22. nóv. 2019

30 ástæður til að mótmæla - aftur

Nú eru fimm ár síðan ég skrifaði víðlesinn pistil með þrjátíu ástæðum til að mótmæla á Austurvelli (hann er að vísu horfinn af dv.is en lifir hér). Þá hafði verið boðað til mótmæla gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, m.a. vegna lekamálsins svokallaða. Nú verður aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar aftur mótmælt á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14 og mér datt í hug að prófa að endurtaka leikinn. Þið megið svo bæta á þennan lista eftir þörfum í ummælum hér að neðan.
 1. Við sitjum uppi með sjávarútvegsráðherra sem er vanhæfur til að fjalla um málefni stærsta útgerðarfélags landsins.
 2. Veiðigjöldin lækka og þau duga ekki einu sinni fyrir kostnaði við stjórnsýslu í kringum útgerðina. Á sama tíma sanka stórútgerðarmenn að sér fordæmalausum auðæfum á íslenska vísu og leggja undir sig önnur svið atvinnulífsins.
 3. Eigendur útgerðanna voru fyrirferðarmiklir í Panamaskjölunum og virðast enn geyma fé og fyrirtæki í þekktum skattaskjólum.
 4. Stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við skýrslu Ríkisendurskoðunar um algjöran skort á eftirliti með því að útgerðirnar vigti afla samkvæmt lögum.
 5. Makrílkvótinn var gefinn útgerðarfyrirtækjum og nú ætla sömu fyrirtæki að sækja milljarða í skaðabætur til skattgreiðenda vegna þess að gjöfin var ekki nægilega auðsótt á sínum tíma.
 6. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þegið og þiggja enn háa fjárhagsstyrki frá útgerðinni.
 7. Hagfræðingur sem hefur viljað koma á eignarrétti útgerðarinnar á fiskinum í sjónum er orðinn Seðlabankastjóri. Hans fyrsta verk var að koma tölvupóstum uppljóstrara innan bankans í hendur stjórnarformanns Samherja. Sami maður var starfsmaður fjárglæfrafyrirtækjanna Kaupþings og Gamma og er nú orðinn æðsti yfirmaður fjármálaeftirlits í landinu.
 8. Forsætisráðherra tilkynnti uppljóstrara innan Seðlabankans til lögreglu.
 9. Við sitjum uppi með fjármálaráðherra sem hefur orðið uppvís að mörgum vafasömum fjármálagjörningum. 
 10. Einkavæðing bankanna er að hefjast undir stjórn þessa sama fjármálaráðherra og án þess að síðasta einkavæðing bankanna hafi verið rannsökuð fyrst, þ.á.m. möguleg lögbrot henni tengdri. 
 11. Vinna hafin við undirbúning einkavæðingar Keflavíkurflugvallar.  
 12. Leynt og ljóst unnið að aukinni einkavæðingu raforkukerfisins.
 13. Ríkisstjórnin vinnur gegn hagsmunum neytenda með því að veikja samkeppnislögin.
 14. Ísland hefur verið sett á gráan lista FATF vegna aðgerðaleysis í baráttu við peningaþvætti.
 15. Alþingi hefur ekki samþykkt tillögu stjórnarandstöðunnar um rannsókn á peningaþvætti sem kann að hafa verið stundað í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans.
 16. Ríkisstjórnin ætlar að verja greiðendur fjármagnstekjuskatts fyrir verðbólgu og lækka erfðaskatt á meðan því er haldið fram að innviðir samfélagsins svelti.
 17. Þeir sem þurfa að treysta einungis á greiðslur frá Tryggingastofnun er haldið í fátækt og ríkisstjórnin undirbýr jarðveginn fyrir ómanneskjulegt starfsgetumat.
 18. Lögmaður ríkisstjórnarinnar ræðst að hinum sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu með óþverrabrögðum.
 19. Stjórnvöld vísuðu óléttri móður úr landi, þvert á ráð hjúkrunarfræðings.
 20. Ríkisstjórnin boðar veggjöld sem leggjast þyngst á þá sem eru tekjulægstir.
 21. Nýja stjórnarskráin fæst ekki rædd á vegum stjórnvalda en þess í stað eru settar fram útvatnaðar tillögur sem sumar eru beinlínis skaðlegar hagsmunum almennings.
 22. Lífeyrissjóðakerfinu er enn stjórnað af atvinnurekendum.
 23. Lífeyrissjóðsgreiðslur verða sífellt hærra hlutfall af launum almennings, lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna hafa verið skert og unnið er að hækkun lífeyrisaldurs.
 24. Unnið er því að reisa Hvalárvirkjun innan Drangajökulsvíðerna með stuðningi ríkisstjórnarinnar.
 25. Unnið að gangsetningu kísilvers í Helguvík þvert á vilja heimamanna. 
 26. Þrátt fyrir miklar yfirlýsingar þá hefur fátt markvert gerst í loftslagsmálum. 
 27. Uppljóstrun í Klausturmálinu um „greiða á móti greiða“ forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við veitingu sendiherraembætta hafði engar afleiðingar.
 28. Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís að grímulausri spillingu við skipan dómara í Landsrétt. Kostnaður skattgreiðenda af málinu er kominn yfir 60 milljónir og heldur áfram að hækka.
 29. Auðmenn, jafnt innlendir sem erlendir, kaupa upp mikinn fjölda jarða án nokkurra takmarkanna.
 30. Auðlindaarðinum af virkjunum Landsvirkjunar á að verja til áhættufjárfestinga í gegnum svonefndan Þjóðarsjóð.

Sjáumst á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember kl. 14.