13. jún. 2017

Offjárfest á kostnað almennings

Í gegnum tíðina hefur offjárfesting atvinnuveganna líklega átt stærstan þátt í að skapa óstöðuleika í íslenska hagkerfinu, mun stærri en launahækkanir almennings, þó að okkur sé talin trú um annað. Verðbólga, gengisfellingar, okurvextir og atvinnuleysi fylgdu yfirleitt í kjölfar mikilla offjárfestinga og pólitískrar úthlutunar fjármagns, t.d. í síldveiðum á 7. áratugnum og þorskveiðum áratuginn þar á eftir. Offjárfestingar í bankakerfinu og í íbúða- og atvinnuhúsnæði eru nýlegri dæmi frá þessari öld.

Öll þessi dæmi offjárfestinga eru til marks um óheilbrigt og spillt samband viðskipta og stjórnmála hér á landi, vanhæfa stjórnsýslu og veika stöðu fjölmiðla. Það er augljóst í umræðunni um yfirstandandi offjárfestingar í orkuflutningskerfinu og stóriðju. Nú rís hver verksmiðjan á fætur annarri án nægjanlegs undirbúnings og yfirsýnar. Tómir skálar álversins í Helguvík og illa starfhæfar bræðslur United Silicon í Helguvík og GMR á Grundartanga eru skýr dæmi um það.

Orkuveita Reykavíkur er annað dæmi um það sem á undan hefur gengið í offjárfestingum. Stjórnmálamenn með stóriðjudrauma hvöttu til offjárfestinga fyrirtækisins í jarðhitavirkjunum á Hellisheiði, líkt og greint er frá í skýrslu úttektarnefndar frá árinu 2012. Síðan þá hefur verið tekið á þeim vanda sem offjárfestingin skapaði með óhóflegum verðhækkunum á almenning. Almenningur hefur þurft að greiða offjárfestinguna með 48% hækkun á raforkuverði frá árinu 2011 og 68% hækkun flutningsgjalds.

Orkuveitan hefur greinilega dregið sinn lærdóm af þessu, enda varar hún nú alvarlega við offjárfestingum í raforkuflutningskerfinu. Þetta kemur fram í umsögn fyrirtækisins um Kerfisáætlun Landsnets 2016-2025. Þar segir m.a. að ekki sé nauðsynlegt að styrkja tengingu Suðvesturlands og Norðausturlands í náinni framtíð eins og Landsnet heldur fram og þannig megi spara tugmilljarða fjárfestingu í hálendislínu eða nýrri byggðalínu. Svo segir í umsögninni: „Orkuveita Reykjavíkur telur að Landsneti beri að sníða fjárfestingum sínum stakk eftir vexti flutningsþarfar og hafa það að leiðarljósi að framkvæmdir komandi ára valdi ekki hækkun á gjaldskrám.“

Í umsögn Orku náttúrunnar segir að Kerfisáætlun Landsnets valdi fyrirtækinu áhyggjum af mögulegri offjárfestingu í innviðum sem leiði til hækkandi raforkuverðs til almennings og fyrirtækja sem rýri samkeppnishæfni landsins til að laða að sér nýjan iðnað. Afhendingaröryggi rafmagns sé mjög gott hér á landi og Ísland talið með fimmta besta raforkuflutningskerfi í heimi samkvæmt alþjóðlegum samanburði. Því telur fyrirtækið ástæðulaust að grípa til rándýrrar styrkingar á flutningsnetinu til þess að auka raforkuöryggi sem nú þegar sé með því mesta sem þekkist. Auk þess hafi stjórnvöld ítrekað spáð meiri aukningu í notkun raforku en raunin hafi orðið. Þess vegna sé hætta á að til verði vítahringur samdráttar og hækkandi verðs, þ.e. að almenningur sitji uppi með kostnaðinn af uppbyggingu of afkastamikils raforkuflutningskerfis.

Í umsögn Norðuráls segir að íslenska raforkuflutningskerfið sé of dýrt í samanburði við Noreg, sem sé með sambærilegasta kerfið og í umsögn Ragnars Árnasonar hagfræðings segir að mat Landsnets á hagkvæmni sé afar takmarkað og langt frá því að geta talist fullnægjandi sem mat á þjóðhagslegri hagkvæmni. Því sé líklegt að tillögurnar „dragi dám af þeirri brengluðu ímynd um þjóðhagslega hagkvæmni sem þar kemur fram.“

Landsnet starfar enn anda úreltrar stóriðjustefnu. Fyrirtækið, sem orðið er alræmt fyrir blekkingar og yfirgang, virðist stefna að því að búa í haginn fyrir stóriðju í hverri sveit. Á slíkri offjárfestingu munu vel valin fyrirtæki, sérfræðingar og ráðgjafar græða. Það þarf t.d. að búa til áætlanir, reikna, hanna og sýsla með samninga og skuldabréf. Og stjórnmálamennirnir fá eitthvað fyrir sinn snúð og geta líka haldið því fram heima í kjördæmi að þeir hafi skapað atvinnu. En við hin sitjum uppi með síhækkandi rafmagnsreikninga og erum svo í þokkabót skömmuð fyrir að nefna nauðsynlegar launahækkanir. Við eigum að bera ábyrgð á efnahagslega stöðugleikanum á meðan feitu kettirnir mala suður á Tortola, tilbúnir að lepja rjóma næstu offjárfestingar.