Á laugardag birti ég pistil um fríverslunarsamning Kína og Íslands sem bíður nú samþykktar Alþingis (Sjá hér). Í pistlinum nefndi ég m.a. að lögfræðingurinn Xu Zhiyong hefði verið handtekinn og ákærður, m.a. fyrir að vekja athygli á spillingu í kínverska stjórnkerfinu. Það gerðist svo í gær að Xu var dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar fyrir að skipuleggja sjö útifundi, annars vegar til að mótmæla spillingu embættismanna og hins vegar til að krefjast aukinna réttinda fyrir börn farandverkafólks. Samstarfsfólk Xu, þau Zhang Baocheng, Yuan Dong, Ding Jiaxi og Li Wei bíða dóms.
Eiginkona Xu eignaðist dóttur fyrir tveimur vikum. Tátan verður líklega orðin fjögurra ára þegar Xu fær fyrst að berja hana augum.
Sendiherra Kanada í Kína hefur mótmælt þessum dómi formlega. Í yfirlýsingu sagði hann: ,,Kanada harmar dóminn yfir Xu Zhiyong. Við álítum að honum sé refsað fyrir að nota rétt sinn til tjá sig opinberlega á friðsamlegan hátt. ... Kanada biður kínversk stjórnvöld um að hætta að áreita, handtaka og ákæra kínverska borgara með ólögmætum hætti." Í tilkynningu sendiherrans eru tekin dæmi af fólki sem hefur verið sett í einangrun án dóms og laga eða einfaldlega horfið eftir að hafa krafist aukinna réttinda kínverskra borgara. Bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu þar sem segir að þarlend stjórnvöld hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum með dóminn og kínverska kommúnistastjórnin er beðin um að láta Xu Zhiyong og aðra pólitíska fanga lausa án tafar.
En íslensk stjórnvöld þegja þunnu hljóði og Alþingi gerir sig líklegt til að setja rós í hnappagat kínverskra stjórnvalda með því að staðfesta fríverslunarsamninginn.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Samfylkingar í síðustu ríksstjórn, hefur verið einn helsti talsmaður fríverslunarsamningsins við Kína og hann undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd á liðnu ári. Hann sagði í viðtali við RÚV 13. apríl 2013, eftir harða gagnrýni ASÍ á samninginn: ,,Það er líka mat þeirra sem að eiga við Kínverja á ýmsum sviðum að það eigi að nota samskiptin til að þrýsta þeim áfram og benda þeim á réttar leiðir. ... Samskipti lýðræðisþjóðar eins og Íslendinga, ég tala nú ekki um með verkalýðshreyfingu og forkólf eins og Gylfa Arnbjörnsson okkur við hlið, þá að sjálfsögðu höfum við tækifæri til þess að þrýsta þeim áfram. Þannig þróast lýðræðið, þannig flytjum við út lýðræði og vörn fyrir mannréttindi."
Nú verð ég að viðurkenna að ég man ekki eftir dæmum um það frá utanríkisráðherratíð Össurar að mannréttindabrotum Kínverja hafi verið mótmælt formlega á þá vegu sem t.d. kanadísk stjórnvöld hafa gert. Og ég á líka erfitt með að finna fót fyrir þeirri fullyrðingu að fríverslunarsamningar við einræðisríki stuðli að auknum mannréttindum. Er það niðurstaða rannsókna? Það er helst að maður finni plögg frá nýfrjálshyggjuhugveitunni Cato Institute þar sem ýjað er að slíku orsakasamhengi. En eins og svissnesk mannréttindasamtök hafa bent á þá hafa mannréttindastofnanir Sameinuðu þjóðanna, fjöldi frjálsra félagasamtaka og sífellt fleiri fræðimenn varað við því að fríverslunarsamningar geti haft neikvæð áhrif á stöðu mannréttindamála, sér í lagi varðandi efnahagsleg og félagsleg réttindi.
Árið 1988 fjallaði Alþingi Íslendinga um aðgerðir vegna mannréttindabrota í Suður-Afríku. Þá var lagt til að viðskiptabanni yrði beitt, einhverjir lögðu til að stjórnmálasambandi yrði slitið - en ólíkt þeim sem nú sitja á þingi þá lagði enginn til að tekið yrði á mannréttindabrotum suðurafrískra stjórnvalda með því að bjóða þeim fríverslunarsamning. Jón Sigurðsson, þáverandi dómsmálaráðherra Alþýðuflokksins, studdi viðskiptabannið og sagði í umræðu á Alþingi: ,,Með þessari ákvörðun um viðskiptabann er Alþingi, ríkisstjórnin og öll íslenska þjóðin að fordæma það kynþáttamisrétti, frelsisskerðingu og mannréttindabrot sem ríkisstjórn Suður-Afríku ber ábyrgð á." Kjartan Jóhannsson, þingmaður Alþýðuflokksins og fyrrverandi formaður flokksins, sagði aðspurður í sömu umræðu um mögulega efnahagslegan skaða Íslendinga af banninu: ,,Ég ætla að vona að sá manndómur sé í Íslendingum og ég ætla að trúa því að þeir láti ekki afstöðu sína ráðast af krónum og aurum í málum af þessu tagi." Hún hefur eitthvað fölnað í tímans rás kratarósin sem nú ratar í hnappagat kínverskra kommúnista.