„Að mínu viti þá er þetta svikalogn, það kemur að því að krónan veikist aftur, verðbólgan fer af stað og þá mun koma annað hljóð í strokkinn.“ Þessi viðvörunarorð, sem Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor, lét falla í viðtali við Viðskiptablaðið nýverið, eru orð í tíma töluð, enda borðleggjandi að krónan mun falla hressilega fyrr eða síðar, líklega fyrr en síðar. Að minnsta kosti virðist viðskiptalífið byrjað að gíra sig upp í harkalegt verðbólguskot. Nýleg greining Capacent segir augljóst að verðbólgan muni fara vaxandi, fyrirsagnir fjölmiðla segja frá skarpri hækkun svonefnds verðbólguálags, fjármagnseigendur eru að flytja sitt fé í skjól erlendis og bankarnir hafa tekið sér stöðu til að græða á næsta verðbólguskoti, um 3,8 milljarða á hverju prósentustigi verðbólgu að mati Bankasýslu ríkisins. Allt þetta bendir til þess að hér séu að verða straumhvörf í efnahagslífinu og nú muni fjara duglega undan krónunni með vaxandi verðbólgu í kjölfarið.
Yfirvofandi verðbólguaukning er sérstaklega alvarleg í ljósi þess að skuldir heimilanna eru aftur farnar að aukast hratt vegna aukinna útlána lífeyrissjóða og óhóflegra verðhækkana á fasteignamarkaði. Íbúðalánasjóður segir í nýrri skýrslu að skuldirnar aukist nú hraðar en hrunárið 2008. Þessi lán eru að stærstum hluta verðtryggðar skuldir sem munu bólgna út þegar verðbólgan fer aftur í gang, bæði afborganir og höfuðstóll. Þetta setur fólk í sérstaklega hættulega stöðu ef það hefur neyðst til þess að taka mjög há lán til að komast inn á fasteignamarkaðinn. Sá hópur mun fara verst út úr yfirvofandi falli krónunnar og aukinni verðbólgu. Auk þess má ekki gleyma þeim stóra hópi fólks sem er á leigumarkaði þar sem verðtryggðir samningar eru mjög algengir, eða þeim stækkandi hópi millistéttarfólks sem greiðir um það bil ein mánaðarlaun á ári í afborganir af verðtryggðum námslánum.
Í ljósi þessa mega stjórnvöld ekki bíða þar til allt er komið í óefni, þau verða að bregðast við með fyrirbyggjandi aðgerðum. Allt frá hruni hefur t.d. verið fjallað um svonefnd lyklalög sem gerðu fólki kleift að láta fasteign í hendur lánveitanda ef það hefði ekki lengur efni á afborgunum. Þessu lofaði Sjálfstæðisflokkurinn á sínum tíma en hefur ekki staðið við. Fjölmargir hafa bent á að eðlilegt væri að færa húsnæðisverð úr verðbólgumælingum hins opinbera, ekki síst í ljósi fyrirmynda erlendis. Það myndi alla jafna leiða til lægri verðbólgu og þar af leiðandi minni hækkunar á höfuðstól og afborgunum lána. Árið 2014 lagði sérfræðingahópur þáverandi ríkisstjórnar fram tillögur um leiðir til að afnema verðtryggingu, þ.á.m. að bönkum yrði gert skylt að hafa jafnvægi á milli verðtryggðra eigna og skulda svo að þeir gætu ekki beinlínis grætt á mikilli verðbólgu. Síðan þá hafa ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins ekkert gert með þessar tillögur. Að lokum má nefna tillögur sem komu fram í hruninu um þak á hækkanir verðtryggðra lána sem hefði þau áhrif að bankarnir deildu verðbólguáhættunni með almenningi – bankar sem högnuðust um 657 milljarða frá 2009 til ársloka 2016 eiga væntanlega borð fyrir báru. Það er því enginn skortur á aðferðum til þess að koma lánþegum í sæmilegt skjól.
Því miður óttast ég að ríksstjórn Sjálfstæðisflokksins muni lítið sem ekkert gera til að draga úr þeirri áhættu sem almenningur er kominn í. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa gripið tækifærið og eru þegar byrjaðir að kenna almennu launafólki um vænta verðbólguhækkun en viljinn til að koma böndum á fjármálafyrirtækin og milljarðamæringana, þ.e. þá sem bera raunverulega ábyrgð á óstöðugleikanum í efnahagslífinu, er enginn. Enda ekki við öðru að búast af forystumönnum flokka sem byggja beinlínis tilveru sína á stuðningi þess fólks sem hefur grætt milljarða, og ætlar sér áfram að græða milljarða, á verðtryggðu fjármálakerfi sem kemst alltaf í skjól peningaprentunar í skuldabókum almennings þegar á móti blæs. Lánþegar hafa hins vegar ekki í neitt skjól að sækja þegar þetta svikalogn er á enda, ekki nema að ríkisstjórn og Alþingi bregðist við - og það strax.