Bráðum verða liðin fjörutíu ár frá því að kvótakerfi var komið á í sjávarútvegi og þá mun það hafa verið við lýði hálfa lýðveldissöguna. Sjálfur er ég fáum árum eldri en kerfið og þess vegna hafa gallar þess verið til umræðu alveg frá því að ég fór að fylgjast með pólitískri umræðu.
Í fyrstu bar mest á umræðu um neikvæð áhrif þess á einstaka sveitarfélög eða landshluta, en í kjölfar hrunsins hefur umræðan í auknum mæli snúist um réttmætan hlut þjóðarinnar í auðlindaarðinum og þá yfirburðastöðu sem eigendur útgerðarfyrirtækja geta náð á öðrum sviðum viðskiptalífsins í krafti hans. Það er síðan á allra síðustu misserum sem okkur hefur orðið ljóst hvernig útgerðarfélögin skaða orðspor þjóðarinnar erlendis, allt sunnan frá Namibíu til Norðurlandanna, og hvernig fyrirtækin beita ógnarvaldi sínu til að kæfa gagnrýna umræðu og veikja opinbert eftirlit.
Þetta hefur gert það að verkum að einungis 14% aðspurðra segjast ánægð með núverandi útfærslu á kvótakerfinu og 64% telja að sjálfu lýðræðinu stafi ógn af því. Samt sem áður bendir ekkert til þess að kerfinu verði breytt, t.d. í kjölfar kosninga í haust. Ástæða þess er einföld, eins og Gylfi Magnússon prófessor fjallað ágætlega um í nýlegri grein - þröngir sérhagsmunir fárra skáka alltaf hagsmunum fjöldans vegna þess að þeir sem eiga ríkra sérhagsmuna að gæta berjast af miklu meiri hörku en dreifður hópur almennings, þar sem hver og einn hefur mun minni hagsmuna að gæta. Að auki má bæta við þessa greiningu Gylfa að hinn dreifði almenningur hefur ólíkar skoðanir á því hvernig laga skuli kerfið, t.d. hvort og þá hversu hratt eigi að taka kvóta af útgerðunum eða hvort taka eigi fullt eða eðlilegt gjald fyrir veiðiréttinn. Þess vegna hefur árangur af stjórnmálabaráttu umbótaflokka orðið lítill á þessu sviði í hartnær fjóra áratugi, nema ef vera skyldi veiðigjaldið sem vinstristjórninni 2009-2013 tókst að gera að tekjustofni fyrir ríkissjóð.
Vegna hinna dreifðu hagsmuna almennings og ólíkra krafna um umbætur mun vald og auður Samherja og þeirra líkra halda áfram að aukast á komandi árum, nema að almenningur komi sér saman um tillögur að breytingum á kerfinu. Lýðræðisfélagið Alda hefur lagt til aðferð að því marki og birt á lydraedisleidin.alda.is. Lýðræðisleiðin felur í sér tvö skref á næsta kjörtímabili, vönduð úttekt á kostum og göllum kerfisins yrði það fyrra en í kjölfarið fylgdi þátttökulýðræðisferli með slembivöldu borgaraþingi og þjóðaratkvæðagreiðslu. Í könnun sem MMR vann fyrir Öldu í sumar segjast 56% fylgjandi því að þessi leið sé farin en 25% eru því andvíg. Á borgaraþingum eins og hér um ræðir fá 50 til 150 fulltrúar bæði aðstöðu og tíma til að ræða flókin og erfið viðfangsefni og með slembivali er tryggt að þeir endurspegli samsetningu þjóðarinnar, t.d. út frá aldri, kyni og búsetu.
Hugmyndin um galla fulltrúalýðræðisins og þörfina fyrir aukið lýðræðislegt vald almennings er ekki ný af nálinni. Þannig skrifaði Páll Briem, þingmaður og mikill framfaramaður, undir lok 19. aldar að þingið væri ekki það sama og þjóðin og að þingvilji væri ekki þjóðarvilji: ,,Þjóðin á að ráða og þess vegna á að takmarka vald þingmanna, segi ég. … Það verður verkefni næstu aldar að búa til takmarkaðan parlamentarisma, eins og þessi öld hefur búið til takmarkað konungsveldi.“ Rúmri öld síðar skrifaði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á sömu nótum um að þjóðin væri ekki bara jafn vel í stakk búin til að taka ákvarðanir eins og kjörnir fulltrúar, hún væri þeim fremri: ,,Hún hefur það umfram hina kjörnu fulltrúa að sérhagsmunahópar eiga ekki jafn auðvelt með að ná til þjóðarinnar allrar eins og til einstakra þingmanna eða sveitarstjórnarmanna til að hafa áhrif á þá."
Í ljósi þess að Alþingi hefur gengið illa að svara kalli almennings um breytingar á kvótakerfinu þá hvet ég alla flokka sem nú eru í framboði til að gera tillögur Öldu um lýðræðisleiðina að sínum. Þannig verður hægt að taka hagsmuni fjöldans fram yfir þrönga sérhagsmuni útgerðarinnar.
(Pistillinn var fyrst birtur á Kjarnanum 2.9.2021)