Eftirfarandi texta birti ég í bloggpistli 21. nóvember 2010 með titlinum Stjórnsýsla á amfetamínsterum:
,,Ég hitti mann nýverið sem vinnur í umhverfisverndargeiranum og hann sagði mér frá því þegar hann fór við annan mann á fund starfsmanns sveitarfélags til að mótmæla stórframkvæmd sem ráðast átti í innan marka sveitarfélagsins (hvorki álver né virkjun). Starfsmaðurinn benti honum þá á að fulltrúar sveitarfélagsins hefðu skoðað heimasíðu þess umhverfisverndarfélags sem hann væri í forsvari fyrir og þar væri meðal annars að finna styrktarlínur frá nokkrum fyrirtækjum. Gerði starfsmaður sveitarfélagsins þá viðmælanda mínum og félaga hans það ljóst að ef þeir hættu ekki andstöðu sinni við framkvæmdina þá yrði haft samband við fyrirtækin og þau hvött til að láta af fjárhagslegum stuðningi sínum við umhverfisverndarfélagið.."
Ég held að það sé óhætt að upplýsa núna að þarna var um að ræða fulltrúa Garðabæjar sem beitti þessum hótunum og umdeilda framkvæmdin var eyðilegging Urriðakotshrauns í Garðabæ vegna byggingar IKEA og fleiri verslana.
Svavar Knútur tónlistarmaður rifjaði nýverið upp samskipti sín við bæjarstjóra Garðabæjar frá því að hann var blaðamaður á Morgunblaðinu, en þá var verið að hefja þessa eyðileggingu á hrauninu við IKEA:
,,Ég man þegar jarðýturnar byrjuðu að ryðja þessu friðaða hrauni. ... Ég man þegar ég hringdi í bæjarstjóra Garðabæjar, n.b. þann sama og í dag og spurði hann af hverju verið væri að raska hrauninu svona mikið sérstaklega með því að hafa bílastæðin kringum IKEA á einni hæð í stað þess að hafa þau á fleiri hæðum svo þau tækju minna pláss. Hann vísaði mér á IKEA. Það væri þeirra krafa að hafa bílastæðin á einni hæð. IKEA vísaði mér á arkitektana, þeir hefðu teiknað bílastæði á einni hæð. Arkitektarnir vísuðu mér síðan aftur á bæjarstjórn Garðabæjar, sem hefði sagt þeim að teikna bílastæðin bara á einni hæð nóg væri landið, þetta væri hvort eð er bara verðlaust hraun. Þeir völdu orðin af aðeins meiri kostgæfni en ég, en meiningin var sú sama.
Ég man hvað mér fannst bæjarstjóri Garðabæjar ómerkilegur á þessu augnabliki og hvað ég þurfti að taka á honum stóra mínum til að skrifa yfirvegaðan og hlutlausan texta um þetta. Á endanum var hann ekki birtur, því einhverjum þótti ekki nógu gott að "styggja Garðabæ"."
Stjórnmálamenn og embættismenn þurfa að draga lærdóm af atburðunum í Gálgahrauni 21. október og vinnubrögðunum við eyðileggingu Urriðakotshrauns. Ljóst er að margir þeirra verða að endurskoða viðhorf sitt til valdsins. Það er t.d. ekki boðlegt að innanríkisráðherra tali um heilagt vald sveitarstjórnarmanna líkt og hún gerði í fréttum 11. september síðastliðinn. Og það er ekki boðlegt að forsvarsmenn bæjarfélags beiti hótunum og blekkingum til að ryðja gagnrýnisröddum úr vegi. Almenningur á betra skilið.