Samkrull stjórnmála og atvinnulífs hefur líklega verið einn mesti skaðvaldur samfélaga í gegnum tíðina, hér sem annars staðar. Samkrullið gerir það að verkum að hagsmunir almennings lúta oft í lægra haldi fyrir hagsmunum stórra fyrirtækja og stjórnmálamanna í leit að völdum. Dæmi um slíkt sáum við t.d. í banka- og fasteignabólunni með meðfylgjandi hruni.
Forystusveitir stjórnmálaflokka virðast margar hverjar eiga erfitt með að hætta samkrullinu þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað í kjölfar hrunsins. Tvö nýleg dæmi hafa vakið eftirtekt mína.
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um skuldabréfaútgáfu Landsvirkjunar að andvirði 3,6 milljarða króna þar sem íslenskir lífeyrissjóðir voru kaupendur. Skuldabréfaútgáfan markar tímamót að því leyti að í fyrsta skipti njóta kaupendurnir ekki ríkisábyrgðar. Lífeyrissjóðirnir eru sem sagt að taka þátt í áhættusamari viðskiptum við Landsvirkjun en fjárfestar hafa lagt í hingað til. Og það þegar einungis tæpur mánuður er liðinn síðan Moodys setti skuldabréf Landsvirkjunar í ruslflokk (Ba2 Judged to have speculative elements and a significant credit risk). Hefðu þau bréf ekki notið ríkisábyrgðar þá mat Moodys það að sjálfsögðu svo að þau væru enn áhættusamari (B2 Judged as being speculative and a high credit risk). Nú hefði maður haldið að lífeyrissjóðirnir myndu fá háa ávöxtun vegna þeirrar áhættu sem þeir taka með kaupunum, en raunin er þvert á móti sú, eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins, að vextirnir eru lágir miðað við samskonar skuldabréf íslenska ríkisins.
Nú háttar þannig til að Bryndís Hlöðversdóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Landsvirkjunar og formaður þeirrar stjórnar er einnig nýskipaður formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Þar var hún skipaður formaður í kjölfar þess að kosningastjóri núverandi og fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar var kosinn formaður VR. Nú hefur mér ekki tekist að fá það staðfest að lífeyrissjóðurinn sé einn af kaupendum skuldabréfa Landsvirkunar, en það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli. Það sem er alvarlegt er að sami einstaklingur skuli í krafti pólitískra tengsla gegna formennsku í svo fjársterkum fyrirtækjum sem eiga í viðskiptum hvert við annað. Öðrumegin við borðið gætir hún hagsmuna orkufyrirtækis sem sækist eftir ódýru fé til framkvæmda sem m.a. Samfylkingin hefur mælt fyrir og hinumegin við borðið höndlar hún með lífeyri almennings sem krefst hámarks ávöxtunar. Þetta fer ekki saman.
Annað nýlegt dæmi um óeðlilegt samkrull stjórnmála og atvinnulífs er skipan Björns V. Gíslasonar, varaformanns Vinstri-grænna, í bankaráð Seðlabankans. Varaformaðurinn hefur í gegnum tíðina unnið hálaunastörf hjá fyrirtæki í eigu Samherja og gerir enn. Nú vill svo til að Seðlabankinn hefur haft Samherja til rannsóknar að undanförnu vegna meintra gjaldeyrisbrotamála. Að mínu mati er á ferðinni ein mikilvægasta sakarannsókn sem farið hefur fram hér á landi því hún fjallar um það hvernig arðinum af fiskveiðiauðlindinni er skipt milli þjóðarinnar og útgerðarfyrirtækjanna. Málið er nú komið á borð sérstaks saksóknara.
Varaformaður VG hefur í pistlum gert lítið úr rannsókn Seðlabankans, t.d. í desember 2012: ,,Niðurstaða mín var sú í stuttu máli að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Samherji er stendur ekki í því að svindla á nokkrum tonnum af karfa eða bleikjutittum. Það er of mikið í húfi til að leggja fyrirtækið allt undir fyrir svo lítið. Stjórnendur fyrirtækisins eru einfaldlega ekki svo klikkaðir. Það þarf líka of margra starfsmenn með einbeittann brotavilja þvert á landamæri til að þannig svindl sé gerlegt. Ég komst að því að það væri tvennt í stöðunni sem gæti skýrt þetta mál. Annarsvegar að Seðlabankinn hafi beinlínis rangt fyrir sér og hefði ekkert mál í höndunum og hinsvegar að málið snérist um allt annað en útflutning á fiski."
Nú hefur þingflokkur VG valið Björn til að hafa eftirlit með allri starfsemi Seðlabankans fyrir sína hönd, mann sem hefur vísvitandi reynt að grafa undan trúverðugleika rannsóknar bankans á meintum afbrotum í atvinnulífinu.
(Athugasemd 19.8.2013. Í þessum pistli er ofsagt að Björn Valur Gíslason hafa unnið hálaunastörf hjá Samherja í gegnum tíðina. Einungis er um að ræða afleysingar hjá Síldarvinnslunni í sumar, en fyrirtækið er í 45% eigu Samherja).