Hún er kannski skiljanleg reiðin sem blossað hefur upp í garð
útgerðarmanna vegna óska þeirra um að Ísland taki ekki þátt í
viðskiptaþvingunum gegn Rússum. Stuðningsmenn viðskiptabannsins segja að
hér sé um prinsippmál að ræða og setja þurfi Rússum stólinn fyrir
dyrnar til að verja alþjóðalög og þjóðaröryggishagsmuni smáríkja.
Þetta eru vissulega sannfærandi rök og um margt skiljanleg. Engu að
síðu tel ég að forsendur þessa viðhorfs standist ekki skoðun og fyrir
því eru fimm ástæður.
Í fyrsta lagi hefur Alþingi Íslendinga nýverið gert
fríverslunarsamning við Kína, stórveldi sem hefur farið með vopnavaldi
gegn smáþjóðum og stendur í harðvítugum landhelgisdeilum við aðrar
þjóðir. Það er afar sérkennilegt að íslensk stjórnvöld bregðist við
útþenslustefnu Kína með fríverslunarsamningi en kjósi að setja
viðskiptabann á Rússland. Það er því fráleitt að láta eins og hér sem um
eitthvert prinsippmál að ræða af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Í öðru lagi eru aðgerðirnar gegn Rússum reknar áfram af
harðlínumönnum í Bandaríkjunum sem bera ábyrgð á hernaðaraðgerðum sem
hafa skaðað mjög gildi alþjóðalaga. Þingmaðurinn John McCain fer þar
fremstu í flokki, en hann grípur hvert tækifæri sem gefst til að hvetja
til aukinna hernaðaraðgerða Bandaríkjahers um allan heim og hvetur nú
Ísrael til að eyðileggja nýgerðan kjarnorkusamning við Íran með öllum
ráðum. Við höfum reynsluna af því að fylgja leiðsögn slíkra
stríðsæsingamanna og höfum t.d. lagt nafn okkar við herferðir sem
rústuðu Írak og síðar Líbíu með öllum þeim mannlegu hörmungum sem þeim
fylgdu, þar á meðal auknum flóttamannastraumi yfir Miðjarðarhafið. Sömu
haukar bera ábyrgð á fjölmörgum morðum á óbreyttum borgurum, t.d. í
yfirstandandi átökum í Jemen. Þessir traustu bandamenn íslenskra
stjórnvalda eru því mestu skaðvaldar þegar kemur að alþjóðalögum og
fullveldisrétti ríkja.
Í þriðja lagi vara margir við að núverandi ástand í samskiptum
Bandaríkjanna, ESB og Rússlands kunni að vera upphafið að öðru köldu
stríði. Fjölmargir stjórnskörungar og fræðimenn hvetja til aukinnar
hófstillingar í samskiptum ríkjanna og vilja að reynt verði að leysa
átökin eftir diplómatískum leiðum. Í þeim hópi eru m.a. Jimmy Carter,
Mikhail Gorbachev, Noam Chomsky, Henry Kissinger, Helmut Schmidt og
Hans-Dietrich Genscher. Líklega þarf enginn að efast um að þessir menn
þekkja söguna af Súdetahéruðunum 1938.
Í fjórða lagi fjölgar stöðugt viðvörunarljósunum í hagkerfi heimsins.
Opinberar skuldir eru við það að sliga fjölda ríkja, stór hagkerfi eins
og ESB, Kanada og Ástralía ramba á barmi kreppu og það hægir á hagvexti
í Kína og þarlendur hlutabréfamarkaður virðist vera kominn á
hættuslóðir. Við Rússlandi blasir nú enn ein efnahagskreppan þegar verð á
olíu hríðlækkar, rúblan virðist í frjálsu falli, þjóðarframleiðsla
dregst saman og verðbólga mælist 16%. Viðskiptastríð stórveldanna á
þessum tímapunkti kann því að hrinda heimsbyggðinni fram yfir
efnahagslegt hengiflug með öllum þeim hörmungum sem því fylgir.
Í fimmta lagi hefur Rússland þrátt fyrir allt mjög mikilvægu
hlutverki að gegna í alþjóðamálum, sér í lagi í Miðausturlöndum. Það er
ekki nema mánuður liðinn síðan Obama Bandaríkjaforseti þakkaði Pútín
sérstaklega fyrir að gegna mikilvægu hlutverki við að ljúka
kjarnorkusamningi við Íran. Og það var í mars á þessu ári sem
forsætisráðherra Ítalíu sagði í heimsókn til Rússlands að Rússar gætu
gegnt mikilvægu hlutverki í tilraunum alþjóðasamfélagsins til að leysa
úr hörmungunum sem NATO olli í Líbíú. Það er afar sérkennilegt að ætla
Rússum þetta mikilvæga hlutverk í alþjóðamálum en reyna á sama tíma að
einangra þá og valda þeim efnahagslegum erfiðleikum.
Það er af þessum ástæðum sem ég tel að alþjóðalög- og alþjóðaöryggi verði best varin með því að hætta viðskiptaþvingunum gegn Rússum.
En hver ætti stefna okkar í málefnum Úkraínu þá að vera? Í fyrsta
lagi eigum við að hvetja alla aðila máls til að virða Minsk-samninginn
frá því í febrúar. Í öðru lagi ættum við að tala fyrir efnahagslegum
björgunarpakka fyrir Úkraínu sem Alþjóðabankinn, ESB, Bandaríkin og
Rússland þurfa að standa sameiginlega að. Í þriðja lagi eigum við tala
fyrir því að NATÓ hætti að stækka til austurs að landamærum Rússlands.
Og í fjórða lagi eigum við að hvetja til þess að Rússar afhendi Úkraínu
Krímskaga með því skilyrði að þeir hafi þar áfram hernaðaraðstöðu, rétt
eins og Bandaríkjamenn á Kúbu.
Við getum síðan minnt Pútín reglulega á það að við fyrirlítum
einræðistilburði hans, t.d. ofsóknir gegn pólitískum andstæðingum og
samkynhneigðum. Það hefðum við t.d. getað gert með því að mæta ekki á
skrautsýningu hans á Ólympíuleikunum í Sochi í fyrra eða með því að taka
ekki þátt í forkeppni fyrir Heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í
Rússlandi 2018. Það væru skýr pólitísk skilaboð sem stuðluðu þó ekki að
óstöðugleika, kreppu og auknum öfgum – ólíkt núverandi stefnu íslenskra
stjórnvalda.