12. apr. 2006

Ég er ekki hlutdrægur, ég fyrirlít alla jafnt

Ég hef verið að sækja um störf að undanförnu og ef allt fer á besta veg þá þyrfti ég að velja á milli þess að flytja til Húsavíkur til að kenna sögu í framhaldsskólanum eða Nýju-Delí á Indlandi til að vinna sem upplýsingafulltrúi hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. En ég fékk ekki starf upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur. Í það valdist Eiríkur nokkur Hjálmarsson, aðstoðarmaður Steinunnar Valdísar borgarstjóra. Tilviljun? Efast ekki um að þar fari vel hæfur maður en það er engu að síður pólitísk fjósalykt af þessu. Það var ekki að ástæðulausu sem Jónas Kristjánsson ritstjóri DV skrifaði: ,,Ég er ekki hlutdrægur í pólitík, ég fyrirlít alla jafnt".
Heimurinn virðist vera alveg jafn lítill hér í Skotlandi og heima á Íslandi. Komst að því þegar ég fór fyrir RÚV á slóð fuglaflensunnar í Cellardyke um helgina. Þar kynnti ég mig fyrir þorpsbúa sem ég mætti á förnum vegi og það fyrsta sem hún sagði var: "Do you know Icelander in Edinburgh called Limma?" Að sjálfsögðu þekki ég Limmu, ég leigi af henni íbúð í Liberton House!