1. maí 2015

Það er nóg til skiptanna

Deilan um Kárahnjúkavirkjun varð til þess að lengi var grunnt á því góða í samskiptum náttúruverndarhreyfingarinnar og stéttarfélaga. Upp á síðkastið hefur áherslan hins vegar verið lögð á að bera klæði á vopnin og horfa til þess sem sameinar hagsmuni þessara hópa. Í því ljósi efndi náttúruverndarhreyfingin og útivistarfélög til grænnar göngu 1. maí 2014 í samstarfi við stéttarfélögin þar sem þess var krafist að almenningur hefði áfram frjálsan aðgang að náttúru Íslands og að almannarétturinn yrði virtur. Þetta samstarf skilaði þeim árangri að nú hefur ríkisstjórnin horfið frá tillögum um nýjan skatt á almenning í formi náttúrupassa.

Í ár verður ekki efnt til sérstakrar grænnar göngu 1. maí, enda mikilvægt að stéttarfélögin fái að eiga sviðið í þeim harða slag sem nú stendur um almenna velferð í samfélaginu.

Aukið samstarf launþegarhreyfingarinnar og náttúruverndarhreyfingarinnar hefur náð til fleiri sviða. Þannig sameinuðust stéttarfélögin og Landvernd nýverið um mikilvæga umræðu um auðlindir Íslands, nýtingu þeirra, eignarhald og skiptingu auðlindaarðsins þegar efnt var til málþings undir yfirskriftinni Þjóðareign. Grundvallarspurning þingsins var hversu stór íslenski auðlindagrunnurinn – eða auðlindakakan – er í raun og veru og hvernig þessari köku er skipt. Í aðdraganda leitaði ég að uppskriftinni að íslensku auðlindakökunni og bar hana saman við auðlindakökur annarra þjóða. Og þetta er það sem ég gróf upp:

Hráefnið í íslensku auðlindakökuna er heill hellingur af rafmagni, mikið magn af fiski og fjöldinn allur af túristum. Í kökuna fara rúmlega 52 þúsund kílóvattstundir af rafmagni á hvern íbúa. Sú þjóð sem kemst næst því að vera eins hungruð í rafmagn og við eru Norðmenn með rúmlega 23 þúsund kílóvattstundir.Við þetta bætast svo fjögur tonn af fiski á hvern íbúa. Það er meira en tíu sinnum meira hjá Norðmönnum þó að þeir séu mesta fiskveiðiþjóð í Evrópu.Og að lokum hendum við tveimur túristum í íslensku blönduna, samanborið við rúmlega einn túrista sem fer í frönsku auðlindakökuna, en Frakkland er það Evrópuland sem flestir túristar sækja heim.


Þannig að auðlindakakan – eða auðlindagrunnur íslensku þjóðarinnar – er gríðar stór. Þá vaknar spurningin, sem dregur náttúruverndarsinna að þessari umræðu, – hvers vegna fer umræðan um virkjanamál fram á þeim forsendum að hér þurfi stöðugan vöxt raforkuframleiðslunnar til að halda velferðarsamfélaginu gangandi? Og þessar spurningar vakna líka – þær sem draga stéttarfélögin að umræðunni - hvers vegna búa rúmlega sexþúsund Íslendingar við sára fátækt? Og hvers vegna safnar meirihluti íslenskra heimila skuldum eða nær varla endum saman á sama tíma og ríkustu 10% eiga meira en 75% alls auðs í landinu?

Er ekki líklegt að hér á landi sé brýnni þörf fyrir kerfisbreytingu en áframhaldandi öran vöxt auðlindagrunnsins? Þarf virkilega að stækka auðlindakökuna til að verja velferðina eða er velferðin betur varin með því að skipta kökunni með öðrum hætti? Hvers vegna fær útgerðin t.d. 90% af auðlindarentunni samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar en þjóðin bara 10? Væri ekki eðlilegt að skipta arðinum með réttlætari hætti? Hvers vegna á Landsvirkjun að halda áfram að auka við skuldir sínar til að geta reist fleiri virkjanir fyrir stóriðju sem flytur allan hagnað skattlaust úr landi og skaffar einungis innan við 2% þjóðartekna og skapar innan við 3% starfa? Væri ekki nær að láta Landsvirkjun greiða niður skuldir svo hefja megi sem fyrst ríkulegar arðgreiðslur til þjóðarinnar?

Sjáumst í baráttunni.