Ég sendi forstjóra Landsvirkjunar bréf í dag þar sem ég stakk upp á því að Landvernd og Landsvirkjun legðu sameiginlega fram tillögu um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirhugaða Norðlingaölduveitu samhliða sveitarstjóranrkosningum í vor. Því til stuðnings vísaði ég bæði til ummæla forstjórans um þjóðarvilja í virkjanamálum og til hvatningar forseta Íslands í nýársávarpi um að allir legðu sig fram við að leita sátta í samfélaginu í stað þess að kasta æ fleiri sprekum á ófriðarbálið.
En svona er bréfið í heild sinni:
Mér þótti vænt um að heyra nýleg ummæli þín um þjóðarvilja í virkjanamálum og möguleikann á að fjarlægja stíflur sem þjóðin telur hafa of mikil umhverfisáhrif.
Vísa ég þar annars vegar til ummæla þinna í fréttum Stöðvar 2 6. janúar síðastliðinn: ,,Það er líka mjög mikilvægt að þessi áhrif eru algjörlega afturkræf. Það er sem sagt ekkert því til fyrirstöðu eftir tíu eða tuttugu ár, ef að þjóðin vill á þeim tímapunkti fjarlægja stífluna, þá eru áhrifin algjörlega horfin." Hins vegar til ummæla í Morgunblaðinu 7. janúar: ,,Hörður segir það áhugavert við Norðlingaölduveitu að umhverfisáhrif hennar verði að fullu afturkræf. Það sé óvenjulegt við vatnsaflsvirkjanir. Nefnir hann að ef önnur kynslóð telji umhverfisáhrifin of mikil verði hægt að fjarlægja stífluna og þá renni áin eins og áður var."
Í ljósi þessarar afstöðu þinnar sting ég upp á að Landvernd og Landsvirkjun leggi sameiginlega fram tillögu um að þjóðin - núlifandi kynslóðir - fái að ákveða hvort Norðlingaölduveita verði reist. Það yrði gert með þjóðaratkvæðagreiðslu sem færi fram samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor. Í ljósi ummæla þinna um að þjóðin geti tekið ákvörðun um að fjarlægja fyrirhugaða Norðlingaölduveitu tíu til tuttugu árum eftir byggingu hennar þá sting ég einnig upp á að Landsvirkjun og Landvernd leggi til að í þjóðaraktvæðagreiðslu í vor yrði þjóðin einnig spurð hvort hún vilji fjarlægja Kvíslaveitu í Þjórsá, en hún var reist á árunum 1980-1997.
Ég legg því til að Landsvirkjun og Landvernd skrifi Alþingi sameiginlegt bréf þar sem lagt verður til að efnt verði til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu í vor. Það yrði lóð á vogarskál þeirrar sáttar og samstöðu sem forseti lýðveldisins fjallaði um í nýársávarpi sínu: ,,Nú er hins vegar nauðsynlegt, já reyndar brýnt, að hefja þá til vegs á ný, gera að leiðarljósi við lausn sem flestra mála, leita sátta og samstöðu í stað þess að kasta æ fleiri sprekum á ófriðarbálið."
Með von um jákvæð viðbrögð Landsvirkjunar og aukna sátt.
Guðmundur Hörður Guðmundsson
formaður Landverndar