1. okt. 2018

Endurræsum Neytendasamtökin

Félagsmenn í Neytendasamtökunum standa frammi fyrir mjög mikilvægri ákvörðun á þingi samtakanna 27. október næstkomandi, þegar ný forysta þeirra verður valin. Samtökin hafa í gegnum tíðina unnið nokkra mikilvæga sigra fyrir neytendur, t.d. í baráttu við einokunarverslun með grænmeti og með málaferlum gegn fyrirtækjum í olíuverðsamráðsmálinu. Þá hafa samtökin veitt neytendum mikilvæga leiðsögn á flóknum neytendamarkaði og verðmæta aðstoð í ágreiningsmálum við seljendur vöru og þjónustu. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að Neytendasamtökin hafa staðnað málefnalega á undanförnum árum og hlutverk þeirra í samfélagsumræðunni virðist hafa farið minnkandi. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi hefur endurnýjun í forystu samtakanna verið of hæg. Fyrrverandi formaður þeirra sat í 32 ár og ég held að það megi fullyrða, með fullri virðingu fyrir honum og hans ágæta framlagi til neytendamála, að baráttuandinn hafi ekki verið sá sami í upphafi og undir lok ferilsins.

Í öðru lagi hafa Neytendasamtökin lagt of mikla áherslu á það undanfarin ár að sækja fé til ríkissjóðs og fyrirtækja, í stað þess að höfða til neytenda og sækja stuðning til þeirra. Samtök sem leggja mikla áherslu á að gera þjónustusamninga við ráðuneyti eru ekki líkleg til að leggja til atlögu við sömu ráðuneyti þegar verja þarf hagsmuni neytenda. Eins þiggja samtökin fé frá fyrirtækjum sem þau eiga að vera að vakta, t.d. með styrktarlínum banka, tryggingarfélaga, kortafyrirtækja og verslana í Neytendablaðinu, þ.á.m. frá fyrirtækjum sem hafa nýverið verið dæmd fyrir verðsamráð gegn neytendum. Með þessu gera samtökin sig fjárhagslega háð þeim sem þau eiga að vera að vakta og grafa þannig undan eigin trúverðugleika.

Í þriðja lagi hafa Neytendasamtökin of lengi verið þverpólitísk samtök þar sem gömlu stjórnmálaflokkarnir og stéttarfélögin hafa átt sína fulltrúa í stjórn. Þetta hefur gert það að verkum að málflutningur samtakanna hefur verið niðurstaða málamiðlana og tilþrifalítill í samræmi við það. Til marks um það urðu samtökin ekki leiðandi í hagsmunagæslu neytenda í kjölfar bankahrunsins og létu önnur samtök um þá baráttu, t.d. Hagsmunasamtök heimilanna. Félagsmenn í Neytendasamtökunum hafa aldrei verið fleiri en í efnahagslægðinni 1990 þegar mörg heimili lentu í fjárhagsvanda og samtökin kröfðu stjórnvöld um umbætur á lögum um greiðsluaðlögun, ábyrgðarmenn og innheimtustarfsemi. Þá voru félagsmenn samtakanna 21.000 en eru nú aðeins um 6.000.

Í fjórða lagi hafa samtökin lagt litla áherslu á sambandið við eigin félagsmenn. Til marks um það er illa uppfærð félagaskrá og fáir fundir. Þannig hefur forysta samtakanna t.d. synjað frambjóðendum til stjórnar um aðgang að félagaskrá í aðdraganda kosninga og samtökin halda þvi fram að þau hafi „ekki tök á“ að skipuleggja opna fundi með félagsmönnum og frambjóðendum. Í stað þess að hvetja til líflegrar umræðu innan samtakanna í aðdraganda þings þá hefur verið ákveðið að láta nokkur orð og mynd í Neytendablaðinu duga. Það er því yfirlýst ládeyða sem einkennir allt félagsstarf hjá samtökunum.

Það þarf því engan að undra að slagkraftur Neytendasamtakanna hafi farið minnkandi um langt árabil, á sama tíma og þörfin fyrir háværan málsvara neytenda hefur síst minnkað. Þing Neytendasamtakanna 27. október er því kærkomið tækifæri til að endurræsa samtökin með nýrri forystu. Sex frambjóðendur sækjast eftir formennsku og áherslur þeirra eru nokkuð ólíkar, sumir vilja halda áfram á svipaðri braut á meðan aðrir, ég þar á meðal, sækjast eftir umboði til að gera róttækar breytingar á áherslum og baráttuaðferðum. En fjöldi frambjóðenda skapar hættu á að atkvæði dreifist mikið og ný forysta fái ekki skýrt umboð. Það kann jafnvel að fara svo að „róttæklingarnir“ í hópi frambjóðenda dreifi atkvæðunum svo á milli sín að „íhaldssamari“ frambjóðandi nái kjöri með minnihluta atkvæða. Með tilliti til þess hef ég ákveðið að segja mig frá framboði til formanns Neytendasamtakanna, en um leið hvetja alla áhugasama til að skrá sig í samtökin og taka þátt í kosningum um framtíð þeirra. Veljum til forystu fólk sem er tilbúið til að rugga bátnum og beita samtökunum af krafti fyrir neytendur.