Frumvarp um áfengissölu í verslunum er eitt af fáum málum sem þingmenn sjálfstæðismenn geta notast við
til að gefa flokknum ímynd frjálslyndis. Það er sauðargæran sem
úlfurinn klæðist til að styrkja stöðu sína hjá þeim þriðjungi kjósenda
sem styðja málið. Þannig notaði fjármálaráðherra og formaður
Sjálfstæðisflokksins tækifærið nýverið í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra
til að hnykkja á þessari stefnu flokksins: „Það eru röng skilaboð frá
þinginu að treysta ekki fólki til þess að kaupa áfengi í venjulegum
verslunum, að það þurfi opinbera starfsmenn til að afhenda slíka vöru
yfir búðarborðið. Það eru röng skilaboð.“
Sami
fjármálaráðherra og segist talsmaður frjálslyndis í áfengismálum hefur
nýverið lagt fram frumvarp sem mun hækka verð á áfengi í landinu. Eins
og Félag atvinnurekenda bendir á þá ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins
að hækka áfengisgjaldið
sem eru fyrir með þeim hæstu í heiminum. Þannig hækkar vodkaflaskan úr
5.098 kr. í 5.422 kr. og ginið fer úr 5.498 kr. í 5.839 kr. Sami
formaður Sjálfstæðisflokksins hefur líka hækkað matarreikning heimilanna
um átta milljarða króna með hækkun matarskatts, heldur verndarhendi
yfir einokunarframleiðslu á mjólkurvörum sem hefur leitt til allt að 25%
verðhækkana á einu ári og lætur fákeppni á bankamarkaði óáreitta sem
hefur leitt til 8% hækkunar á okurvöxtum yfirdráttarlána það sem af er
ári.
Sami formaður Sjálfstæðisflokksins kvartar síðan sáran yfir
því að almenningur krefjist launahækkana sem eru í einhverju samræmi við
þær útgjaldahækkanir sem hann hefur kallað yfir samfélagið með aðgerðum
sínum og aðgerðarleysi. „Þið hafið hækkað laun of mikið,“ segir hann við vinnuveitendur á sama tíma og hann hækkar skatta á áfengi og mat.
Nú er ég í hópi þeirra 30% kjósenda
sem eru fylgjandi frumvarpi um að verslanir fái að selja áfengi. En að
ég láti glepjast af sauðargæru Sjálfstæðisflokksins – I think not, Mr.
Icehot.