórnarsáttmálanum og hefur nú gefið upp á bátinn tillöguna um að kjósendur geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þrátt fyrir að 73% kjósenda hafi greitt henni atkvæði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Engar hugmyndir virðast uppi um að minnihluti Alþingismanna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeildustu mál og á Bessastöðum er ekki lengur til staðar „öryggishemill“ fyrir almenning að grípa í þegar gjá hefur myndast milli þings og þjóðar. Kjósendur eru því varnarlausari gagnvart gerræðislegu meirihlutaræði Alþingis í dag en þeir voru fyrir tíu árum. Það er sérkennileg niðurstaða þeirrar gerjunar sem átti sér stað í kjölfar hrunsins, m.a. með endurteknum þjóðaratkvæðagreiðslum, kosningum og stjórnarskrárvinnu.

Nú er deilt hart um það í Frakklandi hvort einkavæða eigi flugvelli og fyrirtæki í eigu frönsku þjóðarinnar, þ.á.m. Charles de Gaulle í París. Í sumar tóku stjórnmálamenn á sitthvorum enda pólitíska litrófsins saman höndum og hófu undirskriftasöfnun til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einkavæðingaráform ríkisstjórnar Macron. Til þess beittu þeir í fyrsta skipti lögum sem sett voru árið 2008 og gera ráð fyrir að hægt sé að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum 10% kjósenda (reyndar er sá þröskuldur of hár að mínu mati). Hér á landi stendur til að hefja einkavæðingu á Íslandsbanka og Landsbanka, m.a. undir stjórn þeirra sem léku stórt hlutverk í bankahruninu fyrir áratug. Í könnun Fréttablaðsins sögðust 60% landsmanna vilja óbreytt eignarhald ríkisins á bönkunum eða þá að það verði aukið, en einungis 40% vilja feta þá slóð sem ríkisstjórnin boðar. Í könnun sem Gallup gerði fyrir fjármálaráðuneytið sögðust 61% jákvæð fyrir eignarhaldi ríkisins í bönkunum en einungis 14% sögðust neikvæð. En íslenskir kjósendur hafa engin lýðræðisleg ráð til að hafa áhrif á eða stöðva fyrirhugaða einkavæðingu, önnur en 18. aldar aðferðir mótmæla og bænaskráa. Ef þingmenn sýndu kjósendum traust með því að færa þeim aukin völd og áhrif, umfram þennan eina kross á fjögurra ára fresti, þá væri aldrei að vita nema traust kjósenda á Alþingi færi aftur vaxandi. Traust er nefnilega þess eðlis að það þarf að vera gagnkvæmt.

27. ágú. 2019

Fullveldisframsal víðar en í orkupakka

Því er haldið fram að í 3. orkupakkanum sé falið framsal á fullveldi Íslands til Brussel. Það kann vel að vera, þó að sjálfur óttist ég það frekar að orkupakkinn færi íslenskum „fjármálasnillingum“ frelsi til að braska á kostnað neytenda, rétt eins og innleiðing bankaregluverks ESB veitti þeim færi á að hvellsprengja efnahagsbólu framan í þjóðina. En þeir sem vilja verja fullveldi Íslands og sjálfstæði okkar í orkumálum þurfa að hafa augun opin fyrir öðrum samningum sem kunna að vera enn skaðlegri en orkupakkarnir, þar á meðal Samningnum um orkusáttmála (ECT, Energy Charter Treaty) sem íslensk stjórnvöld staðfestu í júlí 2015 án nokkurrar lýðræðislegrar umræðu. Engar opinberar upplýsingar er að finna um samninginn á síðum Alþingis eða ráðuneyta, fyrir utan þessi orð í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis árið 2016: „Samningur um orkusáttmála, sem fjallar um samvinnu ríkja á sviði orkumála, öðlaðist gildi 18. október 2015.“ Svo mörg voru þau orð um samning sem telja verður að vegi mjög alvarlega að fullveldi Íslands í orkumálum.

Tilgangur samningsins er að verja fjárfestingar fyrirtækja á sviði orkumála og veita þeim færi á að kæra þjóðríki til alþjóðlegs gerðardóms ef niðurstaða dómskerfis viðkomandi lands er þeim ekki að skapi. Samningurinn hefur orðið grundvöllur fleiri kærumála en nokkur annar sambærilegur alþjóðasamningur, en 75 mál voru rekin á vettvangi hans á árunum 2013 til 2017. Svonefnd skúffufyrirtæki eru fyrirferðamikil í hópi kærenda og eru dæmi um að fjárfestar kæri eigið heimaland í gegnum slík félög. Við getum því ímyndað okkur að alþjóðleg fyrirtæki eins og Ancala Partners, eigandi 50% hlutar í HSOrku í gegnum skúffufyrirtæki í Svíþjóð, geti með auðveldum hætti krafið íslenska ríkið um háar skaðabætur komi til ágreinings um réttindi og skyldur.

The Transnational Institute og Corporate Europe Observatory, alþjóðleg samtök sem vinna að lýðræðisumbótum, jafnrétti og umhverfisvernd, gáfu í fyrra út skýrslu um samninginn og fóru um hann ófögrum orðum. Þar eru rakin dæmi um það hvernig samningurinn hefur verið notaður til að krefja Búlgaríu og Ungverjaland um háar skaðabætur fyrir ákvarðanir sem teknar voru til að takmarka gróða orkufyrirtækja og halda aftur af hækkunum á raforkuverði til almennings. Orkufyrirtæki hafa til skoðunar svipuð mál í Bretlandi þar sem stjórnvöld komu nýverið á hámarksverði á raforku. Meðal þekktari mála sem byggja á samningnum er kæra sænska orkufyrirtækisins Vattenfall gegn þýska ríkinu fyrir strangari mengunarreglur kolorkuvera og lokun kjarnorkuvera. Eins kæra breska olíuvinnslufyrirtækisins Rockhopper gegn ítalska ríkinu fyrir takmarkanir sem ítalska þingið setti á olíu- og gasleit í Adríahafinu árið 2016. Fyrirtækið fer fram á andvirði um sex milljarða króna fyrir áfallinn kostnað af leitinni en einnig sexfalda þá upphæð fyrir að hafa orðið af framtíðarhagnaði af olíuvinnslunni. Ítalía sagði sig frá samningnum árið 2016 og Rússland árið 2018, bæði löndin vegna fjárhagslegra byrða sem hlutust af honum. Í tilfelli Rússlands var um að ræða hæstu skaðabætur sem gerðardómur hefur veitt, eða 50 milljarðar dala, í svonefndu Yukus-máli þar sem rússneskir ólígarkar tókust á við rússneska ríkið í gegnum erlend aflandsfélög.

Það verður ekki um það deilt að samningurinn veikir stöðu ríkja gagnvart fyrirtækjum, þar á meðal þeirra sem hingað kunna að leita, t.d. norskum eigendum vindorkugarða, breskum eigendum raforkustrengs eða kínverskum eigendum olíuleitarfyrirtækja. Fyrr á þessu ári kom framkvæmdastjóri ECT til fundar við iðnaðarráðherra og embættismenn utanríkisráðuneytisins og án nokkurs lýðræðislegs samráðs ákváðu þeir að Ísland „tæki virkari þátt í samningnum og endurskoðun hans“. Samningur um orkusáttmála hefur enga kosti fyrir okkur Íslendinga sem búum við sjálfstætt dómskerfi, mikið orkuöryggi og vel fjármögnuð orkufyrirtæki í almannaeigu. En ókostirnir eru margir og með staðfestingu samningsins og ákvörðun um virkari aðild hafa ríkisstjórnir skipaðar Sjálfstæðisflokknum, Vinstri-grænum, Framsóknarflokknum og Miðflokknum vegið alvarlega að fullveldi okkar, lýðræðislegum stjórnarháttum og gert ríkissjóð berskjaldaðan fyrir himinháum skaðabótakröfum erlendra fyrirtækja. Umræðan um fullveldisafsal okkar í orkumálum er því rétt að byrja.

11. ágú. 2019

Kvótinn, bankarnir og raforkan

Spilling í stjórnmálum og fjármálakerfinu er stærsta áhyggjuefni Íslendinga á sviði þjóðmálanna samkvæmt niðurstöðu árlegrar könnunar MMR, en 44% aðspurðra segjast hafa slíkar áhyggjur. Líklega hefur þetta viðhorf og almennt vantraust í garð stjórnvalda verið frjór jarðvegur fyrir andstöðu við orkupakka 3. Þjóð sem horfði upp á spillta viðskipta- og stjórnmálamenn eyðileggja heilt bankakerfi geldur að sjálfsögðu varhug við því þegar enn frekari breytingar eru boðaðar á grunnkerfum samfélagsins, ekki síst þegar það er gert undir trúarstefi aukinnar samkeppni og opnari markaða. Fyrsta skrefið í átt til markaðsvæðingar raforku var tekið með orkupakka 1 árið 2003 þegar opnað var á samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Samtök atvinnulífsins tóku þeirri breytingu fagnandi á sínum tíma, enda var það markmið frumvarpsins að „stuðla að … viðskiptum með raforku með því að hagnýta kosti markaðskerfisins eins og unnt er með samkeppni og frjálsri verðmyndun á markaði.“ Þetta var auðvitað á þeim árum þegar lang flestir virtust sannfærðir um yfirburði einkaframtaksins á öllum sviðum samfélagsins. En gallar samkeppnisvæðingar orkumarkaðarins komu fljótt í ljós og stöðugleiki á sviði auðlindanýtingarinnar vék fyrir bólum og braski. Traust fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur riðaði fljótlega á barmi gjaldþrots, erlend gervifyrirtæki voru komin með eignarhald á orkuauðlindinni (Magma-málið) og landsþekktir braskarar úr bankageiranum gerðu tilraunir til að söðla undir sig verðmæti í opinberri eigu (REI-málið).

Nú þegar Alþingi er í þann mund að samþykkja þriðja orkupakkann, sem er m.a. ætlað að stuðla enn frekar að aukinni samkeppni og „opnun“ raforkumarkaðarins, þá sjáum við hóp áðurnefnda braskara og aðra, flesta með sterk tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, sækja það mjög stíft að fá stórvirkjanahugmyndir sínar færðar í virkjanaflokk Rammaáætlunar. Þannig yrði þessum fyrirtækjunum færð verðmæti á silfurfati, þ.e. réttinn til að virkja, ekki ólíkt úthlutun kvótans á sínum tíma. Meðal þessara fyrirtækja eru Íslensk vatnsorka, sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur farið fyrir, og Arctic Hydro, hvurs stjórnarformaður er náfrændi fjármálaráðherra. Bæði þessi fyrirtæki vinna líka að því að reisa mikinn fjölda minni virkjana um allt land, utan reglukerfis rammaáætlunar, þar á meðal á landi Jim Ratcliffe á Austurlandi. Eins hafa einstaklingar og fyrirtæki sem byggja auð sinn á gjafakvótakerfinu í sjávarútvegi fært sig inn á þennan vettvang, t.d. Kaupfélag Skagafjarðar og eigendur Samherja. Sömu sögu er að segja af heildsöluhluta raforkunnar, þar sem fyrirtækið Íslensk orkumiðlun var stofnað árið 2017. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Bjarni Ármannsson, einn aðalleikara bankahrunsins og REI-málsins og viðskiptafélagi formanns Sjálfstæðisflokksins. Starfsmenn fyrirtækisins eru tveir, annar fyrrverandi formaður Ungra Sjálfstæðismanna og hinn fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þar áður aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins. Aðrir eigendur Íslenskrar orkumiðlunar eru fjárhagslegir bakhjarlar Sjálfstæðisflokksins, t.d. Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja. Það fer ekki á milli mála hvaða hag þessi fyrirtæki hafa af þriðja orkupakkanum þegar umsögn Samtaka orkufyrirtækja er lesin: „ … orkulöggjöf Evrópusambandsins og þá sérstaklega þriðji orkupakkinn vinnur sérstaklega með þau markmið að tryggja nýjum raforkuframleiðendum jafna stöðu þegar kemur að tengingum við flutnings- og dreifikerfin.“

Þessi þróun á raforkumarkaði vekur óneitanlega upp margar og áleitnar spurningar um það hvers konar kerfi við erum að búa til og fyrir hverja. Hvers vegna sækja fyrirtæki í einkaeigu svona fast á það að fá að reisa mikinn fjölda virkjana til að selja inn á kerfi sem framleiðir nú þegar miklu meiri raforku á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð í heiminum? Treysta þessi fyrirtæki á rafstreng til Bretlands til að skapa markað eða sjá þau fyrir sér að fjölgun gagnavera og rafvæðing bílaflotans skapi þeim sölutækifæri? Hvernig ætla þessi fyrirtæki að geta keppt við Landsvirkjun, sem hefur nú þegar nýtt hagkvæmustu virkjanakosti landsins og sækist enn eftir að fjölga hagkvæmum stórvirkjunum? Ætla þau kannski að krefjast uppskiptingar Landsvirkjunar á samkeppnissjónarmiðum? Á að leyfa einstaklingum sem hafa auðgast gríðarlega á gjafakvótakerfinu að gerast líka aðsópsmiklir í nýtingu orkuauðlindarinnar? Og að lokum er líklega rétt að spyrja hvort stefna ríkisstjórnarinnar í málinu kunni að byggja á tengslum umræddra fyrirtækja við forystu Sjálfstæðisflokksins?

Það er óumdeilt að margt forystufólk Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og stundum fjölskyldur þeirra, vinir eða pólitískir bandamenn, auðguðust verulega á breytingum sem gerðar voru á grunnkerfum samfélagsins á undanförnum áratugum. Ber þar auðvitað hæst setning og þróun kvótakerfisins í sjávarútvegi á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og einkavæðing bankanna á fyrstu árum þessarar. Nú bendir margt til þess að ný kynslóð forystufólks í flokknum vilji nýta aðstöðu sína til að leika þennan sama leik á raforkumarkaði. Vonandi munu augu fleiri stjórnarandstöðuþingmanna opnast fyrir því áður en þriðji orkupakkinn kemur til afgreiðslu á Alþingi síðar í þessum mánuði. Sá stóri hluti kjósenda sem telur spillingu í stjórnmálum og fjármálakerfinu stærstu ógnina á sviði þjóðmálanna á það skilið að fleiri flokkar tali hans máli í þingsal.