7. maí 2020

Bankar eiga að vera bankar Sjálfstæðisflokksins

Mikilvægi bankakerfisins í samfélagsgerðinni verður aldrei ofmetið en um það liggur leiðin að völdum í viðskiptalífi og stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líklega gengið lengst íslenskra stjórnmálaflokka í að viðhalda áhrifum sínum innan bankakerfisins í gegnum tíðina. Til marks um það má nefna nokkur af stærstu gjaldþrotamálum Íslandssögunnar þar sem fulltrúar flokksins sátu allt í kringum borðið, t.d. einkavæðingu bankanna og bankahrunið í upphafi aldarinnar, Hafskipsmálið og gjaldþrot Útvegsbanka á níunda áratug síðustu aldar og jafnframt Kveldúlfsmálið á fjórða áratugnum. Þessi eitraða blanda stjórnmála- og bankakerfis hefur skapað kerfi spillingar, fjárhagslegs óhófs og efnahagslegra hamfara. Almenningur stendur á hliðarlínunni og horfir á kerfið rísa og falla á um það bil tíu ára fresti með verðbólguskotum, gengisfalli og miklum verðhækkunum á nauðsynjavörum og húsnæðislánum. Hinir, þessir sem hafa beinan aðgang að valdafólki innan bankakerfisins, geta hins vegar nýtt sér efnhagshamfarirnar með gjaldeyrisviðskiptum, erlendum skattaskjólum, skuldlausum eignum, uppboðum á eignum gjaldþrota launafólks og nú síðast fjárfestingaleið Seðlabankans.

Í dag fer Sjálfstæðisflokkurinn með mikil völd í bankakerfinu í gegnum Bankasýslu ríkisins þar sem flokkurinn heldur um stjórnvölinn með tvo af þremur stjórnarmönnum, annars vegar pólitískan trúnaðarmann formanns flokksins og hins vegar fyrrverandi þingmann hans. Það þarf því engan að undra að fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins hafi verið treyst fyrir formennsku í bankaráði Íslandsbanka fyrir hönd Bankasýslunnar til margra ára. Þessi völd hafa reynst flokknum svo mikilvæg að hætt hefur verið við að leggja Bankasýsluna niður eins og lög gerðu ráð fyrir. Sjálfstæðismenn hafa líka verið fyrirferðarmiklir við stjórnvölinn í Arionbanka, eina stóra viðskiptabankanum sem ekki er í opinberri eigu. Reyndar fær almenningur ekki að vita hverjir stærstu eigendur bankans eru á sama tíma og smæstu félagasamtökum og húsfélögum hefur verið gert að upplýsa stjórnvöld um „raunverulegt eignarhald“. Stjórnarformaður Arionbanka hefur verið áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum til áratuga og var í hinum alræmda Eimreiðarhópi, m.a. með áðurnefndum fyrrverandi varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Annar stjórnarmaður hefur verið fulltrúi flokksins í stjórn RÚV og landskjörstjórn. Bankastjóri Arionbanka er fyrrverandi aðstoðarmaður formanns flokksins í fjármálaráðuneytinu og aðstoðarbankastjórinn er bróðir varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Um tengsl smærri banka við flokkinn hefur líka talsvert verið fjallað, t.d. hinn alræmda og nú gjaldþrota Gamma. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki bara stjórnmálaflokkur, hann er miklu heldur einn armur valdabandalags frekar fámenns hóps fólks innan bankakerfis og viðskiptalífs.

Það er því ekki að ástæðulausu sem Sjálfstæðisflokkurinn hafnar öllum tillögum um að nýta tækifærið með opinberu eignarhaldi á Landsbankanum til að stofna samfélagsbanka. Flokkurinn sér aðeins tvo kosti í stöðunni svo hann haldi áfram um alla þræði bankakerfisins, óbreytt ástand eða einkavæðingu. Framtíðarsýn meirihluta almennings er hins vegar önnur og betri ef marka má skoðanakönnun sem Gallup gerði nýverið fyrir Öldu, félag um sjálfbærni og lýðræði. Samkvæmt henni eru einungis 19% aðspurðra hlynnt einkavæðingu bankanna en 62% andvíg og 65% telja að ákveða eigi framtíð bankakerfisins með lýðræðislegum hætti, t.d. borgaraþingi. Þá reyndust 58% hlynnt því að Landsbankanum verði breytt í samfélagsbanka en einungis 15% voru því andvíg. Þessu hljóta ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna að taka fagnandi, en flokkarnir hafa talað fyrir samfélagsbanka og samþykkt ályktanir slíkum bankarekstri til stuðnings. Í stefnuskrá Vinstri-grænna segir t.d. að gera eigi „nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum“. Og formaður flokksins hefur farið fögrum orðum um samfélagsbanka í þingsal: „Ég hef opinberlega lýst yfir miklum áhuga á að við ræðum þessi mál hér í þinginu. Það er að segja að sá banki sem er í eigu hins opinbera hann starfi samkvæmt öðrum lögmálum en við sjáum almennt í bankastarfsemi og auðvitað er slík starfsemi vel þekkt. Ég vil nú bara minna á það að Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs runnu til slíks samfélagsbanka fyrir nokkrum árum“. Flokksþing Framsóknarflokksins hefur ályktað á sömu nótum: „Framsóknarflokkurinn telur að annar ríkisbankanna eigi að vera áfram í eigu þjóðarinnar, með það að markmiði að þjóna samfélaginu sem best. Til að bregðast við fákeppni á bankamarkaði er nauðsynlegt að samfélagsbanki hafi þann tilgang að bjóða góða þjónustu á sem bestum kjörum. Þannig má efla samkeppni í bankaþjónustu á landsvísu.“ Og þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis hefur rætt þá hugmynd í þingsal að breyta öðrum ríkisbankanum í samfélagsbanka að þýskri fyrirmynd: „Sparisjóðirnir þýsku njóta trausts. Um 40% af umfangi fjármálakerfisins þar eru sparisjóðir. Þeir vinna fyrir nærumhverfið og hafa það á stefnuskrá sinni að sinna viðskiptum einstaklinga og fyrirtækja á samfélagslegum forsendum.“

Vinstri-græn og Framsóknarflokkurinn fengu nítján þingmenn í síðustu kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn sextán. Með þessum sextán þingmönnum, 25% atkvæða í kosningum, hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið að vera einráður í málefnum bankakerfisins. Stofnun samfélagsbanka hefur ekki þokast fram um eitt skref, enda hefur formaður Sjálfstæðisflokksins sagt algjörlega mótfallinn hugmyndinni og að „bankar eigi að vera bankar”. Hann hefði líka getað orðað þetta svona: Bankar Sjálfstæðisflokksins eiga að vera bankar Sjálfstæðisflokksins. Því miður virðast ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokks og Vinstri-grænna hafa gefist upp á sannfæringu sinni í þessu máli, jafnvel þótt hún njóti stuðnings meirihluta kjósenda og þingmanna. Sá rúmi meirihluti almennings sem treystir ekki bankakerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað og stjórnað mun því ekki fá að njóta hófstillts bankakerfis sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika. Sjálfstæðiflokkurinn leyfir það ekki.