Það virðist vera sem forystufólk íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja sé að taka erlendar umhverfisvottanir í sátt. Fréttablaðið segir frá því í morgun að Icelandic Group, sem er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, ætli að sækja um vottun Marine Stewardship Council (MSC) fyrir þorsk- og ýsuveiðar við Ísland. Vitnað er í Ingvar Eyfjörð, aðstoðarforstjóra Icelandic Group, sem segir að vottunin muni styðja við árangursríka markaðssetningu á íslensku sjávarfangi á erlendum markaði. Fyrr á þessu ári steig fiskútflutningsfyrirtækið Sæmark þetta skref, líklega fyrst íslenskra fyrirtækja. Fram að þessu hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki ekki sýnt MSC mikinn áhuga, heldur þvert á móti. Talsmenn Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) hafa tortryggt MSC og líkt samtökunum við mafíu. Fiskifélag Íslands hefur þess vegna lagt í kostnaðarsama vinnu við að útbúa og markaðssetja séríslenskt vottunarkerfi.
Ég hef einu sinni verið boðaður á fund með fulltrúa LÍÚ til að ræða umhverfismerktar neysluvörur. Það var árið 2008 og þá vann ég að tillögum um leiðir til að auka áhuga og vitneskju Íslendinga um umhverfismerktar vörur. Fulltrúi LÍÚ gerði mjög lítið úr vægi umhverfismerkinga á erlendum mörkuðum og sagði þær geymdar úti í horni í sárafáum verslunum. Þá var ég tiltölulega nýfluttur frá Edinborg í Skotlandi og þóttist vita betur. Þeim fundi lauk með því að fulltrúi LÍÚ rauk á dyr og skellti á eftir sér.
En hvað skyldi valda þeirri merkilegu stefnubreytingu sem nú hefur orðið? Líklega hefur fyrri afstaða verið farin að skaða viðskipti íslenskra fyrirtækja í útlöndum, ekki síst eftir að Norðmenn hófu sitt vottunarferli hjá MSC fyrir tveimur árum. Við hefðum betur hafið þessa vegferð fyrr og staðið þannig vörð um orðspor íslenskra sjávarafurða og sparað okkur þann kostnað sem fylgir séríslensku vottunarkerfi.