Það skeikaði aðeins þremur dögum að Alþingi minntist tíu ára afmælis neyðarlaganna um bankakerfið með setningu neyðarlaga um stækkun laxeldis á Vestfjörðum. Um mikilvægi neyðarlaganna hina fyrri verður ekki deilt, en neyðarlögin hin síðari byggja á svo vafasömum grunni að þau hljóta að vekja alvarlegar spurningar um stjórnkerfið og viðhorf ráðherra til valds.
Sjálfskipað öngstræti
Í fyrsta lagi fullyrti sjávarútvegsráðherra í Kastljósi 8. október að úrskurður Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri mjög afdráttarlaus og því væri ekkert annað í stöðunni en að loka starfsemi fyrirtækisins. Þetta er sérkennileg ályktun, ekki síst í ljósi þess að úrskurðarnefndin sjálf bendir á það í sínum úrskurði, „með þá miklu hagsmuni í huga sem hér um ræðir“, að það væru færar leiðir til að komast hjá stöðvun á rekstri fiskeldisfyrirtækjanna þó svo að hún teldi sig sjálfa ekki hafa heimild til að fresta réttaráhrifum eigin úrskurða. Vísaði nefndin m.a. til heimildar umhverfisráðherra til að veita tímabundna undanþágu og heimilda sjávarútvegsráðherra til að koma í veg fyrir tafarlausa lokun starfsemi. Í máli sérfræðings Umhverfisstofnunar kom fram að fyrirtækin gætu einnig haldið áfram starfsemi á grundvelli eldra leyfis. Það vekur furðu að ráðherrarnir hafi ekki valið að fara þessar leiðir meðalhófs sem stjórnsýslan og úrskurðarvaldið sjálft bentu á, í stað þess að ryðja illa ígrunduðu frumvarpi í gegnum Alþingi á nokkrum klukkustundum. Í umræðu á Alþingi sagði sjávarútvegsráðherra þessa afstöðu sína byggjast á „spjalli okkar í ráðuneytinu við lögfróða aðila“. Hvergi kemur fram í ferli málsins hvaða lögfróðu aðilar þetta eru eða á hvaða forsendum þeir byggðu skoðun sína. Þó ákvað ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að byggja ákvörðun sína frekar á þessari nafnlausu véfrétt en rituðum og rökstuddum úrskurði nefndar sem er að meirihluta skipuð af Hæstarétti.
Formgalli eða forsendubrestur?
Í öðru lagi sagði sjávarútvegsráðherra í Kastljósi að úrskurðarnefndin hefði einungis krafist frekari gagna „og í þeirri stöðu, ef það er bara skortur á gögnum eða upplýsingum þá er þetta mjög ósanngjörn krafa af hálfu stjórnvalda að setja starfsemina algjörlega í þrot á stundinni.“ Eins og að ofan er greint þá hefði alls ekki þurft að loka starfseminni á stundinni, það var forsenda sem sjávarútvegsráðherra ákvað að gefa sér, þvert á úrskurðarorð nefndarinnar. Þá lýsir það mikilli vanþekkingu ráðherra á lögunum að túlka niðurstöðu nefndarinnar á þann hátt að einungis hafi verið um skort á gögnum að ræða. Þvert á móti segir í úrskurðinum að samanburður valkosta sé ein „helsta forsendan fyrir því að raunveruleg umhverfisáhrif hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar séu metin“. Hér var því ekki um smávælegan galla á ferlinu að ræða, heldur skort á „lykilþætti í mati á umhverfisáhrifum“. Fram kemur í úrskurðinum að Hæstiréttur hafi staðfest að þegar þessu ákvæði laganna er ekki fylgt leiði það til ógildingar umhverfismats. Kærendur höfðu auk þess bent á þennan alvarlega ágalla á umhverfismatinu á fyrri stigum málsins og því hefði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar ekki átt að koma neinum verulega á óvart. Að sjávarútvegsráðherra og forsætisráðherra reyni að túlka þetta sem einfaldan „skort á gögnum“ eða „formgalla“ bendir til þess að þeir hafi vísvitandi reynt að afvegaleiða umræðu um málið, bæði í fjölmiðlum og á Alþingi.
Ofmetnir hagsmunir
Í þriðja lagi virðist ekkert raunverulegt hagsmunamat hafa farið fram áður en gripið var til þess kosts að keyra lagafrumvarp í gegnum Alþingi á einum degi, án umsagna og ígrundaðrar umræðu. Sjávarútvegsráðherra sagði á Alþingi að hann hefði tekið fjárhagslega, umhverfislega og samfélagslega hagsmuni til skoðunar og um hafi verið að ræða aðgerð til að koma í veg fyrir „óafturkræfa og óþarfa sóun verðmæta“. Þó er hvergi að finna í frumvarpinu neinar upplýsingar eða greiningu á því hver þessi verðmæti eru sem kölluðu á neyðarlög. Formaður atvinnuveganefndar sparaði heldur ekki stóru orðin þegar hún fullyrti í umræðu á Alþingi að fiskeldisfyrirtækin, byggðin og fólkið gætu staðið frammi fyrir „óafturkræfum skaða“. Samt er ekki að sjá að þingmenn hafi fengið neinar upplýsingar, t.d. skýrslur eða minnisblöð, með upplýsingum um yfirvofandi tjón.
Rekstur fiskeldis á svæðinu hefur staðið síðan 2010 með leyfi til framleiðslu á 3.000 tonnum á ári og telja verður líklegt að fyrirtækin hefðu getað haldið áfram stærstum hluta starfsemi sinnar á forsendum síns gamla starfsleyfis, hefði verið raunverulegur vilji til þess hjá ráðherrum og stofnunum að fara leið meðalhófs, þar til endanleg niðurstaða fengist í málið fyrir dómstólum. Af yfirlýsingu Umhverfisstofnunar 10. október er heldur ekki að skilja að um mikið yfirvofandi tjón sé að ræða, en þar segir að seiði hafi „einungis verið sett út á einu eldissvæði og umfang því lítið enn sem komið er.“ Í umfjöllun Alþingis virðist því of mikið hafa verið gert úr hinum bráðu og óafturkræfu hagsmunum fiskeldisfyrirtækjanna og byggðarinnar.
Óábyrgar yfirlýsingar um skaðabótaskyldu
Í fjórða lagi hafa sjávarútvegsráðherra, aðrir ráðherrar og þingmenn fjallað um meinta skaðabótaskyldu ríkisins í þessu máli á mjög kæruleysislegan hátt. Þannig sagði sjávarútvegsráðherra í þingræðu að spyrja þyrfti hvað gerðist ef dómstóll kæmist að annarri niðurstöðu en úrskurðarnefndin, „í hvaða stöðu eru menn þá, búnir að loka sjoppunni eins og sagt er? Þá situr ríkið bara uppi með skaðabótaaábyrgðina af því.“ Formaður atvinnuveganefndar fullyrti síðan að ríkið gæti „orðið skaðabótaskylt svo háum fjárhæðum nemi ef við grípum ekki inn í.“ Fyrir þessum fullyrðingum voru þó ekki færð nein sérstök rök í umræðu um frumvarpið, hvað þá sérfræðiálit. Þvert á móti má álykta sem svo að lög um mat á umhverfisáhrifum girði fyrir það að framkvæmdaaðili geti sótt skaðabætur á nokkru stigi máls, enda er þar kveðið á um að framkvæmdaraðilinn beri sjálfur ábyrgð á umhverfismatinu. Það hefur að auki verið staðfest með dómi Hæstaréttar (575/2016). Fiskeldisfyrirtækin vissu vel að ferlinu væri ekki lokið með útgáfu starfsleyfisins í árslok 2017, enda virkjaðist þá fyrst kæruréttur í málinu sem var nýttur einungis þremur vikum síðar. Andstæðingar fiskeldisins höfðu auk þess bent fiskeldisfyrirtækjunum á það áður í ferli málsins að umhverfismatið væri haldið þeim ágalla sem úrskurðarnefndin staðfesti síðar. Það er afar óábyrgt af hálfu ráðherra og þingmanna, og ófyrirleitið gagnvart skattgreiðendum, að lýsa yfir skaðabótaskyldu ríkissjóð að svo lítt athuguðu máli.
Brot á alþjóðlegum skuldbindingum
Í fimmta lagi eru talsverðar líkur á að við setningu neyðarlaga um fiskeldi hafi alþjóðlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Árósasamningnum verið brotnar. Stjórn Landverndar telur t.d. að tvær stoðir samningsins hafi verið brotnar, en félagið hefur unnið fjölda kærumála á undanförnum árum þar sem tekist hefur verið á um rétt almennings samkvæmt samningnum. Þá kom fram í umræðu á Alþingi að sérfræðingur í Árósasamningnum hefði komið á fund atvinnuveganefndar þingsins og ekki treyst sér til að fullyrða að frumvarpið stæðist samninginn. Enda er í nýju lögunum sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að kæra bráðabirgðaleyfið, þ.e. að leyfi ráðherra sé endanlegt á stjórnsýslustigi. Þar með er brotið á skýlausum kærurétti almennings í umhverfismálum. Í Liechtenstein er til fordæmi fyrir slíkri ráðstöfun stjórnvalda og hefur EFTA-dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að ríkið hafi þá brotið gegn lögum um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun ESB þar að lútandi (E3/15).
Hræðsluáróður fyrirtækja og fjármálaráðherra
Í úrskurði nefndarinnar má finna forvitnilegar upplýsingar frá eigendum fiskeldisfyrirtækjanna um það hvaða brýnu hagsmunir voru undir í málinu. Þar segir á einum stað að þeir þurfi að halda fiskeldinu í „fullri“ framleiðslu, því „rekstrarstöðvun myndi umsvifalaust virkja gjaldfellingarheimildir banka og fjármálastofnana“. Forstjóri annars fiskeldisfyrirtækisins sá sérstaka ástæðu til að tilkynna atvinnuveganefnd þetta í bréfi til atvinnuveganefndar Alþingis 5. október, þ.e. að lántökuheimildir yrðu afturkallaðar vegna skilyrða í lánasamningum. Málið var þannig strax teiknað þannig upp að öll starfsemi fyrirtækjanna væri í húfi, en ekki bara stækkunaráformin. „Allt eða ekkert“ varð strax sú forsenda sem fiskeldisfyrirtækin gáfu sér í málinu, í stað þess að leita þeirra lausna sem úrskurðarnefndin lagði til eða halda áfram rekstri á forsendum eldra leyfis, eins og Umhverfisstofnun lagði til. Bankinn réði ferðinni, þrátt fyrir að augljóslega hafi verið vafasamt að byggja stóra fjármálagjörninga á leyfi sem var enn í hefðbundnu ferli umhverfismats. Þar virðast fiskeldisfyrirtækin viljandi hafa teflt á tæpasta vað, og Arion-banki, illa brenndur af gjaldþroti kísilvers í Helguvík, kannski sett fiskeldisfyrirtækjunum stranga skilmála í ljósi þess að leyfi til stækkunar var ekki í hendi.
Í þessari stöðu kom sér vel fyrir laxeldisfyrirtækin að einn af eigendum þeirra, sakborningur í svonefndu Skeljungsmáli, hefur verið trúnaðarvinur fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins um árabil og m.a. hýst pólitískt „stuðningsmannafélag“ hans. Enda greip fjármálaráðherra til þess óyfirvegaða og óvenjulega ráðs að tjá sig mjög afdráttarlaust um þetta flókna deilumál á facebook mjög skömmu eftir birtingu síðasta úrskurðarins, í máli sem var meira að segja á starfssviði annars ráðherra í ríkisstjórninni. Þannig lagðist fjármálaráðherra á árarnar með fiskeldisfyrirtækjunum við að hræða Vestfirðinga, fjölmiðla, embættisfólk og þingmenn til tafarlausra aðgerða. Einungis þremur dögum seinna hafði Alþingi samþykkt lög um málið á þeim fölsku forsendum að byggð á Vestfjörðum væri í bráðri hættu og verið væri að gæta meðalhófs. Líklega er þetta mál alvarlegasta misbeiting löggjafarvalds sem við höfum orðið vitni að, tja, allt síðan dómsmálaráðherra skipaði Landsrétt á ólögmætan hátt fyrir rúmu ári síðan. Það verður líklega einhver bið á því að Alþingi og ráðherrar endurheimti hið margumtalaða traust.