„Þetta sem helst nú varast vann
varð þó að koma yfir hann.“
Kannski var þetta sálmurinn sem formaður Framsóknarflokksins las um
síðastliðna páska. Að minnsta kosti virðist hann vel við hæfi þegar
Framsóknarflokknum hefur á rúmum áratug breyst úr bjargvætti ungs fólks á
húsnæðismarkaði í bölvald.
Kosningabarátta Framsóknarflokksins árið 2003 var nokkuð merkileg. Ég
man að ég dáðist að henni, sér í lagi sjónvarpsauglýsingunni þar sem
foreldrar ungs manns voru sýndir meira en lítið vandræðalegir yfir
ástaratlotum sonarins og kærustunnar. Slagorðið var eitthvað í þá veruna
að nú væri kominn tími til að losna við unglinginn af heimilinu.
Auglýsingaherferðin þótti svo vel heppnuð að Framsóknarflokkurinn vann
fyrstu verðlaun í Effie-samkeppninni 2003. Í umsögn dómnefndar kom fram að markaðsherferð flokksins hefði skilað tilætluðum árangri – auknu fylgi yngra fólks.
Lausn Framsóknarflokksins á vandræðalegri sambúð foreldra og unga
fólksins var 90% húsnæðislán Íbúðalánasjóðs. Flokkurinn efndi loforðið
að loknum kosningum og að mati rannsóknarnefndar Alþingis reyndist það
ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna. Að mínu
mati hafa þó bein áhrif 90% lána Íbúðalánasjóðs verið ofmetin í
umræðunni, enda var þak á upphæð þeirra sett frekar neðarlega, eða við
rúmar 15 milljónir. En þegar á heildina er litið settu aðgerðir
Framsóknarflokksins af stað skriðu sem á endanum rústaði möguleikum ungs
fólks á húsnæðismarkaði og gerði fjölda fólks gjaldþrota. Fyrir því eru
tvær megin ástæður.
Í fyrsta lagi hleyptu þessar breytingar kappi í bankana sem
ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði selt pólitískum
bandamönnum sínum árið 2002. Þeir kunnu lítið eða ekkert fyrir sér í
bankarekstri og rústuðu bankakerfinu á sex árum. Undir stjórn þeirra
komu bankarnir af alefli inn á húsnæðislánamarkaðinn með 80% til 100%
lán árið 2004. Á fjögurra mánaða tímabili það ár, frá september til
ársloka, veittu bankarnir ný íbúðalán upp á rúmlega 115 milljarða króna.
Í ágúst þar á undan numu þessi lán einungis 90 milljónum og 300
földuðust því á örskömmum tíma. Þannig hófst fasteignabólan.
Í öðru lagi leiddu þessu útlán bankanna til þess að fólk greiddi upp
gömul lán hjá Íbúðalánasjóði. Sjóðurinn sat þá upp með háar fjárhæðir,
um 180 milljarða á tímabili, og í stað þess að draga úr umsvifum
sjóðsins ákvað stjórn hans, skipuð af ráðherra Framsóknarflokksins, að
breyta honum í fjárfestingabanka sem lánaði viðskiptabönkunum
gríðarlegar fjárhæðir og stundaði aðrar áhættusamar fjárfestingar. Með
þessu móti var blásið enn frekar í bóluna sem hafði myndast á
húsnæðismarkaði og Íbúðalánasjóður á endanum rekinn í þrot.
Afleiðingarnar urðu þær að húsnæðisverð þrefaldaðist á skömmu
tímabili og markaðurinn reynist ungu fólki nú enn fjandsamlegri en hann
var þegar Framsóknarflokkurinn þóttist bjargvættur ungs fólks fyrir
kosningarnar 2003. Margrét Krismannsdóttir framkvæmdastjóri vakti athygli á því nýverið
að samkvæmt hennar útreikningum sé íbúðaverð nú u.þ.b. 100% hærra en
árslaun venjulegs fólks en þetta hlutfall hafi verið 35% árið 1991. Þess
vegna búa 40% Íslendinga á þrítugsaldri enn í foreldrahúsum á meðan
hlutfallið í Danmörku er 10%.
Það er því grátbroslegt að ráðherra Framsóknarflokksins hvetji nú
ungt fólk til að búa sem lengst í foreldrahúsum, einungis tólf árum
eftir að flokkurinn tryggði sér völdin með því að lofa óþreyjufullum
foreldrum og ástsjúku ungu fólki að njóta næðis í eigin húsnæði. „Þetta
sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.“