Samkvæmt nýjustu fréttum er aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu að slá öll met um þessar mundir. Styrkur hans er nún 381 ppm og hefur aldrei aukist jafn mikið og á síðasta ári. Við erum löngu búin að slá milljón ára gamalt met og líklega hefur ekki verið meiri koltvísýringur í andrúmsloftinu í 30 milljónir ára. Þetta hefur það í för með sér að hitastigið hækkar og til marks um það náði hafís á norðurskautinu ekki að endurnýjast eðlilega í vetur, annað árið í röð.
Í Independent í gær var fjallað um að breskir neytendur væru orðnir meðvitaðir um umhverfisáhrif fiskveiða og núna keyptu þeir í auknum mæli fisk sem væri vottaður af náttúruverndarsamtökum. Þar kemur meðal annars fram neytendur eigi að forðast að kaupa þorsk af Íslandsmiðum nema að hann sé veiddur á línu. Egill Helgason fjallaði um áhrif fiskveiða á náttúruna í nýlegum pistli og svo eru útgerðarfyrirtækin Tjaldur og Brim að láta smíða fjögur línuveiðiskip fyrir sig og stefna að því að draga úr vægi togveiða. Man ó man hvað umhverfisvernd er orðin áhrifamikil í íslensku atvinnulífi og allt eigum við það að þakka kaupmætti bresku millistéttarinnar sem vill borða fish and chips með góðri samvisku.