30. okt. 2015

Vilji er ekki allt sem þarf

Það er svo svo sérkennilegt með stjórnmálin að það eru ekki bara umdeildu málin sem virðast þvælast fyrir pólitíkusunum okkar, þeim tekst nefnilega líka oft illa upp við að koma þörfum umbótamálum í framkvæmd sem full pólitísk samstaða virðist um. Dæmi um þetta er aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.

Lang flestir þingmenn eru sammála um mikilvægi þess að aðskilnaðurinn nái fram að ganga og nú síðast samþykkti landsfundur Sjálfstæðisflokksins mjög skýra ályktun þess efnis: „Landsfundur leggur áherslu á að starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka verði að fullu aðskilin.“

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði líka fram tillögu á Alþingi um aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf haustið 2011 sem gerðu ráð fyrir þessum aðskilnaði. Í greinargerð með tillögunum sagði: „Þannig er ófært að fjárfestingabankastarfsemi sé leyfð innan viðskiptabanka. Starfsemi fjárfestingabanka er í eðli sínu mun áhættusamari en viðskiptabankastarfsemi. Það skapar mikla áhættu að hafa þessa starfsemi undir sama þaki. Áföll geta leitt til þess að hættara er við því en ella að reyni á innstæðutryggingar og hugsanlega baktryggingu skattgreiðenda. Þetta hefur hrunið kennt okkur. Starfsemi fjárfestingabanka þarf að vera algjörlega á ábyrgð eigenda og lánardrottna og þess gætt að þeir ógni ekki fjármálalegum stöðugleika.“

Þingmenn Framsóknarflokksins voru á meðal þeirra sem lögðu fram þingsályktunartillögu árið 2012 um skipun nefndar sem ætti að endurskoða bankastarfsemina í landinu með aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka að markmiði. Meðal flutningsmanna voru Eygló Harðardóttir, núverandi félagsmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, núverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Í greinargerð með tillögunni sagði að innlán með ríkisábyrgð hefðu verið notuð í glæfralegar og jafnvel óarðbærar fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins, m.a. í fyrirtækjum nátengdum viðkomandi fjármálastofnunum. Því væri rík ástæða til að aðskilja hefðbundna bankastarfsemi frá áhættusækinni fjárfestingastarfsemi. Eygló Harðardóttir skrifaði í pistli snemma árs 2011 að tryggja þyrfti að fjármálafyrirtæki gætu ekki stækkað efnahagsreikninga sína óstjórnlega og aðskilja yrði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka.

Þá liggur nú fyrir Alþingi tillaga þingmanna allra flokka stjórnarandstöðunnar um að fjármálaráðherra verði falið að semja frumvarp sem tryggi þennan aðskilnað. Það er níunda málið þess efnis sem lagt er fyrir Alþingi.

En hvað veldur því að þetta mál nær ekki fram að ganga þótt að þingmenn allra flokka styðji það? Jú, forystumenn í fjármálalífinu hafa lagst gegn því og opinberar stofnanir vilja ekki gera neitt fyrr en að Evrópusambandið tekur frumkvæðið. Almenn skynsemi og vilji kjörinna fulltrúa virðist því ekki ráða við að gera nauðsynlegar breytingar á lögum sem fjármálakerfið og embættismenn leggjast gegn. Þetta er enn eitt málið sem sýnir fram á lýðræðiskreppuna sem við þurfum að ráða bót á.