21. október 2013 markar merkileg tímamót í náttúruverndarbaráttu hér á landi. Fjölmennt lögreglulið handtók þá hóp svonefndra Hraunavina að kröfu opinberrar stofnunar, en hópurinn hefur á undanförnum árum reynt með lögmætum leiðum að stöðva lagningu Álftanesvegar. Á sextán ára tímabili hafa verið sendar ótal umsagnir um málið, því vísað til úrskurðanefnda og að endingu til dómstóla. Þannig á almenningur að geta varið rétt sinn. Þannig virkar kerfið - eða svo er okkur sagt.
Lýðræðisleg samfélög virka ekki nema að reglurnar séu skýrar. Til dæmis á fólk að geta leitað réttar síns fyrir dómstólum ef það telur á sér brotið. Almenningur á að geta varist yfirgangi opinberra stofnana með lögmætum hætti. Til þess eru dómstólar - eða svo er okkur sagt.
Nú hafa Hraunavinir leitað til dómstóla til að fá úr því skorið hvort fyrirhuguð vegagerð um Gálgahraun sé lögleg. Sami hópur hefur á undanförnum vikum staðið vörð um hraunið til að koma í veg fyrir að Vegagerðin hefji óafturkræfar framkvæmdir áður en málið er útkljáð fyrir dómstólum. Enda eiga allir rétt á að fá úrlausn mála sinna fyrir dómstólum samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar - eða svo er okkur sagt.
Við þessar aðstæður krafðist Vegagerðin þess að friðsamleg varðstaða Hraunavina yrði stöðvuð með lögregluvaldi. Og hið furðulega gerðist að yfirstjórn lögreglunnar féllst á þá óréttmætu kröfu. Auk þess fékk vinnuflokkur Vegagerðarinnar lögregluvernd til að ryðja hraunið og eyðileggja þannig dómsmál Hraunavina. Þannig komu tvær opinberar stofnanir í veg fyrir réttláta málsmeðferð með því að eyðileggja þá hagsmuni sem um var teflt - með valdi. Þetta var skipulögð eyðilegging á dómsmáli. Misbeiting valds. Afnám borgararéttinda.
21. október 2013 verður lengi í minnum hafður. Þann dag vann ríkisvaldið réttarfarsleg- og stjórnsýsluleg níðingsverk í Gálgahrauni og beitti almenna borgara valdi fyrir það eitt að reyna að stöðva með friðsömum hætti ólögmætar framkvæmdir og verja stjórnarskrárvarinn rétt sinn. Atburðirnir í Gálgahrauni 21. október munu draga verulega úr virðingu margra fyrir ríkisvaldinu, en virðingin fyrir dugmiklu baráttufólki mun að sama skapi aukast.
(Sjá fleiri myndir úr Gálgahrauni 21. október 2013).