Kannski er það aldurinn, en ég hef orðið áhyggjur af versnandi siðferði hér á landi. Það eru þó ekki unglingarnar sem hópuðust hundruðum saman í Smáralind til að hitta stjörnur af samfélagsmiðli sem valda mér áhyggjum. Og heldur ekki húmorinn í Hraðfréttum eða sú staðreynd að fleiri fóru á jólahlaðborð en í kirkju um liðin jól.
Nei, það er fólkið á Alþingi sem veldur mér áhyggjum. Nú eru þingmenn allra flokka nema Pírata komnir á fremsta hlunn með að samþykkja fríverslunarsamning við kínversku kommúnistastjórnina. Stjórn sem viðurkennir ekki mannréttindi og meinar launafólki að stofna frjáls stéttarfélög, líkt og ASÍ bendir á í umsögn um samninginn. Amnesty International vitnar í sinni umsögn um ýmis mannréttindabrot sem kínversk stjórnvöld stunda, t.d. saksókn á hendur þeim sem mæla fyrir umbótum í mannréttindamálum, ofsóknir gegn lögfræðingum þeirra, víðtækt net fangabúða þar sem hundruð þúsunda einstaklinga eru vistaðir án réttarhalda og sæta pyntingum og nauðungarvinnu, sakborninga sem eru teknir af lífi án sanngjarnrar málsmeðferðar og nauðungarflutninga fólks af heimilum sínum.
Hvaða skilaboð er Alþingi Íslendinga að senda hinum kúguðu og ofsóttu í Kína með því að samþykkja fríverslunarsamninginn? Hvaða skilaboð eru þingmenn t.d. að senda mannréttindalögfræðingnum Xu Zhiyong (sjá frétt BBC) sem sætir nú ákæru vegna baráttu sinnar gegn spillingu í stjórnkerfinu? Og hvaða skilaboð eru þingmenn að senda Nóbelsverðlaunahafanum Liu Xiaobo sem situr nú í fangelsi vegna baráttu sinnar fyrir pólitískum umbótum? Fríverslunarsamningur við Kínverja er virðingarvottur og vinahót - efnahagslegt faðmlag eins og Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, orðaði það í ræðu. Í því faðmlagi íslenskra og kínverskra stjórnmálamanna verður ekkert pláss fyrir þá Xu Zhiyong og Liu Xiaobo.
Í umræðu þingmanna um samninginn reyndu sumir þeirra að réttlæta stuðning sinn við hann með því að vísa til þess að samningurinn gæti stuðlað að umbótum í mannréttindamálum í Kína. Þá vaknar spurningin hvers vegna íslensk stjórnvöld sækjast þá ekki sérstaklega eftir því að gera fríverslunarsamninga við Pakistan og Norður-Kóreu. Og hvers vegna gerðu íslensk stjórnvöld þá ekki fríverslunarsamning við stjórn hvíta minnihlutans í Suður-Afríku á sínum tíma í stað þess að taka þátt í viðskiptabanninu sem síðan leiddi til pólitískra umbóta þar í landi?
Frjáls viðskipti milli frjálsra manna eru yfirleitt til framfara. En það sama á ekki við um viðskipti við ofbeldismenn og einræðisherra. Við eigum vissulega að halda uppi samskiptum við kínversk stjórnvöld, en við þurfum ekki faðma þau að okkur.
Kæri þingmaður. Myndirðu sækjast eftir því að vera í efnahagslegu faðmlagi við mann sem þú vissir að beitti eitt barna sinna ofbeldi? Líklega ekki. En hvers vegna viltu þá sækjast eftir því að standa í viðskiptasambandi við ríkisstjórn sem beitir stóran hluta þjóðar sinnar ofbeldi? Ofbeldi stundað af ríki hlýtur að brjóta alveg jafn mikið í bága við velsæmi þitt og heimilisofbeldi.