Það er sorglegt að horfa upp á stöðuna í Neytendasamtökunum þar sem formaður og stjórn virðast í harðvítugum átökum. Sjálfur taldi ég að Ólafur Arnarson yrði góður formaður, enda vel að sér, skýr í framsetningu og fylginn sér. Og mér leiddist heldur ekki að fá til starfans harðan andstæðing verðtryggingarinnar. En nú er svo komið að það verður ekki unað lengur við óbreytt ástand og því hlýtur stjórn samtakanna að nýta heimild í lögum til að boða til aukaþings, svo félagsmenn geti fengið botn í þessa deilu og fullvissu um að samtökin séu starfhæf.
Í fyrsta lagi þarf að fá botn í það á slíku þingi hvort kosning formanns hafi verið lögleg, en fram hafa komið ásakanir um að Ólafur hafi fengið að skrá þingfulltrúa til leiks lengur en lög samtakanna gera ráð fyrir. Svo þarf formaðurinn að útskýra fyrir félagsmönnum hvers vegna hann greip til þess ráðs að greiða sjálfur félagsgjöld fyrir tugi nýrra félagsmanna til að þeir gætu kosið hann. Þó að það sé ekki ólöglegt þá er það óeðlilegt að haga sér með þeim hætti í félagsstarfi. Það dregur auðvitað úr trausti almennra félagsmanna til hans, enda á öflugur frambjóðandi ekki að þurfa að kaupa sér stuðning.
Í öðru lagi þarf að skýra frá því hver raunveruleg fjárhagsstaða samtakanna er, en fram hafa komið ásakanir um að henni hafi verið ógnað að undanförnu með fjárskuldbindingum sem ekki sé innistæða fyrir. Eins þarf að leggja fyrir aukaþing samtakanna skýra rekstraráætlun.
Í þriðja lagi þarf að fá á hreint hvort breyta þurfi lögum samtakanna til að reyna að koma í veg fyrir átök sem þessi. Fram hefur komið í máli stjórnarmanna að lögin séu barn síns tíma og þau þurfi að færa „inn í 21. öldina“. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð við þessi ummæli, enda sat ég í þeirri nefnd samtakanna sem lagði til lagabreytingar á þingi þeirra árið 2014. Þá var ljóst að brátt yrði kosið um nýjan formann og eftir ítarlega skoðun komumst við að þeirri niðurstöðu að samtökin höfðu hvorki fjárhagslega né skipulagslega burði til að efna til póst- eða rafrænna kosninga. Þess vegna var niðurstaðan sú að formaður yrði kosinn á þingi samtakanna, líkt og gengur og gerist í nær öllum félagasamtökum af þessari stærðargráðu. Mér hefði þótt mjög vænt um að geta lagt til rafrænar kosningar, en raunveruleikinn bauð því miður ekki upp á það. Auk þess reyndum við að koma í veg fyrir óeðlilega smölun með því að láta framboðsfrest renna út rúmum mánuði fyrir þing og með því að fara fram á að þingfulltrúar skráð sig til þátttöku með viku fyrirvara. Ég veit ekki hvaða aðrar leiðir eru færar til að koma í veg fyrir óeðlilega smölun, en sú mikilvæga umræða þarf að fara fram á aukaþingi.
Í fjórða lagi þarf að opinbera á aukaþingi samtakanna allar fundargerðir núverandi stjórnar og fundargerðir fyrrverandi stjórnar í aðdraganda þingsins 2016.
Og í fimmta lagi þarf að ræða það hvort flýta þurfi þingi samtakanna sem halda á í október 2018 svo tryggt sé að samtökin séu starfhæf og að fullu virk sem málsvari íslenskra neytenda.