19. jún. 2015

Hátíðleg forræðishyggja

Þann 28. janúar 1972 steig söngkonan Carol Feraci á svið í fínni veislu í Hvíta húsinu og ávarpaði Nixon forseta áður en söngsveit hennar hóf upp raust sína: „Herra, forseti. Hættu að sprengja fólk, dýr og gróður. Þú ferð í kirkju á sunnudögum og biður til Jesú Krists. Ef hann væri hér í kvöld þá myndirðu ekki voga þér að varpa fleiri sprengjum. Guð blessi Berrigan bræður og Daniel Ellsberg.“ Carol Feraci ógnaði engum og flutti mál sitt á yfirvegaðan máta með borða í hönd með áletruninni „Stöðvið drápin“. Hún nýtti tækifærið sem hún fékk til að koma skilaboðum til forsetans og gaf þeim hundruðum þúsunda rödd sem féllu í loftárusum forsetans í Kambódíu.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa hjá kristnum íhaldsmönnum sem studdu hinn gjörspillta Nixon. „Það ætti að limlesta hana“, sagði eiginkona dómsmálaráðherrans, þess sem síðar var dæmdur til fangelsisvistar fyrir aðild sína að Watergate málinu. Og predikarinn Billy Graham, sá sem fordæmdi samkynhneigða, kvartaði undan dónaskap söngkonunnar.

Hér á landi nýtti hópur fólks tækifærið sem því gafst á Austurvelli þann 17. júní til að koma skilaboðum á framfæri við forsætisráðherra. Og hið kristilega íhald hóf upp sinn umvöndunartón. Mótmælin þóttu ósmekkleg, svívirða og hneykslanleg og talað var um fjandmenn þjóðarinnar. Í þeirra huga átti tilgerðin að trompa tjáningarfrelsið og hátíðleikinn stjórnarskrárbundin mannréttindi, rétt eins og í Hvíta húsinu 28. janúar 1972.

Við eigum öll okkar rétt sem gerir okkur kleift að gera réttmætar kröfur til annarra, t.d. eigum við rétt á friðsömu einkalífi og við eigum rétt á því að heimilið sé okkar griðarstaður. En við getum ekki ætlast til þess að á Austurvöll þann 17. júní milli kl. 11 og 12 komi bara fólk sem vill veifa fána eða sýna ríkinu hollustu sína. Forræðishyggja, jafnt hátíðleg sem hversdagsleg, er engum holl. Auðvitað hefðu mótmælendur á Austurvelli mátt þagna undir söng stúlknakórsins og ljóðaflutningi fjallkonunnar, en þeim reyndist víst erfitt að fylgjast með framvindu dagskrárinnar í afgirtu hátíðarrými ríkisins.

Þótt hér tali enginn um loftárásir nema forsætisráðherra sjálfur þá eru nægar ástæður til að nýta tækifærið sem fólk fær á 17. júní til að færa einangruðum forsætisráðherra skilaboð. Hér sniðganga ráðherrar þingið í mótun utanríksstefnu, eignum ríkisins er komið til vina og ættingja, ráðherrar neita að svara spurningum fjölmiðla, færa á ráðherrum aukið vald til að skipa dómara og einkavæða fjármálastofnanir, pólitískt skipað fólk í ráðuneytum er dæmt fyrir gagnaleka og innherjasvik, verkfallsrétturinn er tekinn af fjölda fólks, bankarnir okra á almenningi með verðtryggingu, bankabónusar eiga að hækka, mörgum langskólamenntuðum dugar ekki ævin til að greiða af námslánum, húsnæðisverð er í engu samræmi við tekjur fjölda fólks og iðnaðarhúsnæði er orðið húsaskjól margra, rannsókn á hugsanlegum lögbrotum við einkavæðingu bankanna er svæfð, einkavæðing skekur heilbrigðiskerfið, fjármálaráðherra segir það forgangsmál að lækka skatta á stóriðju og gjöld á útgerðina eru lækkuð á sama tíma og matarskattur er hækkaður, rannsóknarblaðamennska er stöðvuð með því að kaupa fjölmiðla sem hana stunda, tekjuhæstu 20% þjóðarinnar fá um 56% allra launa og 2% fjölskyldna í landinu eiga nær helming allra skuldlausra eigna.

Kæru mótmælendur, takk fyrir að minna okkur á mikilvægi tjáningarfrelsisins og gefa réttlætinu rödd. Og takk fyrir að láta vafasaman söguskilning og bjagaða samfélagssýn forsætisráðherra ekki yfirgnæfa lýðveldishátíð okkar allra.