Nýjasta bók Steinars Braga, Kata, hefur vakið nokkurt umtal, enda saga um gróft ofbeldi og óþolandi óréttlæti í samskiptum karla og kvenna. Ég var spenntur fyrir bókinni, enda Konur Steinars Braga ein eftirminnilegasta bók sem ég hef lesið ogHálendið lítið síðri. Kata byrjaði á sömu nótum, dulúðin dáleiðandi, óraunveruleikinn aðlaðandi og fráhrindandi í senn og spennan nærri því of slítandi fyrir lesandann. En um miðja bók skiptir Steinar Bragi um frásagnarform og botninn dettur úr sögunni. Dáleiðandinn breytist í predikara og rismikill óraunveruleikinn í þreytandi sósíal-realisma. Mig langaði að kasta bókinni frá mér en lét það ekki eftir mér. Sem betur fer. Því það er eitthvað sem situr eftir að lestri loknum.
Kata er líklega ekki bara saga um ofbeldi í samskiptum kynjanna, hún fjallar um ofbeldið sem gegnsýrir allt mannlífið, ofbeldið sem við viðurkennum ekki. Við lítum undan ofbeldinu og snúum baki við fórnarlömbunum. Við gerðum það við drengina í Breiðuvík og börnin í Landakoti. Í hvert skipti sem við þegjum yfir eineltinu eða göngum framhjá útigangsmanni á Austurvelli athugasemdalaust erum við að samþykkja ofbeldi. Ómeðhöndlaður sjúkdómur - hvort sem hann heitir alkahólmismi, þunglyndi, geðhvarfasýki eða eitthvað annað - er ofbeldi. Umkomuleysi er ofbeldi. Fátækt er ofbeldi. Milljónir á flótta og í sárri fátækt innan aðskilnaðarmúra fyrir botni Miðjarðarhafs er ofbeldi og þúsundir afrískra flóttamanna í votri gröf á botni Miðjarðarhafs er ofbeldi. 1% er ofbeldi. Ofbeldið er sprengjudróni á flugi yfir Pakistan og rimlarnir í Guantanamo. Allsleysið á gistiheimilinu Fit í Reykjanesbæ er ofbeldi og einnig raftækið sem framleitt var í þrælahöndum. Og ofbeldið er samþykkt í fríverslunarsamningum sem andlega latir stjórnmálamenn gera við alræðisstjórnina í Kína og í kappleikjum í Katar sem spilaðir eru á gröfum nepalskra farandverkamanna. Heimurinn er gegnsýrður af ofbeldi en við þykjumst ekkert sjá, við stöðvum ekki aksturinn þó að bílhræin séu þarna í vegakantinum og fólkið ráfi um máttlaust og blóðvott. Horfum áhugalaus upp á ofbeldið með stirðnað bros á vörunum eins og rannsóknarlögreglumaðurinn í Kötu eða sinnum öðru eins og eiginmaður hennar.
Kata er líka áminning um það hvernig ofbeldi er grundvöllur þess lífs sem við lifum. Velmegun er auðlindarán, frjáls viðskipti eru þrælahald og lýðræði er loftárásir. Það sem er frelsi í okkar augum er kúgun í augum annarra. Og þá vaknar spurningin sem er allt um lykjandi í Kötu, hvernig nálgast hinn kúgaði réttlætið? Biður hann vinsamlegast um það úr hendi kúgarans eða krefst hann þess - með ofbeldi ef nauðsyn krefur? Kata velur síðari leiðina og leggur í vegferð sem er orðin STRÍÐ með hástöfum í bókarlok. Óþolandi kúgun er skorin á háls, brennd og limlest. Ofbeldi hefur alið af sér ofbeldi, rétt eins og fátækt elur af sér fasisma og misskipting „múslimisma". KATA verður á endanum yfirskrift hefndarverkasamtaka kúgaðra kvenna. KATA er Al-Kaíta, Kata er ISIS og KATA er PEGIDA. Afleiðingin er ofbeldisfull skammstöfun en orsökin stendur óhögguð, órædd og óáreitt.
Kvikmyndaleikstjórinn franski Luc Besson birti opið bréf í Le Monde til ungra múslima í Frakklandi í kjölfar morðanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo. Þar nálgast hann umræðuna um ofbeldið á svipaðan hátt og Steinar Bragi:
„Byrjum á byrjuninni. Hvaða samfélag bjóðum við ykkur? Það byggir á peningum, gróða, aðskilnaði og kynþáttahatri. Í sumum úthverfum er helmingur ungs fólks atvinnulaus. Ykkur er þvingað út á jaðarinn vegna litarháttar og skírnarnafna. Þið eruð yfirheyrð tíu sinnum á dag, ykkur er smalað saman í þröngar vistarverur og enginn talar máli ykkar. Hver getur lifað og dafnað við slíkar aðstæður? Gróði er framar öllu öðru. Við höggvum greinarnar af eplatrénu til að selja þær og verðum svo þrumu lostin þegar uppskeran er engin. Raunverulega vandamálið liggur þarna og það er hlutverk okkar allra að færa hlutina til betri vegar.
Ég ákalla þá valdamiklu, auðmennina og leiðtogana. Hjálpið unga fólkinu sem hefur verið niðurlægt og á þá ósk eina að fá að vera þátttakendur í samfélaginu. Hagkerfið á að þjóna manninum en ekki öfugt. Að gera góðverk er mesti hagnaður sem þið getið skilað. Kæru valdamenn, eigið þið börn? Elskið þið þau? Hvað eiga þau að erfa? Peninga? Hvers vegna ekki réttlátari heim? Það myndi vekja stolt í brjóstum barna ykkar.
Hamingja okkar má ekki byggja á ógæfu annarra. Það er hvorki kristið, gyðinglegt né íslamskt. Það er einungis eigingjarnt og mun leiða samfélög okkar fram af hengifluginu. Þetta er það verk sem við þurfum að hefja í dag til að votta hinum látnu virðingu okkar.“
Kata er saga um óþolandi óréttlæti og ofbeldi sem við kjósum að leiða hjá okkur - hamingju sem byggir á ógæfu annarra - og hvernig það mun óhjákvæmilega leiða til haturs og enn meira ofbeldis. Svo lengi við horfumst ekki í augu við sjálf okkur og göngumst við ofbeldinu sem við berum sjálf ábyrgð á þá verður viðvarandi STRÍÐ.