Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að flytja erindi á opnum fundi Samtaka um nýja stjórnarskrá (Sans). Þar lagði ég áherslu á mikilvægi þess að þjóðin átti sig á ríkidæmi sínu. Við erum heimsmeistarar í raforkuframleiðslu, framleiðum nú þegar tvöfalt meiri raforku per haus en næsta þjóð á eftir okkur. Ísland er í 12. sæti á lista yfir stærstu álframleiðsluþjóðir heimsins. Og samkvæmt nýútgefnum tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna þá erum við erum við næst mesta fiskveiðiþjóð Evrópu og vermum 18. sæti heimslistans.
Þetta ætti að gefa okkur einhverja hugmynd um það hvers konar ríkidæmi þessi 330.000 manna þjóð ætti að lifa við. Samt er stöðugt hamrað á fátækt þjóðarinnar í umræðunni, það er alið á ótta við skort kotsamfélagsins. Tilgangur þess er að halda okkur óupplýstum um raunverulegt ríkidæmi okkar. Því ef þjóðin vissi hvað hún er rík þá myndi hún heimta aukna hlutdeild í auðlindaarðinum.
En nú er auðlindaarðurinn t.d. látinn renna í erlend skattaskjól og óarðbærar framkvæmdir. Þannig greindi Kastljós frá því að íslensk skattalöggjöf er þannig úr garði gerð að alþjóðleg stórfyrirtæki þurfa ekki að greiða tekjuskatt á Íslandi frekar en þau vilja. Styrmir Gunnarsson vakti svo máls á því í bók sinni Umsátrið: Fall Íslands og endurreisn, að auðlindaarðurinn í sjávarútvegi hefur verið fluttur úr landi að einhverju leyti nánast skattlaus.
Ég orðaði það svo á fundinum að það væri eitt mikilvægasta verkefni umbótasinnaðra samtaka og hópa að upplýsa þjóðina um það hvað hún er í raun og veru rík og heimta svo réttmætan hlut af þeim arði sem auðlindin skilar. Að þessari baráttu þurfa líka fleiri að koma, sér í lagi stéttarfélögin. Þau hafa skýra stefnu á mörgum sviðum, t.d. varðandi ESB, en maður heyrir þau aldrei nefna óréttláta skiptingu auðlindaarðsins. Það verður að breytast.
Svo er það önnur spurning hvernig við útdeilum auðlindaarðinum meðal þjóðarinnar. Í ljósi þess litla trausts sem stjórnmálamenn njóta þá er kannski ekki ríkur vilji til að hleypa þeim að útdeilingu hans í gegnum ríkissjóð. Það væri því kannski líklegra til árangurs í þessari baráttu að krefjast auðlindasjóðs, líkum þeim sem brúkaður er í Alaska. Eins og Guðmundur Örn Jónsson verkfræðingur hefur bent á í greinum þá greiðir sjóðurinn árlegan arð til íbúa fylkisins. Á liðnu ári fékk hver þeirra andvirði 110.000 króna, en árið 2008 nam greiðslan 400.000 krónum.
Guðmundur Örn telur - líklega með réttu - að búast megi við mun víðtækari stuðningi við innheimtu auðlindaarðsins sé ætlunin að greiða hann beint út til landsmanna. Þannig mun þjóðin geta sameinast um að krefjast réttmætrar hlutdeildar af arði álveranna, orkufyrirtækjanna og útgerðarinnar. Ég varð var við það á fundi Samtaka um nýja stjórnarskrá að þessi hugmynd vakti mikinn áhuga meðal fundarmanna. Líklega er hún nauðsynleg til að hnika áfram baráttunni fyrir því að þjóðin fái réttmætan hlut af auðlindaarðinum.