Ég er nýkominn frá útlöndum og fór þá í gegnum þetta furðulega fyrirbæri sem fríhöfnin er. Eins og sannur Íslendingur, alinn upp í áfengiskúltúr okursamfélagsins, setti ég allt það áfengi í innkaupakerruna sem ég mátti kaupa á þeim afsláttarkjörum sem þar eru í boði. Ég fengi samviskubit gerði ég það ekki, því hvaða neytandi með sæmilegu viti kaupir sér ekki áfengi í fríhöfninni? Ég hugleiddi meira að segja alvarlega að byrja að reykja bara til að spara mér peninginn við kaup á kartonum.
Þarna var ég nýkominn frá Englandi þar sem maður keypti vín og bjór á góðum tilboðum í litlum hverfaverslunum eða stórmörkuðum og meðalverðið á bjórglasi (0,57 l.) á krám er 3,47 pund, eða 470 krónur. Án þess að ég telji íslenska áfengissölukerfið stórkostlega gallað þá þykir mér hið breska betra. Þess vegna þykir mér miður hvernig þingmenn báru sig að síðasta vetur þegar þeir lögðu til breytingar á lögum um áfengissölu. Frumvarpið var svo öfgafullt að þeir gátu sjálfir sagt sér að það yrði aldrei samþykkt. Þegar tæp 57% eru því andvíg að léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum og þrír af hverjum fjórum eru andvígir því að þar verði sterkt áfengi á boðstólnum, þá er það auðvitað vonlaust að leggja fram frumvarp um að ÁTRV verði tafarlaust lagt niður og áfengissala færist að fullu í matvöruverslanir.
Aðrar hófsamari leiðir hefðu verið færar til að betrumbæta kerfið. Þannig hefði t.d. mátt veita litlum hverfaverslunum leyfi til að selja bjór og léttvín, eða veita heimild til reksturs sérverslana með áfengi. Þannig væri aðgengið auðveldað og samkeppni aukin án þess að allar verslanir fylltust af áfengi, sumum til ama og óþæginda. Þá hefði líka fengist reynsla fyrir slíku fyrirkomulagi áður en ákvörðun væri tekin um framtíð áfengissölu ríkisins.
En það sem hefði líklega meiri og mikilvægari áhrif fyrir almenning er löngu tímabær lækkun skatta og gjalda á áfengi. Bjórinn hér er nú sá dýrasti í heimi samkvæmt alþjóðlegum samanburði, enda hefur áfengisgjaldið hækkað langt umfram verðlag, eða um 100% á áratug og þar af um 5% um síðustu áramót. Auk þess hækkaði Alþingi álagning ÁTVR mjög verulega árið 2008, t.d. á bjór úr 13% í 18%. Það er því löngu orðið tímabært að Alþingi lækki álögur á áfengi. Í umsögn Neytendasamtakanna um fjárlög þessa árs segir að áfengisgjöld séu með hæsta móti hér í samanburði við önnur Evrópulönd og því hefði átt að falla frá fyrirhuguðum hækkunum. Það gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks hins vegar ekki og hækkaði gjaldið.
Á Alþingi verður örugglega lengi deilt um hvaða aðferð hentar best við smásölu á áfengi, en um hitt þarf ekki að deila - skattar á áfengi eru allt of háir og þá þarf að lækka verulega sem allra fyrst.
(Myndin að ofan er fengin af vef Arion banka).
Sjá einnig um sama efni: I think not, Mr. Icehot (9.10.2015)