Spegill RÚV flutti áhugavert viðtal við framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar í liðinni viku þar sem hann fjallaði um það hvernig alþjóðafyrirtæki flytja hagnað af auðlindanýtingu undan skattgreiðslum í þróunarlöndum. Fjölþjóðafyrirtæki haldi þannig gríðarlegum fjárhæðum í skattaparadísum með vitund og vilja spilltra stjórnmálamanna í auðlindaríkum þróunarlöndum.
Þegar ég hlustaði á viðtalið rifjaðist upp fyrir mér umfjöllun Kastljóss frá því fyrr á þessu ári um aðferðir alþjóðlegra álfyrirtækja við að forða hagnaði undan skattgreiðslum hér á landi. Kastljós greindi frá því að íslenska ríkið tapaði milljörðum vegna þess að Alcoa og Norðurál kæmu sér að mestu hjá því að greiða tekjuskatt með aðstoð systurfyrirtækja á lágskattasvæðum. Bandarískur prófessor sem sérhæfir sig í skattamálum stórfyritækja sagði við Kastljós að íslensk skattalöggjöf væri þannig úr garði gerð að alþjóðleg stórfyrirtæki þyrftu ekki að greiða tekjuskatt á Íslandi frekar en þau vildu. Lögin veittu fyrirtækjunum t.d. mun ríkari heimild til þess að skuldsetja sig og þannig lækka skattstofna en víða annars staðar. Fyrir vikið greiddu íslensku álfélögin lítinn eða engan skatt.
Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði í tvígang bent íslenskum stjórnvöldum á að breyta þyrfti regluverkinu hér á landi, þ.e. skattafyrirkomulagi sem hvetji beinlínis til undankomu frá skatti með mikilli skuldsetningu. Í skýrslum árið 2009 og 2011 hvatti sjóðurinn til að sett yrðu lög sem takmörkuðu rétt fyrirtækja til að draga vaxtakostnað frá skattstofni, svokallaðar reglur um þunna eiginfjármögnun. Yfirskuldsetning með lánum frá lágskattasvæðum eins og heimil er hér væri óhugsandi í mörgum löndum, t.d. Kanada, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Fram kom í viðtali Kastljóss við Jennýju Stefaníu Jensdóttur viðskiptafræðing að sum lönd hefðu sett reglur um þunna fjármögnun til að stemma stigu við skattatilfærslum til landa með lægri skattprósentu. Reglurnar settu skýr mörk um það hversu mikið fyrirtæki megi skuldsetja sig á móti eigin fé og eiga þannig að hvetja til þess að fyrirtæki séu fjármögnuð með eigin fé í stað skulda. Sem dæmi er hlutfallið 3 á móti 1 í Kanada, Þýskalandi, Spáni og Hollandi. Í Frakklandi er það 1 og hálfur á móti 1 og í Danmörku er það 4 á móti 1. Í tilfelli Norðuráls er hlutfallið 43 á móti 1! Jenný sagði íslensk stjórnvöld hafa sofið illilega á verðinum um langt árabil því hér væri ekkert regluverk sem takmarkaði möguleika alþjóðlegra stórfyrirtækja til að koma sér hjá skattgreiðslum með skuldsetningu við systurfélög í skattaskjólum.
Í maí á þessu ári skilaði svonefnd fjárfestingarvakt atvinnuvegaráðherra tillögum um úrbætur á reglum um erlenda fjárfestingu. Lagði hópurinn m.a. til að sett yrðu lög um þunna eiginfjármögnun og milliverðlagningu til að skýra betur skattskyldu erlendra fyrirtækja hér á landi og til að tryggja að væntar tekjur þjóðarbúsins af þeim skiluðu sér. Taldi hópurinn að slíkar reglur myndu annars vegar tryggja tekjur af erlendum fjárfestingum sem fengið hefðu ívilnanir og hins vegar draga úr tortryggni almennings gagnvart erlendum fjárfestingum. Svipaðar tillögur lögðu Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins fram árið 2010 auk þess sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði slíkar tillögur fram 2009 og 2011 eins og áður greinir frá.
Nú kynni einhver að hugsa að þarna væri komin kjörin leið fyrir stjórnvöld til að ná í skattfé, t.d. til að laga heilbrigðiskerfið. En ekkert hefur heyrst af slíku frá ríkisstjórninni. Það flækir auk þess málin að í gildi eru sérlög sem gera það að verkum að breytingar á skattalögum myndu ekki ná til allra álfélaganna. Iðnaðarráðherra undirritaði samning við Alcoa þess efnis fyrir hönd ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2003. Samskonar ákvæði undirrituðu iðnaðarráðherrar í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og Vinstri-grænna við Norðurál á Grundartanga árið 2008 og Norðurál í Helguvík árið 2009.
Mér varð hugsað til þess þegar ég hlustaði á forstjóra Þróunarsamvinnustofnunar í Speglinum að á sviði stjórnmálamenningar er líklega styttra á milli Íslands og margra þróunarríkja en flesta grunar eða aðrir þora að viðurkenna.