21. mar. 2021

Meint ættleysi Eimreiðarhópsins



Gunnar Smári Egilsson skrifaði nýverið fróðlegan pistil sem var birtur á Miðjunni undir fyrirsögninni „Eimreiðarhópurinn var hópur hinna ættlausu innan flokksins“. Í pistlinum sagði að hópurinn hefði rofið tök gömlu valdaættanna á Sjálfstæðisflokknum og ættarsaga flokksins væri svona: „Fyrst kemur tímabil þar sem rótgrónar valda- og auðættir velja sína formenn, í 54 ár frá 1929-1983. Þá kemur að formönnum Eimreiðarhópsins sem eru lítið eða ekkert tengdir þessum ættum. Þeir eru formenn frá 1983-2009, í 26 ár. Og þá hrynur Ísland undan stefnu flokksins og flokkurinn með. Og valdamesta ætt flokksins, Engeyingar, komu þá sínum manni að, Bjarna Benediktssyni yngri.“ 

Áhrif Eimreiðarhópsins svonefnda á íslensk stjórnmál frá því um 1980 verða seint ofmetin, enda fóru nokkrir einstaklingar úr hópnum með óhóflega mikil völd í stjórnmálum, viðskiptum og dómskerfinu um langt skeið. Og rétt eins og að fyrsta lögmál varmafræðinnar segir okkur að orka verði ekki til úr engu þá getum við dæmt af reynslunni að samfélagsleg völd verða heldur aldrei til úr engu. Það verður þess vegna að teljast nokkuð ótrúverðugt að nokkrir einstaklingar, „ættlausir“ hugsjónamenn, geti náð algjörum tökum á valdamesta stjórnmálaflokki landsins og þar með gangverki samfélagsins eins og þarna gerðist. Enda er það ekki saga Eimreiðarhópsins, nema síður sé. 

Eimreiðarhópurinn er hópur manna sem eru fæddir í kringum 1950, skoðanabræður sem „krunkuðu sig saman“ þegar þeir voru í háskólanámi, eins og einn úr hópnum orðaði það í viðtali. Þeir urðu eftirtektarverðir boðberar frjálshyggju innan Sjálfstæðisflokksins þegar þeir tóku við útgáfu Eimreiðarinnar árið 1972. Þar var margt skrifað um gildi einstaklingshyggjunnar og ókosti sósíalismans og hafa sumir ályktað að Eimreiðarhópurinn hafi verið á réttum stað á réttum tíma þegar samfélög Vesturlanda gengu í gegnum hugmyndafræðilegt breytingaskeið nýfrjálshyggjunnar í kringum 1980. Hópurinn hafi þannig komist til valda og áhrifa með því að fylla upp í hugmyndafræðilegt tómarúm innan Sjálfstæðisflokksins. En það stenst varla skoðun, enda hefur hugmyndafræðileg umræða sjaldnast slík áhrif ein og sér. Það er þess vegna nauðsynlegt að gefa því nánari gaum hvaða einstaklingar skipuðu Eimreiðarhópinn og hvort og þá hvaða tengsl þeir höfðu við ráðandi valdahópa í samfélaginu, ekki síst innan Sjálfstæðisflokksins. Skulu hér nefndir fimm áhrifamenn í hópnum sem urðu síðar forstjórar, ráðherrar, ráðuneytisstjórar, Hæstaréttardómarar og stjórnarformenn stórfyrirtækja: 

  1. Tengdasonur þingmanns Sjálfstæðisflokksins 1946-1962 sem var náinn bandamaður Jóhanns Hafstein, formanns flokksins 1970-1973. Að þingferli loknum var hann gerður að bankastjóra flokksins í Útvegsbankanum 1963-1984, en Útvegsbankinn var ein af helstu valdastoðum Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma. 
  2. Sonur auðmanns sem var náinn bandamaður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1961-1970. 
  3. Tengdasonur framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stórveldis í viðskiptalífinu, sem sjálfur var sonur stórkaupmanns og trausts liðsmanns Sjálfstæðisflokksins eins og Jóhann Hafstein orðaði það í minningargrein. Tengdasonur dóttur bankastjóra Útvegsbankans 1932-1955.
  4. Barnabarn fyrsta formanns Félags íslenskra stórkaupmanna og fyrsta heiðursfélaga þess. 
  5. Sonur kaupmanns sem sat í stjórnum Verslunarráðs Íslands, Félags íslenskra iðnrekenda, Félags íslenskra stórkaupmanna og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Kvæntist barnabarni bæði ritstjóra Morgunblaðsins 1924-1963 og framkvæmdastjóra Kveldúlfs, fyrsta formanns Vinnuveitendasambandsins og bróður Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins 1934-1961. 
Eimreiðarhópurinn byggði þannig að stórum hluta á rótgrónum völdum innan Sjálfstæðisflokksins og gömlum auð, en að auki á gáfum, metnaði, harðdrægni og leiðtogahæfileikum „ættlausra“ manna innan hans. Hópurinn reyndist síðan á réttum stað á hárréttum tíma þegar gamli valdahópurinn í kringum Morgunblaðið, Eimskipafélagið, Skeljung, Sjóvá og Íslenska aðalverktaka, með Geir Hallgrímsson í forystu, var orðinn lúinn eftir áralanga valdabaráttu innan flokksins og þurfti á liðsauka að halda. Til þess verks gekk Eimreiðarhópurinn mjög vasklega og hafði fullan sigur. Þess vegna verð ég að gera athugasemd við söguskoðun Gunnars Smára Egilssonar, eins og ég skil hana. Stjórnartími Eimreiðarhópsins 1983-2009 markaði alls ekki rof í valdasögu ættarvelda innan Sjálfstæðisflokksins, því að jafnvel þó að formenn flokksins á þessum tíma hafi sjálfir verið „ættlausir“ þá var valdakerfið að baki þeim jafn tengt ættarveldum og áður.