Sigurður Ingi, umhverfis- og sjávarútvegsráherra, á hrós skilið fyrir að bregðast rösklega við og heimila frjálsar síldveiðar í Kolgrafafirði til að bjarga verðmætum og forða enn einu umhverfisslysinu í firðinum.
Nú má ljóst vera að brúin yfir Kolgrafafjörð er dauðagildra. Hún er ódýr verkfræðilausn Vegagerðarinnar sem hefur reynst þjóðinni dýr. Í nýlegri skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra segir að aðgerðir á svæðinu hafi kostað 40 milljónir króna og tjónið vegna síldardauða liðins vetrar gæti verið um 2-3 milljarðar vegna minni afla úr íslenska sumargotsstofninum. Þá er talið að það kosti um 500 milljónir að loka firðinum alveg og enn dýrara yrði að opna þverunina betur til að bæta sjóræstingu og súrefnisbúskap. Hér er því um að ræða mikla hagsmuni fyrir þjóðarbúið.
Vegurinn yfir fjörðinn er 1.700 metra löng grjótvarin vegfylling en brúin sjálf er einungis 150 metrar. Vatnsskipti í firðinum fer því um op sem er tæplega einn tíundi af því sem var áður en brúin var tekin í gagnið árið 2004. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur fjallaði um veginn í bloggfærslu í janúar og vitnaði til skýrslu Vegagerðarinnar sem gefin var út árið 2012. Í henni er greint frá ófullkomnum vatnsskiptum fjarðarins, en munur á sjávarhæð á fjöru innin og utan þverunar er 9 cm. Þannig nær sjórinn í firðinum ekki að falla út áður en næsta flóð hefst.
Haraldur segir þetta geta haft margvísleg áhrif: ,,Þverun fjarða hefur óhjákvæmilega áhrif á eðliseiginleika sjávar, einkum sjávarföll, strauma, öldur, setflutning, súrefnismagn og seltu. Allir þessir þættir eru hluti af vistkerfinu í firðinum og þannig myndast samspil eðlisþátta sjávar og líffræðilegra þátta. Það eru því til gögn, sem sýna léleg vatnsskifti í Kolgrafafirði. Hafa léleg vatnsskifti orsakað lægra súrefnismagn í sjó innan fjarðarins? Er það skýring á síldardauðanum? Þetta er enn tilgáta, en allt virðist benda í þá átt." Í áðurnefndri skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra segir að margt bendi til þess að í mati á umhverfisáhrifum brúarinnar hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til strauma.
Nú fyrirhugar Vegagerðin að þvera fimm firði á verndarsvæði Breiðafjarðar. Í umhverfismati samgönguáætlunar 2011-2012 segir að þveranirnar kunni að hafa áhrif á strauma, ölduhæð og vatnsskipti í fjörðum, sem geti stuðlað að breytingum á lífríki á strandsvæðum og í sjó. Þar segir einnig að reynsla af þverun Gilsfjarðar sýni að erfiðara sé að sjá fyrir áhrif þverunar á eðlisræna þætti sjávar og afleidd áhrif þeirra á lífríki.
Umhverfisráðherra brást hárrétt við því hættuástandi sem skapaðist í Kolgrafafirði í gær. En nú verða hann og Alþingi að fylgja málinu eftir og sjá til þess að Vegagerðin hætti sjoppuverkfræði sinni við Breiðafjörð. Stofnunin þarf að vanda sig betur við hönnun þverana og leiðarval því að þjóðin og náttúran hafa ekki efni á fleiri umhverfisslysum af völdum Vegagerðarinnar.