Við teljum okkur trú um að velferðarkerfið okkar dragi úr
stéttaskiptingu, meðal annars með því að veita öllum tækifæri til
háskólanáms. Raunin er hins vegar sú að núverandi fyrirkomulag
velferðarkerfisins, í formi námslána, elur á misskiptingu.
Námslánakerfinu hefur verið breytt með reglulegu millibili og jafnan í
þá veruna að skerða kjör lánþega, herða aðeins kverkatakið á unga
fólkinu sem er látið greiða fyrir óráðsíu þeirra sem eldri eru.
Verðtrygging var sett á lánin 1976, en fram að því höfðu lánin í raun
verið styrkur, og hámarks endurgreiðslutími hækkaði í 20 ár. Árið 1982
var svo hámarks endurgreiðslutími lengdur úr 20 árum í 40 ár og þar með
opnað á að lánþegar sætu uppi með afborganir af námslánum inn í ellina.
Það var síðan árið 1992 sem námslánaþegar fengu virkilega að kenna á
því. Þá var hlutfall afborgana af launum hækkað úr 3,75% í 4,75%, 1%
vextir voru settir á lánin með heimild til hækkunar í 3% og það sem var
líklega verst – hámarkstími verðtryggðra afborgana lána var afnuminn.
Lögin frá 1992 hafa gert það að verkum að margt ungt fólk sér ekki
fram á að ljúka við að greiða upp námslánin sín, jafnvel þótt það nái
hárri elli. Það má því gera ráð fyrir að um og upp úr 2045 muni fjöldi
fólks nýta stóran hluta af lífeyrisgreiðslum sínum til að greiða
afborganir af námslánum! Jafnvel Bretum og Bandaríkjamönnum hefur ekki
dottið í hug að koma á svona sjúku námslánkerfi og takmarka afborganir
námslána við tíu til þrjátíu ár. Um óhagstæðan samanburð íslenska
kerfisins við það norska má svo lesa í nýlegum pistli eftir Gunnar Smára Egilsson.
Ofan á verri lánskjör hefur síðan bæst sú þróun að fjöldi fólks
greiðir orðið há gjöld fyrir háskólanám, samkeppni um vel launuð störf
að loknu námi hefur harðnað og ungu fólki reynist orðið erfiðara að
komast í uppgripastörf með námi. Allt þetta, auk gengishruns íslensku
krónunnar, verðbólgu og verðtryggingar, hefur gert það að verkum að
námslánsskuldir hækkuðu úr 103 milljörðum króna árið 2009 í 213
milljarða árið 2013. Fram hefur komið að rúm 34% félagsmanna BHM skulda 5
milljónir eða meira í námslán og að dæmigerður háskólamenntaður
launþegi eyði tæpum mánaðarlaunum í endurgreiðslu námslána á hverju ári.
Nýverið var greint frá því
að munur á ráðstöfunartekjum þeirra sem eingöngu hafa lokið
grunnskólaprófi og þeirra sem lokið hafa háskólaprófi sé minnstur á
Íslandi af öllum Evrópulöndum. Sé síðan tekið tillit til afborgana
námslána má væntanlega gera ráð fyrir að kaupmáttur háskólafólks sé
jafnvel lægri en annarra hópa í samfélaginu.
Sjálfur skuldaði ég Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) 3 milljónir
að loknu framhaldsnámi við erlendan háskóla. Á sjö árum hef ég greitt
1,8 milljón af láninu en skulda nú þrátt fyrir það 2,5 milljónir. Gróft
reiknað mun ég því á endanum greiða 11 milljónir króna fyrir 3 milljóna
króna lán og það gæti tekið mig 42 ár að greiða lánið niður. Ég kvarta
ekki, en það fer samt sem áður í taugarnar á mér þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lýsir ástandinu þannig
að önnur hver króna sem tekin sé að láni hjá LÍN sé í raun og veru
styrkur til lánþegans vegna þess hversu lánakjörin séu hagstæð. Maður
þarf að hafa mjög séríslenskt hagfræðilegt sjónarhorn á tilveruna til að
komast að þessari niðurstöðu.
Vissulega er rekstur LÍN nokkuð vandasamur. Í fyrsta lagi fær
ákveðinn hópur lánþega undanþágur frá afborgunum námslána vegna skertrar
greiðslugetu og örorku, eða um 10% lánþega. Líklegt er að 90% fjölgun öryrkja frá árinu 1999 til 2015
hafi haft neikvæð áhrif á afkomu sjóðsins. Í öðru lagi fer þeim
fjölgandi sem ná aldrei að greiða upp námslán, annars vegar vegna lágra
launa hér á landi og hins vegar vegna þess að lánsupphæðir fara hækkandi
vegna hárra skólagjalda, ónýtrar krónu og aukinnar kröfu atvinnulífsins
um meistaranám. Og í þriðja lagi má nefna aukið álag á fjárhag sjóðsins
eftir að miklum fjölda atvinnulausra var vísað í háskólanám í kjölfar
hrunsins. Allt þetta gerir rekstur sjóðsins erfiðan. En það er
óheiðarlegt að gera eins og fjármálaráðherra sem túlkar námslán sem
einhverskonar gjafagjörning til þeirra sem þó standa í fullum skilum við
sjóðinn.
Stór hluti íslenskra heimila hefur upplifað það á undanförnum árum að útgjöld vaxa umfram tekjur.
Ótímabundin verðtryggð námslán eru hluti af því vandamáli og sífellt
fleiri sjá fram á að þeim dugar ekki ævin til að greiða niður námslán.
Það hefur margskonar neikvæð áhrif. Í fyrsta lagi dregur það úr
kaupmætti í samfélaginu þegar nærri því heil mánaðarlaun
háskólamenntaðra renna á ári hverju í afborganir til þeirra sem
fjármagna LÍN. Þeim peningum yrði miklu betur varið t.d. í verslun og
þjónustu þar sem þeir myndu skapa aukinn kraft. Í öðru lagi elur
námslánakerfið á stéttaskiptingu þar sem þeir sem neyðast til að taka
námslán taka á sig aukna verðtryggða greiðslubyrði út ævina á meðan
hinir sem koma af efnameiri heimilum eru lausir við þessar byrðar. Og
þeir sem fá hæstu launin að námi loknu greiða lánin hraðast niður og
sleppa þar af leiðandi við miklar vaxtagreiðslur á meðan lægra launað
fólk situr uppi með gríðarlegar vaxtagreiðslur og dæmir sig jafnvel til
fátæktar á gamals aldri. Aukin misskipting dregur síðan þróttinn úr
hagkerfinu og slítur sundur þræðina sem hafa haldið okkur sæmilega
samstíga í gegnum tíðina.
Það var því laukrétt sem Halldóra Geirharðsdóttir sagði þegar hún tók
við Grímunni nýverið, samfélagið er að halla sér of mikið í þá átt að
fólk þurfi að eiga meiri og meiri pening til að börnin þeirra eigi
framtíð í þessu landi.