17. apr. 2006

3,1 jörð, 3 gráður og ráðagóðir Frakkar


Í gær fögnuðu Bretar fæðingu frelsarans og kláruðu eigin náttúruauðlindir. Já gærdagurinn markaði víst þau tímamót á árinu þegar Bretar hætta að vera sjálfum sér nógir og byrja að lifa á innfluttum neysluvörum. Samkvæmt þessu þyrfti mannkynið 3,1 jörð ef allir jarðarbúar væru jafn neysluglaðir og Bretar. Ég tók þátt í þessari neyslugleði í gær og fór í bókabúð og keypti mér bók og geisladisk. Þaðan lá leið mín í neyslumusterið Starbucks þar sem afgreiðslufólkið gekk um með kanínueyru. Ég ekki kristinn maður en ansi fannst mér þetta úrkynjað. Mér finnst fátt betra en þegar grín er gert að frelsurum og spámönnum en ég skil ekki hvers vegna það þarf að breyta trúarhátíðum í teiknimyndahátíðir. Sé bara ekki þörfina fyrir það.
Fyrirlesturinn hjá James Lovelock um daginn var góður. Ég skrifaði um Lovelock um daginn og kallaði hann heimsendaspámann en hann þvertók fyrir það í annars ágætri hugvekju. Hins vegar sagði hann að mannkynið væri orðið ansi seint til að bregðast við hlýnun loftslags og því mætti engan tíma missa. Svipaðar aðvaranir hljómuðu síðan í fréttunum hér í Skotlandi nokkrum dögum síðar þegar prófessor sir David King, yfiryfirvísindamaður þeirra Breta, sagði að allt benti til þess að jörðin myndi hlýna um 3 gráður á þessari öld ef mannkynið héldi áfram á sömu braut. Þetta byggði hann á nýjustu rannsóknum Hadley stofnunarinnar, sem er miðstöð loftslagsrannsókna í Bretlandi. Fyrir skemmtilega tilviljun þá skrifaði ég ritgerð í vetur um hugsanleg áhrif loftslagshlýnunar á þorskstofninn við Ísland og rakst þar á skýrslu sem sagði að ef hitastigið hækkaði einmitt um 3 gráður þá mætti búast við því að þorskstofninn færði sig langt norður á bóginn, líklega út úr landhelginni. Prófessor sir bætti við að stjórnvöld mættu engan tíma missa og nú þyrfti almenningur aldeilis að taka sig á til að snúa þróuninni við. Kannski mætti byrja á því að grípa til sömu aðgerða og Frakkar gerðu í olíukreppunni eftir 1973. Ég las í bókinni The Prize að þeir hefðu sent eftirlitsmenn í stofnanir og fyrirtæki til að kanna hvort hitastigið væri ekki örugglega þessar 20 gráður sem reglur gerður ráð fyrir. Ef að hitinn fór yfir það þá mátti húsráðandi eiga von á hárri sekt. Þeir bönnuðu líka auglýsingar sem hvöttu til aukinnar orkunotkunar. Mæli annars með The Prize fyrir áhugafólk um orkumál og sögu.