,,Við viljum alls ekki að náttúruverndin komist að og við þurfum að standa vaktina. kv. gb."
Þetta er víst brot úr einu af símaskilaboðum núverandi utanríkisráðherra sem lekið hafa á netið. Skilaboðin sendi hann þingmönnum Framsóknarflokksins þegar hann var formaður þingflokks þeirra og skipulagði andstöðuna gegn ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna.
Og þingflokkurinn stóð vaktina og kom í veg fyrir að lög um náttúruvernd yrðu samþykkt nema að gildistöku þeirra yrði frestað um eitt ár, eða til 1. apríl 2014. Nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn hefur umhverfisráðherra Framsóknarflokksins lagt fram frumvarp um að nýju lögin taki ekki gildi.
Með því hefur ríkisstjórnin orðið við kröfum ýmissa sérhagsmunahópa sem lögðust gegn lögunum, þ.á.m. landeigenda. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að landeigendur loki vegum með því að merkja þá einkavegi. Einnig hefur þess orðið vart að girðingar nái allt niður að vötnum, t.d. við Þingvallavatn. Nýju náttúruverndarlögin hefðu takmarkað rétt landeigenda til slíkra verka og um leið styrkt í sessi aldagamlan rétt almennings til að ferðast um landið, svonefndan almannarétt.
Strax í 1. gr. laganna segir að markmið þeirra sé að tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar. Í 29. gr. laganna er svo fjallað um það hvernig almenningur getur leitað réttar síns telji hann landeigendur hindra för á ólögmætan hátt. Í slíkum tilfellum hefðu nýju lögin tryggt almenningi, útvistar- og náttúruverndarsamtökum rétt á að krefjast úrlausnar Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefði þá getað beitt þvingunarúrræðum til að knýja á um að ólögmætar hindranir yrðu fjarlægðar. Stofnunin hefði einnig getað gert landeiganda að setja stiga eða hlið á girðingu ef hún hindraði löglega för fólks, t.d. við vatns-, ár- eða sjávarbakka.
En nú ætlar ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að nýju náttúruverndarlögin taki gildi. Þar með hefur hún þessa mikilvægu réttarbót af almenningi og auðveldar landeigendum að hefta löglega för almennings um náttúru Íslands. Sérhagsmunir eru teknir fram yfir aldagamlan rétt almennings.