Frumvarp Ragnheiðar Elínar atvinnuvegaráðherra um náttúrupassa er líklega ein merkilegasta tilraun til pólitísks harakiris síðan Margrét Thatcher kom fram með sínar tillögur um nefskatt. Skatturinn sá reyndist upphafið að pólitískum endalokum Margrétar og mig grunar að það sama gæti átt við um Ragnheiði og náttúrupassann. Að minnsta kosti hefur stuðningur við frumvarpið minnkað mikið á skömmum tíma samkvæmt könnun MMR. Rúmlega 47% aðspurðra studdu frumvarpið í maí 2014 en einungis 31% reyndust þeirrar skoðunar sjö mánuðum síðar. Og félagsmenn Samtaka ferðaþjónustunnar telja náttúrupassa verstu tekjuöflunarleiðina sem völ er á.
Það er í raun merkilegt að ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli leggja í þessa vegferð, enda felur frumvarpið í sér skattahækkun, vöxt hins opinbera og atlögu að frelsi einstaklingsins.
Skattahækkunin er hluti af þróun sem almenningur þarf að mótmæla, þ.e. tilraun stjórnmálamanna til að sækja fé í vasa almennings með því að leggja sérstök gjöld á hitt og þetta sem áður var greitt með almennum sköttum. Dæmi um þetta er útvarpsgjaldið og aukin kostnaðarþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. Á Írlandi er nú gerð tilraun til að koma á nýju vatnsgjaldi. Náttúrupassinn er svo það nýjasta nýtt í þessari hættulegu þróun hér á landi.
Gjaldið sjálft er svo sem ekki hátt til að byrja með, eða 500 kr. á ári fyrir 18 ára og eldri. En eins og við vitum þá er það eðli opinberra gjalda að hækka. Þar að auki er gert ráð fyrir nokkuð hörðum viðurlögum eða 15.000 króna sekt. Þannig gæti það reynst dýrkeypt fyrir fjögurra manna fjölskyldu að gleyma að kaupa náttúrupassa áður en hún fer með tvo erlenda vini í bíltúr á Gullfoss. Reynist þessi fjölskylda svo óheppin að vera við Gullfoss á sama tíma og eftirlitsmenn ríkisins þá situr hópurinn uppi með 90.000 króna sekt.
Annar stór galli á frumvarpi atvinnuvegaráðherra er að þar er einnig gert ráð fyrir að landeigendur geti rukkað almenning um gjald fyrir að virða fyrir sér náttúruna. Þannig að ef áðurnefnd fjölskylda ákveður að fara gullna hringinn með gestina þá þarf hún að standa eftirlitsmönnum ríkisins skil á náttúrpassa við Þingvelli, greiða fólki í kraftgöllum aðgangseyri að Geysi, standa aftur skil á náttúrupassa við Gullfoss og greiða svo gjald í skúrnum við Kerið. Frumvarp atvinnuvegaráðherra mun því gera ferðalög um landið bæði flóknari og dýrari. Það er óhætt að taka undir það semGuðmundur Andri Thorsson skrifaði nýverið: „Í rauninni má segja að íslenskt launafólk sé nokkurs konar auðlind fyrir þessa umsvifamenn, nokkurs konar veiðistofn sem þeir skiptast á að nýta. ... Nú á að nýta auðlindina „íslenskan almenning" með nýjum hætti. Tekið er gjald af fólki fyrir að nýta sér það sem hingað til hefur verið talinn nokkurs konar frumburðarréttur hvers Íslendings, og því dreift á milli fólks í ferðaþjónustunni af einhverjum vildarskömmtunarstjórum sem Sjálfstæðismenn hafa verið svo duglegir að búa til í gegnum tíðina."
Auk þess virðist frumvarp atvinnuvegaráðherra byggja á afar hæpnum forsendum. Þannig hafa samtök ferðaþjónustunnar birt lögfræðiálit þar sem efast er um fullyrðingar ráðuneytisins um að komugjöld á flug- og skipafarþega brjóti í bága við EES-samninginn. Í Bretlandi hefur einnig verið við lýði sérstakur flugfarþegaskattur og Þjóðverjar og Írar rukka líka sérstakt brottfarargjald. Þá má benda á að þýska ríkisstjórnin samþykktu nýverið að leggja sérstaka vegatolla á erlenda ökumenn. Það er æði sérkennilegt ef ríkisstjórn undir stjórn Framsóknarmanna ætlar að vera heilagri í framkvæmd Evrópureglugerða en þýsk stjórnvöld.
Að mínu mati ætti að greiða fyrir uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum með almennum sköttum. Fullyrt er að tekjur af ferðamönnum hér á landi hafi numið 130 milljörðum árið 2013 og þær hafa sennilega aukist á nýliðnu ári þegar ferðamönnum hélt áfram að fjölga. Framlag ferðamanna til skatttekna er því talsvert nú þegar og einfaldast er að nýta hluta þeirra tekna til nauðsynlegrar uppbyggingar á innviðum um leið og reynt yrði að draga úr skattalagabrotum í ferðaþjónustunni. Það er einföld lausn á einföldu vandamáli.
Við sem aðhyllumst einstaklingsfrelsið og viljum koma í veg fyrir að almenningur sé gerður að nytjastofni í vildarskömmtunarkerfi Sjálfstæðisflokksins verðum að mótmæla þessum nýja náttúruskatti af krafti. Henry David Thoreua fjallaði um óréttlát lög í ritgerð sinni „Borgaraleg óhlýðni" og spurði: ,,Eigum við að láta okkur nægja að fara eftir þeim eða eigum við að leitast við að bæta þau og fara eftir þeim þangað til, eða eigum við að brjóta þau strax?" Í þessu tilfelli er ég þeirrar skoðunar að best sé að brjóta lögin strax og því mun ég aldrei greiða náttúrupassa fari svo að frumvarp atvinnuvegaráðherra verði að lögum.
Sjá einnig „Við viljum ekki náttúruperlukvóta“ (30.04.2014)