26. nóv. 2010

Rio Tinto Alcan tekur 600 bíla úr umferð hér á landi

Rio Tinto Alcan tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði gert fjögurra ára samstarfssamning við Landbúnaðarháskóla Íslands um endurheimt votlendis. Markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að endurheimta um fimm ferkílómetra votlendis og stöðva þannig losun sem jafngildir losun 600 fólksbíla. Endurheimt votlendis hefur fleiri kosti í för með sér, stuðlar t.d. að auknum líffræðilegum fjölbreytileika, sér í lagi í fuglalífi.
Í þetta verkefni hendir Alcan 40 milljónum sem fara bæði í rannsóknir og sjálfa endurheimtina. Þannig tekur fyrirtækið frumkvæði á þessu sviði hér á landi. Hið opinbera hefur lengi talað um mikilvægi þessarar aðferðar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en því miður hafa aðgerðir ekki fylgt máli, ekki einu sinni í góðærinu.
Eflaust líta sumir á þetta framtak sem grænþvott Rio Tinto Alcan. En ég leyfi mér að gleðjast yfir framtakinu og því að peningunum sé varið til umhverfismála frekar en t.d. íþrótta eða annarra málaflokka sem hafa úr miklu meira fé að spila en umhverfisgeirinn. Vonandi fylgja fleiri "græn" verkefnið í kjölfarið hjá Alcan. Til dæmis gæti fyrirtækið sett nokkrar milljónir og vinnuafl starfsmanna sinna í að taka á utanvegaakstri í Reykjanesfólkvangi og lagfæra jarðvegsskemmdir sem óábyrgir ökumenn mótorhjóla, fjórhjóla og jeppa hafa valdið.