Forseti lýðveldisins var í útvarpsviðtali um helgina þar sem hann
sagðist ekki ætla að tilkynna um framtíðaráform sín fyrr en um áramót.
Það gerði hann til að þjóðin fengi ráðrúm til að ræða embættið og
framtíð þess.
Það er því best að taka hann á orðinu. Ég hef haft sæmilega gaman af
þessum leik, þ.e. að velta fyrir mér hver gæti orðið næsti forseti.
Fjölmargir hafa verið nefndir til sögunnar og vissulega eru margir í
þeim hópi sem ég myndi treysta til að gegna starfinu vel. En það var þó
ekki fyrr en nýverið sem ég varð algjörlega sannfærður um það hver væri
rétti einstaklingurinn fyrir embættið. Það var þegar ég las samantekt
Jennýar Stefaníu Jensdóttur, formanns Gagnsæis – samtaka gegn spillingu,
á árangri Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara í dómsmálum sem
tengjast hruninu. Hann hefur fengið um helming ákærðra dæmda og fyrir
Hæstarétti hefur verið sakfellt í um 90% tilfella.
Það var augljóst árið 2008 að starf sérstaks saksóknara var ekki
eftirsótt í lögfræðingastétt, en það var stofnað til að rannsaka grun um
refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar atburða er
leiddu til bankahrunsins og til að saksækja ef ástæði þótti til. Enginn
sótti um starfið þegar það var auglýst og því tók Björn Bjarnason
dómsmálaráðherra þá farsælu ákvörðun að skipa Ólaf Þór, þá sýslumann á
Akranesi, í embættið. Hann hefur síðan náð miklum árangri, m.a. með
dómum Hæstaréttar yfir forsvarsmönnum Kaupþings og Landsbankans, þrátt fyrir mikinn áróður gegn honum sem rekinn hefur verið af lögfræðingum, útrásarvíkingum og þingmönnum og formanni Sjálfstæðisflokksins.
Ef það er hægt að halda því fram að hér hafi farið fram uppgjör við
þá sem ollu efnahagshruninu 2008 þá hefur það annars vegar fari fram á
vegum Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu
og hins vegar á vegum Ólafs Þórs og hans starfsfólks. Enda hefur
ríkisstjórn Sjálfstæðislfokks og Framsóknarflokks reynt að koma í veg
fyrir þetta uppgjör eins og hægt er, t.d. með miklum niðurskurði á fjárveitingum til Sérstaks saksóknara.
Nú nýverið sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins að
ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu ekki að gera þær breytingar sem Alþingi
ákvað að grípa til í kjölfar efnahagshrunsins, m.a. með
stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Ríkisstjórnin
hefur einnig stöðvað rannsókn á einkavæðingu bankanna sem átti að fara
fram samkvæmt ályktun Alþingis 7. nóvember 2012. Þingmaður
Sjálfstæðisflokksins hefur lýst þessari stefnu þannig að nú þurfi þjóðin að horfa fram á við
og hætta að eyða kröftum sínum í að „endurskoða fortíðina“. Verðandi
varaformaður Sjálfstæðisflokksins orðaði sömu stefnu þannig að
rannsóknarskýrsla Alþingis væri að þvælast fyrir flokknum tímabundið.
Næsta vor fær þjóðin tækifæri til að velja sér forseta sem gæti orðið
mótvægi við þessa spilltu stjórnmála- og viðskiptamenningu. Þannig
mætti reka slyðruorðið af forsetaembættinu sem hefur fylgt því frá því
að núverandi forseti tók að sér klappstýruhlutverk útrásarinnar, gerðist
persónulegur vinur dæmdra efnahagsbrotamanna og sæmdi þá fálkaorðunni.
Ólafur Þór Hauksson hefur sýnt fram á það með yfirvegaðri framgöngu og
árangri í starfi að hann er einmitt rétti maðurinn til að taka við
forsetaembættinu.