En Blönduvirkjun verður víst ekki reist nema einu sinni. Og hvaða svæði þarf þá að leggja undir virkjanir til að framtíð Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar verði að veruleika? Nefnum nokkur:
- Hrafnarbjargavirkjun (585 GWs) og Fljótshnjútsvirkjun (405 GWs) í Skjálfandafljóti. Þær myndu eyðileggja Aldeyjarfoss og fleiri náttúruverðmæta í fljótinu. Svæðin eru auk þess í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt þeim tillögum sem liggja nú fyrir Alþingi.
- Skatastaðavirkjun (1090 GWs) og Villinganesvirkjun (215 GWs) í Jökulsánum í Skagafirði sem eru í verndarflokki rammaáætlunar samkvæmt tillögum sem nú liggja fyrir Alþingi.
- Hvamms- (720 GWs), Holta- (450 GWs) og Urriðafossvirkjunar í neðri hluta Þjórsár (1037 GWs). Þetta eru umdeildar virkjanir, enda fyrstu stórvirkjanir Landsvirkjunar í byggð sem hefðu auk þess neikvæð áhrif á stærsta villta laxastofn landsins og þurrkuðu upp vatnsmesta foss landsins.
- Stækkun Blönduveitu (195 GWs) og vindmyllur í Blöndulundi (350 GWs).
- Vindmyllur í Búrfellslundi (300 GWs).
- Stækkun Kröfluvirkjunar (370 GWs).
- Hvalárvirkjunar í Árneshreppi (320 GWs) sem er mjög umdeildur og óhagkvæmur virkjanakostur og Austurgilsvirkjun á Vestjörðum (228 GWs)
- Hagavatnsvirkjun (120 GWs) og Skrokkalda á hálendinu (260 GWs) sem hafa mætt harðri andstöðu ferðaþjónustu og náttúruverndarfólks.
- Eldvörp á Reykjanesi (410 GWs) og Trölladyngja (410 GWs). Einhver fallegustu jarðhitasvæði landsins í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
- Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn (756 GWs). Virkjunin gæti haft neikvæð áhrif á ómetanlegt lífríki vatnsins og er auk þess í jaðri þorpsins í Reykjahlíð.
- Hverfisfljótsvirkjun (244 GWs), Hólmsárvirkjun (480 GWs) og Búlandsvirkjun (1057 GWs) í Skaftárhreppi. Allt virkjanir sem myndu spilla ægifögru svæði á hálendisjaðrinum.
Það er ekki mjög hughreystandi að horfa upp á forystu Landsvirkjunar tapa jarðtengingu með tali um tvöföldun raforkuframleiðslu á fáum árum. Við getum rétt ímyndað okkur hvaða efnahagslegu áhrif það hefði ef hér ætti að reisa fimm Kárahnjúkavirkjanir á tveimur áratugum. Það þarf ekki langskólanám í hagfræði til að sjá fyrir sér að Seðlabankinn þyrfti að grípa til verulegra vaxtahækkana til að kæla hagkerfið, skortur yrði á vinnuafli í öðrum atvinnugreinum og húsnæðisskortur myndi aukast vegna mikils innflutnings verkafólks. En kannski má rekja þetta óraunsæi forystu Landsvirkjunar til þess að fyrirtækið nýtur nú óvenju góðs rekstrarumhverfis þar sem afurðaverð er í hæstu hæðum og vaxtakjör með besta móti. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem íslenskir athafnamenn eru slegnir góðærisblindu rétt áður en vaxtahækkanir og leiðrétting verðlags á heimsmarkaði kippa þeim aftur niður á jörðina.
Tökum vel á móti framtíðinni, en reynum að gera það með sæmilegu raunsæi. Virkjum það litla sem við þurfum til að rafvæða bílaflotann, en dokum svo við til að sjá hvort og þá hvaða tæknilausnir verða þróaðar fyrir orkuskipti í samgöngum á sjó og í lofti. Það er ástæðulaust að hefja stórkostleg átök um virkjanamál fyrr en að það liggur ljóst fyrir hvort virkjana sé þörf.