- Fyrirtæki á vegum Reykjavíkurborgar gerðu samninga við erlenda braskara um sölu á raforku fyrir verksmiðju Silicor Materials og veittu þeim vilyrði fyrir lóð við Grundartanga. Íbúar á svæðinu reyndust andsnúnir framkvæmdinni og þurftu að leggja í dýra og tímafreka vinnu til að stöðva málið fyrir dómstólum.
- Fyrirtæki á vegum Reykjavíkurborgar hafa staðið fyrir stöðugri uppbyggingu á stóriðju á Grundartanga, m.a. með samningum við umhverfissóða eins og GMR stálendurvinnslu. Borgarbúar hafa aldrei verið spurðir um afstöðu til þessarar stefnu.
- Fyrirtæki á vegum borgarinnar hefur haldið áfram að ofnýta jarhitað á Hellisheiði til orkuframleiðslu. Það hefur kostað miklar og dýrar fjárfestingar sem almennir borgarbúar munu borga með sífellt hækkandi verði á raforku.
- Fyrirtæki á vegum Reykjavíkurborgar hefur nýverið rústað lífríki Andakílsár á svæði sem nýtur alþjóðlegrar verndar samkvæmt Ramsar samningnum.
- Komið hefur í ljós að svifryksmengun í borginni er mun meiri en í stórri iðnaðarborg í Bandaríkjunum. Líklegasta orsökin er tregða borgarinnar til að þrífa götur og rykbinda.
- Borgarstjóri hefur talað fyrir því að innanlandsflugvöllur verði reistur í Hvassahrauni, helsta vatnsverndarsvæði Suðurnesja.
- Fyrirtæki á vegum borgarinnar hefur selt erlendum fyrirtækjum orkuhreinleikavottorð og þannig skaðað ímynd íslenskrar orkuframleiðslu sem nú er skráð með uppruna í kjarnorku og jarðefnaeldsneyti.
- Fyrirtæki á vegum borgarinnar braut lög um upplýsingarétt um umhverfismál, þegar það hélt því leyndu að skólp flæddi í sjóinn í næsta nágrenni við vinsælustu baðströnd borgarinnar.
Þeim sem vilja bæta ráð sitt er oft ráðlagt að byrja á því að játa syndir sínar. Ég legg til að næsta skref borgarstjórnar verði að játa að hún verðskuldaði ekki Norrænu umhverfisverðlaunin og skili Norðurlandaráði peningunum sem fylgdu þeim.