Það eru ekki margir einstaklingar eða hópar sem njóta þess heiðurs að vera nefndir sérstaklega í stjórnarskránni. Eftir snögga yfirferð sýnist mér það bara vera forsetinn, þingmenn, ráðherrar, dómarar, embættismenn, lögregla, kjósendur, ríkisborgarar, stjórnmálasamtök, stéttarfélög, trúfélög, sakborningar, börn, aldraðir, sjúklingar, öryrkjar, atvinnulausir og fjölskyldan og heimilið.
Nú ber svo til tíðinda að nýr hópur mun bætast í þessa upptalningu verði tillögur stjórnarskrárnefndar samþykktar óbreyttar, hópur sem mun njóta sérstakrar verndar stjórnarskrárinnar. Það hljóta að teljast nokkur tímamót. Og hvaða hópur ætli það sé sem talinn er standa svo höllum fæti í samfélaginu að hans þurfi sérstaklega að gæta með stjórnarskrárákvæði? Það munu vera landeigendur.
Í frumvarpi nefndarinnar um umhverfis- og náttúruvernd segir í 2. málsgrein: „Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda.“ Þetta er ákaflega sérkennileg stjórnarskrárákvæði svo ekki sé fastar kveðið að orði, enda er hagsmuna landeigenda fyllilega gætt með eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og í lögum um náttúruvernd, en þar segir m.a. í 17. gr.: „Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.“ Stjórnarskrárbundinn réttur landeigenda yrði því mikil ofrausn og líklega ekki gerður til annars en að styrkja stöðu landeigenda í mögulegum dómsmálum um rétt almennings til að ferðast um landið.
Í því stjórnarskrárferli sem nú hefur staðið frá þjóðfundinum árið 2010 hefur aldrei verið fjallað með þessum hætti um sérstakan rétt landeigenda. Í skýrslu stjórnlaganefndarinnar frá 2011 voru settar fram hugmyndir að grein um almannaréttinn: „Almenningi er heimilt að fara um landið í lögmætum tilgangi, en skal ganga vel um og virða náttúruna.“ Í frumvarpi stjórnlagaráðs stóð síðan: „Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.“ Í frumvarpinu sem var síðan afgreitt til 2. umræðu á Alþingi á sínum tíma stóð: „Með lögum skal tryggja að allir hafi aðgang að óspilltri náttúru.“
Það var svo ekki fyrr en í umfjöllun stjórnarskrárnefndar þingflokkanna, þar sem fulltrúar stjórnarflokkanna höfðu neitunarvald, sem reynt er að smeygja sérhagsmunahópi landeigenda inn í stjórnarskrá lýðveldisins. Ég bar þá spurningu undir formann nefndarinnar á opnum fundi í gær hvort hann þekkti dæmi þess að landeigendur væru sérstaklega nefndir í stjórnarskrám annarra þjóða. Svarið var einfalt: „Ég þekki ekki fordæmi þess, ég verð að viðurkenna það.“ Hér er því á ferðinni enn ein séríslenska lausnin fyrir sérhagsmunahópa. Ég held að almenningur sé einmitt kominn með nóg af svona séríslensku dekri við sérhagsmunahópa, t.d. í formi verðtryggingar, gengisfellinga, misvægis atkvæða og gjafakvóta. Það er því sérstaklega bíræfið að ætla sér nú að koma svona ákvæði í stjórnarskrá.
Miðað við slaka stöðu ríkisstjórnarflokkanna í skoðanakönnunum þá hafði ég gert ráð fyrir að tillögur stjórnarskrárnefndarinnar yrðu betri en raunin varð á. Tækifærinu sem ríkisstjórnin hafði til að rétta kjósendum sáttarhönd virðist hafa verið klúðrað.
Eldri pistlar um sama efni:
Nefskattur, náttúrupassi og borgaraleg óhlýðni 15.1.2015
Við viljum ekki náttúruperlukvóta 30.4.2014
Dregið úr ferðafrelsi 5.12.2013
Náttúruvernd efld með nýrri stjórnarskrá 17.10.2012