Harðasti dómurinn yfir óvinsælli ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og
Framsóknarflokks var kveðinn upp af Vilhjálmi Bjarnasyni, þingmanni
Sjálfstæðisflokksins, þegar hann gagnrýndi framgöngu ríkisstjórnarinnar í
málefnum ESB og sagði hana dæmi um siðrof. Siðrof er stórt orð.
Vísindavefurinn segir oftast talað um siðrof þegar siðferðileg viðmið
og almennt viðurkennd gildi í samfélaginu víkja fyrir siðleysi og
upplausn, en orðið þýði bókstaflega siðleysi eða lögleysa. Í dag mun Alþingi taka til umræðu og afgreiðslu tvö mál sem eru til marks um það siðrof sem einkennir orðið störf ríkisstjórnarinnar.
Þingfundur hefst á því að Alþingi tekur til umræðu frumvarp fjármálaráðherra sem færir honum aukin völd til að einkavæða fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins. Nú eru liðnir 916 dagar síðan Alþingi samþykkti að skipa nefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna
á tímabilinu 1998 til 2003 og átti nefndin m.a. að leggja fram tillögur
til úrbóta varðandi sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur komið í veg
fyrir að þessi rannsókn fari fram en ætlar þess í stað að fela formanni
Sjálfstæðisflokksins öll völd í næstu einkavæðingu. Rannsóknarnefndin
átti einnig að kanna hvort grunur léki á um refsiverða háttsemi við
einkavæðinguna og gera þá ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld
fjölluðu um slík mál. Frumvarp fjármálaráðherra sem ræða á í dag og það
hvernig meirihluti Alþingismanna virðist hylma yfir með mögulegum
afbrotum við einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka eru skýr dæmi um
siðrofið.
Annað mál á dagskrá Alþingis í dag er svo tillaga meirihluta
atvinnuveganefndar Alþingis um að fimm svæði verði færð í virkjanaflokk
rammaáætlunar. Þessu hefur verið harðlega mótmælt þar sem tillagan
stenst ekki lög. Alþingi er nefnilega óheimilt að færa virkjanahugmyndir
milli flokka rammaáætlunar án þess að þær hafi verið metnir af
svonefndum faghópum og það hefur ekki verið gert, að minnsta kosti hvað
varðar tvö af þessum fimm svæðum. Einungis er eitt ár þar til niðurstaða
faghópa liggur fyrir og þá á Alþingi að geta farið sínu fram. Þangað
til er tillaga Alþingis beinlínis andstæð lögum.
Bæði þessi mál eru til marks um virðingarleysi ríkisstjórnarinnar
fyrir siðum og reglum – til marks um siðrofið sem einkennir stjórnmál
ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hin margumrædda gjá
milli þings og þjóðar verður ekki brúuð á meðan svo mikið skilur á
milli hins almenns siðferðis og þess siðferðis sem ræður ríkjum í
stjórnarráðinu. Ríkisstjórnin hefur löngu tapað trausti þjóðarinnar, nú
virðist hún komin langleiðina með að tapa lögmæti sínu.