Saga United Silicon hefst fyrir alvöru árið 2009 þegar Íslendingur í Danmörku, sem virðist þá hafa brennt flestar þarlendar brýr að baki sér, stofnar Íslenska kísilfélagið (síðar United Silicon) í samstarfi við íslenskan lögfræðing. Þeir félagar ganga rösklega til verks og ná samstarfi við erlent fyrirtæki með mikla reynslu af rekstri kísilvera, en það samstarf reynist skammvinnt þar sem erlenda félagið hættir við þátttöku.
Fátt fréttist af þeim félögum þar til árið 2014 þegar Arion-banki virðist taka þá undir sinn verndarvæng og þeir lýsa því yfir að verksmiðjan eigi að verða sú stærsta sinnar tegundar í heiminum! Stjórnendur Arion-banka ákvaðu að lána þeim félögum háar fjárhæðir auk þess sem bankinn eignaðist hlut í félaginu og lét lífeyrissjóði sem bankinn hefur umsjón með, Frjálsa lífeyrissjóðinn og Eftirlaunasjóð FÍA, fjárfesta í kísilbræðslunni. Bankinn hefur lánað fyrirtækinu átta milljarða króna og á auk þess 16,3% hlut í því sem metinn var á 900 milljónir, en lífeyrissjóðir hafa fjárfest fyrir samtals 2,2 milljarða í verkefninu.
Nú bendir flest til þess að þetta fé sé tapað og að saga United Silicon verði furðulega stutt. Fyrsta skóflustungan að verksmiðjunni var tekin í ágúst 2014 og einungis þremur árum síðar óskaði fyrirtækið eftir greiðslustöðvun til að reyna að forða sér frá gjaldþroti. Á þessum skamma tíma komst reksturinn í hámæli vegna mengunar, lélegra kjara starfsfólks, athugasemda Vinnueftirlitsins um aðstöðu starfsfólks, eldsvoða í verksmiðjunni, ógreiddra lóðagjalda og svo alvarlegra átaka við verktaka sem byggðu verksmiðjuna að lögregla þurfti að skakka leikinn. Flest af þessu var endurtekið efni hjá framkvæmdastjóra United Silicon frá því hann brenndi brýrnar í Danmörku.
Þessi hamfarasaga krefst ýtarlegrar rannsóknar sem líklega er einungis á færi Alþingis að framkvæma. Lög um rannsóknarnefndir frá 2011 heimila Alþingi að skipa rannsóknarnefnd ef „þingið samþykkir ályktun þar um til að rannsaka málsatvik í mikilvægu máli sem varðar almenning“. Hér er ljóst að bæði fjárfesting lífeyrissjóða í United Silicon og mengun frá bræðslunni varða almenning, auk þess sem svara þarf fjölda spurninga svo forðast megi að þessi saga endurtaki sig, t.d. þessum:
- Hvað hafa ofan nefndir tveir stofnendur United Silicon grætt á þessu ævintýri öllu? Hver hafa laun þeirra verið fyrir framkvæmdastjórn og stjórnarsetu? Hafa þeir eða félög í þeirra eigu hagnast með öðrum hætti, t.d. sölu hlutafjár?
- Hafa þeir hagnast á að beina viðskiptum United Silicon í gegnum eigin fyrirtæki, t.d. lögfræðistofuna Veritas lögmenn?
- Hver er eigandi Geysis Capital, eiganda lóðarinnar í Helguvík, og hvað hefur félagið grætt á rekstrinum? Hefur skattur af mögulegum hagnaði af leigu lóðarinnar verið greiddur hér á landi eða var hann fluttur í erlent skjól í gegnum hollenska félagið USI Holding BV, formlegs eiganda Geysis Capital? Þess má geta að stjórnarformaður Geysis Capital er tengdur stofnendum United Silicon fjölskylduböndum.
- Hverjir eru raunverulegir eigendur USI Holding BV, huldufélagsins sem á stærstan hlut í United Silicon, og hvers vegna fela þeir sig í Hollandi, þekktu skattaskjóli?
- Arion-banki og lífeyrissjóðirnir hafa réttlætt fjárfestingu sína með yfirlýsingum um ítarlega „greiningu sérfræðinga eignastýringu Arion Banka“ og „verkfræðilegar og lögfræðilegar kostgæfnisathuganir óháðra ráðgjafafyrirtækja.“ Hverjir voru þessir sérfræðingar, voru þeir sannanlega óháðir, á hvaða forsendum byggðu þeir niðurstöðu sína og hvernig gátu þeir haft svona stórkostlega rangt fyrir sér?
- Það þarf ekki að leita lengi til að finna áhrifamenn úr Sjálfstæðisflokknum allt í kringum borðið í þessu máli. Fulltrúar flokksin í bæjarstjórn Reykjanesbæjar báru eigendur fyrirtækisins á höndum sér, ráðherra flokksins veitti fyrirtækinu ríkisaðstoð sem metin var á hálfan milljarð króna og innan stjórnendahóps leiðandi fyrirtækja í þessum farsa má finna fulltrúa innan úr valdakerfi flokksins. Hversu stóran þátt spiluðu pólitísk áhrif í þessari sögu, þ.á.m. meðal í þeirri ákvörðun Arion-banka að fjármagna reksturinn?
- Hvað hefur rekstur kísilbræðslunnar kostað ríkissjóð, t.d. vegna aukinna verkefna hjá ríkisstofnunum og mögulegra vanefnda í viðskiptum United Silicon og Landsvirkjunar?
- GMR Endurvinnslu á Grundartanga varð gjaldþrota fyrr á þessu ári eftir aðeins skamman tíma í rekstri, sem virtist hvorki byggja á nægilega sterkum fjárhagslegum né faglegum grunni. Rekstur United Silicon virðist því miður vera af sama toga. Þess vegna hlýtur Alþingi að þurfa að skoða hvort herða þurfi lög og reglur svo tryggja megi að einungis þeir sem kunna almennilega til verka fái að stofna og reka málmbræðslur og aðra stóriðju.
- Hvaða trygginu hefur almenningur fyrir því að fyrirhuguð kísilbræðsla Thorsil í Helguvík verði ekki jafn illa rekið fyrirtæki og United Silicon og GMR Endurvinnsla? Það eykur ekki traust manns á Thorsil að einn af eigendum þess er áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins sem var áður stjórnarformaður GMR Endurvinnslu, fyrirtækis sem var undir stöðugu eftirliti Umhverfisstofnunar vegna mengunar.