11. feb. 2016

Skattalækkanir, Sjálfstæðisflokkur og homo economicus


Fyrir rúmu ári afnam ríkisstjórnin vörugjöld og sykurskatt og lækkaði efra þrep virðisaukaskatts. Með þeirri skattalækkun átti að færa þrjá milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í vasa almennings. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar var til fyrirmyndar, enda telja 73% landsmanna að skattar séu of háir.

Nú hefur aftur á móti komið í ljós að þessir þrír milljarðar króna hafa að mestu endað í vasa kaupmanna en ekki almennings. Um það er m.a. fjallað í nýlegri skýrslu Bændasamtakanna um matvöruverð. Þar er ítrekað að verð á raftækjum og byggingarvörum hafi ekki lækkað í samræmi við skattalækkunina og hið sama eigi við um afnám sykurskattsins. Ríkisstjórnin virðist því ekki hafa áorkað neinu nema að færa fé úr sameiginlegum sjóðum, sem hefðu t.d. getað nýst í heilbrigðiskerfið, í vasa fyrirtækja eins og Haga. Hér hefur því allur almenningur verið snuðaður.

Á sínum tíma var varað við því að svona gæti farið og Neytendasamtökin hvöttu til þess að stjórnvöld skipulegðu eftirlit með því að kaupmenn skiluðu skattalækkuninni til almennings. Þá brást innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins við á eftirminnilegan hátt og sagði að markaðurinn myndi sjá um að veita fyrirtækjunum nægilegt aðhald: „Ég er ekki talsmaður þess að vera með opinbert verðlagseftirlit. Fyrirtæki munu auðvitað lækka vöruverð til samræmis við þessar breytingar sem hafa þegar orðið. Ef menn draga lappirnar í því mun það bara koma niður á þeim sjálfum því að fólk mun bara sniðganga þau fyrirtæki.“

Áætlun innanríkisráðherra um að láta hinn frjálsa markað sjá til þess að neytendur fengju að njóta skattalækkana mislukkaðist gjörsamlega. Stjórnvöld höfðu þarna kjörið tækifæri til að bæta kjör almennings en því var klúðrað vegna þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru aldir upp í 20. aldar trú á hinn hagsýna mann (e. homo economicus), einstaklinginn sem hefur aðgang að öllum upplýsingum og hámarkar hag sinn með því að meta kosti og galla ákvarðana sinna í hvert sinn sem hann á í viðskiptum.

Hinn alfrjálsi markaður myndi eflaust virka ef við hefðum öll nægan tíma og allar þær upplýsingar sem það krefst að vera hinn hagsýni maður. En reynslan hefur kennt okkur að þessi hugmynd og veruleikinn fara ekki alltaf saman. Þannig viðurkenndi Alan Greenspan, bankastjóri bandaríska Seðlanbankans til átján ára og guðfaðir hins óhefta fjármálakerfis, að fjármálakreppan 2008 hefði kennt honum að hugmyndafræði hins frjálsa markaðar virkaði ekki. Hann sagði m.a. í yfirheyrslu fyrir bandarískri þingnefnd árið 2008: „Ég uppgötvaði galla í módelinu sem ég hafði talið vera grundvöllinn í gangverki heimsins.“

Því miður virðist þessi uppgötvun Alan Greenspan ekki hafa skilað sér í pólitíska frasabók Sjálfstæðisflokksins. Á þeim bænum hafa menn enn ofurtrú á lögmálum hins alfrjálsa markaðar og möguleikum hins hagsýna manns til að hámarka hag sinn andspænis stórfyrirtækjum í fákeppnisumhverfi. Þess vegna hafnaði varaformaður Sjálfstæðisflokksins tillögum um hið opinbera fylgdist skipulega með því að kaupmenn skiluðu skattalækkunum til almennings. Þessi gallaða hugmyndafræði kann að hafa fært kaupmönnum hátt í þrjá milljarða króna á kostnað almennings.

Einstaklingsfrelsi er nú sem fyrr eitt mikilvægasta hugtak stjórnmálanna. En það má ekki vera í þeim skilningi sem Sjálfstæðisflokkurinn virðist leggja í það, þ.e. frelsi úlfsins til að ganga laus í kindahjörðinni. Baráttan fyrir einstaklingsfrelsi þarf að fela í sér valdeflingu einstaklingsins andspænis óheftri græðgi og valdi stórfyrirtækja og ríkis.