6. apr. 2016

Búið hjá Bjarna

Eftir fund með forsetanum í gær sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að það væru ekki verk ríkisstjórnarinnar sem hefðu sætt sérstakri gagnrýni og að nauðsynlegt væri að hún sæti áfram til að klára mikilvæg verkefni.

Lítum aðeins á árangur þessarar ríkisstjórnar.

Það sem af er kjörtímabili hefur Bjarni sjálfur sótt milljarða í vasa almennings með hækkun matarskatts en á sama tíma fært ríkustu Íslendingunum, hans nánustu fjölskyldu þar á meðal, veglega skattalækkun með því að framlengja ekki auðlegarskattinn og lækka veiðigjöld á útgerðarfélög sem hafa greitt sjálfum sér 50 milljarða í arð frá 2008 og þegið milljarða í afskriftir. Hann sparaði stóriðjunni einnig um tvo milljarða á ári með því að fella niður raforkuskatt af álverunum, fyrirtækjum sem hafa komið sér hjá því að greiða milljarða í skatta hérlendis með skipulögðum hætti.

Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hefur traust almennings á heilbrigðiskerfinu lækkað úr 66% í 44% og Ísland hefur fallið úr 3. sæti í það 8. á lista yfir bestu heilbrigðiskerfi Evrópu. Kostnaðarþátttaka almennings hefur haldið áfram að hækka og nú standa heimilin undir um 20% af öllum heilbrigðisútgjöldum á sama tíma og einkarekin heilbrigðisþjónusta greiðir sér aukinn arð á kostnað skattgreiðenda. Á sama tíma og upplýst er að nærri 20% Íslendinga sæki sér ekki tannlæknaþjónustu vegna kostnaðar þá boðar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar áframhaldandi verðhækkanir í heilbrigðiskerfinu, t.d. mun viðtal hjá krabbameinslækni hækka um 3.000 kr. og kosta 10.643 kr. og viðtal hjá geðlækni hækkar um 6.000 kr. og kostar þá 14.680 kr.

Á starfstíma þessar ríkisstjórnar hafa bankarnir skilað meiri hagnaði en nokkru sinni á kostnað almennings, t.d. 80 milljörðum á síðasta ári. Þannig hefur ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar varið kerfi sem dælir milljörðum úr vösum lántakenda með okurvöxtum og verðtryggingu. Vextir hér á landi eru t.d. um 300% hærri en húsnæðisvextir í Noregi. Húsnæðismarkaðurinn hefur aldrei verið eins erfiður ungu fólki og hlutfall fólks á þrítugsaldri sem býr enn í foreldrahúsum hefur hækkað úr öllu valdi í 40%. Loforð Sjálfstæðisflokks um lyklafrumvarp og Framsóknarflokks um afnám verðtryggingar hafa ekki verið efnd og verða ekki efnd á því ári sem þessi ríkisstjórn gæti mögulega hangið á völdunum.

Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hefur Bjarni Benediktsson borið ábyrgð á gjörsamlega mislukkaðri einkavæðingu Borgunar, fyrirtækis sem selt var föðurbróður Bjarna í lokuðu útboði og kostaði skattgreiðendur milljarða í töpuðum tekjum. Fyrir liggur að sitji Bjarni áfram í ríkisstjórn þá muni hann stýra sölu á fyrirtækjum sem nú eru í eigu ríkisins, t.d. tryggingarfélaginu Sjóvá, félagi sem hann átti stóran þátt í að gera gjaldþrota í hruninu, og Landsbankanum. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefur stöðvað rannsókn á síðustu einkavæðingu bankanna þó að Alþingi hafi samþykkt að hún ætti að fara fram. Þá hefur komið fram að einungis 21% kjósenda treystir þessari ríkisstjórn til að halda utan um þá einkavæðingu sem hún hefur boðað.

Á starfstíma þessarar ríkisstjórnar hafa tvö alvarleg spillingarmál komið upp innan raða hennar, að hans eigin spillingarmálum undanskildum, og í báðum þessara mála hefur Bjarni Benediktsson varið rangan málstað. Hann varði t.d. innanríkisráðherra sem reyndi að hafa áhrif á lögreglurannsókn og hvers aðstoðarmaður var á endanum dæmdur í fangelsi fyrir gagnaleka.

Hér kann einhver að segja – en líttu bara á hagtölurnar. Hagvöxtur á síðasta ári var 4%, þó bara litlu meiri en t.d. 2013 og 2011. En það er gríðarleg fjölgun ferðamanna sem hefur leitt til þessara auknu umsvifa í atvinnulífinu, ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Við þurfum líklega ekki að óttast það að ferðamenn hætti að koma til landsins þó að efnt verði til kosninga. Ferðamaðurinn hefur reddað bókhaldi þessarar ríkisstjórnar eins og makríllinn reddaði bókhaldi þeirrar síðustu. Lágt olíuverð og styrking krónunnar hafa svo haldið verðbólgunni niðri, ekki stefna ríkisstjórnarinnar.

Ekki veit ég hvernig Bjarna Benediktssyni datt í hug að halda því fram að verk ríkisstjórnarinnar hafi ekki sætt sérstakri gagnrýni á kjörtímabilinu. Og enn síður botna ég í því að Bjarna detti í hug að selja almenningi þá hugmynd að honum einum sé treystandi fyrir þeim verkum sem bíða. Á hann þá við fyrirhugaða einkavæðingu? Heldur hann t.d. virkilega að nokkur maður treysti honum til að bregðast við því ástandi sem mun skapast í samfélaginu þegar næsta holskefla af Panamaskjölum opinberar fjárhagslega bakhjarla Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks?

Það vita allir, nema kannski Bjarni sjálfur, að hann verður að víkja úr ríkisstjórninni.