12. sep. 2022

Efna­hags­leg á­hætta virkjana­stefnunnar

Landsvirkjun hefur vegnað vel á síðustu misserum, ekki síst vegna mikilla verðhækkana á álmörkuðum á liðnu ári og fyrstu tveimur mánuðum þessa árs. Fram hefur komið að rekstrartekjur fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins hafi verið hærri en nokkru sinni. Það er því sannarlega ástæða til að gleðjast yfir þeirri stöðu sem Landsvirkjun er í þessa stundina ­‒ er á meðan er. En verandi reynslunni ríkari eftir hrun alþjóðlegra fjármálamarkaða 2008 þá verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika að veður skipist fljótt í lofti.

Samkvæmt S&P er Landsvirkjun með lánshæfismatið BBB+. Í BBB flokk falla fyrirtæki sem eru talin hafa burði til að standa við skuldbindingar sínar í núverandi ástandi en kunna að lenda í vandræðum ef halla tekur undan fæti í hagkerfi heimsins. Það ætti því að hringja varúðarbjöllum í höfuðstöðvum Landsvirkjunar að heimsmarkaðsverð á áli hefur fallið um 39% á síðustu sex mánuðum, hagvöxtur í Evrópu fer hratt minnkandi og vextir fara hratt hækkandi á þeim mörkuðum sem Landsvirkjun sækir lán. Hér á landi er síðan brýnasta hagstjórnarverkefnið að ná niður verðbólgu í umhverfi þar sem við sjáum fram á mikla fjárfestingarþörf á húsnæðismarkaði og stjórnvöld boða mikla fjárfestingar, t.d á samgönguinnviðum. Þá lítur út fyrir að hagvöxtur verði hár á næstu árum og frá atvinnulífinu berast þau tíðindi að útlán til fyrirtækja fari ört vaxandi og að sjaldan eða aldrei hafi fyrirtæki skort starfsfólk eins og nú. Peningastefnunefnd Seðlabankans telur að herða þurfi taumhaldið og ákvarðanir í atvinnulífi muni skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Það er því ekkert í hagkerfinu, hvorki hér á landi né á heimsvísu, sem gefur til kynna að nú sé rétt að hefja stórfelldar virkjanaframkvæmdir í þeim anda sem stjórnvöld og forysta Landsvirkjunar hafa boðað. Þvert á móti. Undir þessum kringumstæðum þarf að koma í veg fyrir að Landsvirkjun hefji vegferð lánadrifinnar virkjanastefnu sem myndi að líkindum kosta almenning og þorra íslenskra fyrirtækja milljarða vegna vaxtahækkana. Ráðlegra væri að nýta næstu ár til að lækka áfram skuldir Landsvirkjunar svo fyrirtækið geti stuðlað að stöðugleika í hagkerfinu, skilað samfélaginu arðgreiðslum og byggt sig upp fjárhagslega til að takast á við þann ólgusjó sem mun skekja efnahagskerfi heimsins næstu árin.