Því miður hef ég ekki gefið mér tíma til að blogga undanfarið. Lauk prófum á fimmtudag, líklega síðasta prófinu á langri og krókóttri skólagöngu. Núna á ég bara eftir að skrifa ritgerð í umhverfislögfræði og ljúka við tillögu að lokaritgerð. Í lögfræðiritgerðinni á ég að svara spurningunni: How far do the 1995 UN Fish Stocks Agreement and the 1982 UN Convention on the Law of the Sea constitute a comprehensive legal regime for controlling conservation and sustainable use of marine biological diversity? Það vill svo skemmtilega til að svarið við þessari spurningu er það sama og svarið við spurningunni um tilgang lífsins og ef einhver kann svarið þá er hann vinsamlegast beðinn um að hafa samband.
Mér tókst að tryggja mér miða á fyrirlestur hjá James Lovelock á föstudag. Það var uppselt en þá færðu þeir hann í stærra hús eins og rokkstjarna væri á ferð. Ég keypti mér nýju bókina hans um daginn, The revenge of Gaia og það er meiri heimsendaspáin. Engu að síður áhugaverðar pælingar eins og þessi: Our response so far is just like that before the Second World War, an attempt to appease. The Kyoto agreement was uncannily like that of Munich, with politicians out to show that they do respond but in reality playing for time. Þannig að þetta verður ekki mjög fjörugur föstudagur en engu að síður skyldumæting því að karlinn er heimsfrægur fyrir Gaia kenninguna.
Í gær brá ég mér niður í búð og keypti mér svínapylsur frá búgarði Kalla prins. Skóflaði þeim í mig með beikoni og tilheyrandi eftir að hafa aðstoðað við að setja niður kartöflur hérna í garðinum við Liberton House. Ég hef verið að reyna að finna aðdáendaklúbb Kalla prins á netinu en án árangurs. Kannski að ég stofni bara minn eigin klúbb. Keypti mér líka tímaritið Time þar sem forsíðufréttin er um loftslagshlýnun og fyrirsögnin er: Be worried. Be very worried. Fyrir skömmu fjallaði forsíðufrétt The Economist líka um loftslagshlýn og fyrirsögnin var: Don´t despair. Grounds for hope on global warming. Þegar þessi tvö blöð eru farin að fjalla um loftslagshlýnun og fullyrða að hún sé af manna völdum þá held ég að deilunni um það hvort að mannkynið sé að valda núverandi hlýnun sé lokið.