27. jan. 2015

Áhrif Syriza á íslensk stjórnmál

Rúmlega 13% af tekjum ríkissjóðs á þessu ári renna til greiðslu á vöxtum. Myndin er fengin úr kynningu Samtaka atvinnulífsins. 
Syriza, sigurvegari í grísku þingkosningunum, er í grunninn bandalag róttækra vinstriflokka sem sameinaði þrettán hópa í einn flokk og á rætur að rekja til samvinnuvettvangs sem var stofnaður 2001, m.a. til að sameina hópana í baráttu gegn nýfrjálshyggju og fyrirhuguðum breytingum á velferðarkerfinu. Í kosningum 2004 naut Syriza einungis 3,3% fylgis en nú ellefu árum síðar er hann stærsti flokkur landsins með 36% atkvæða.

Það eru tvær megin ástæður fyrir þessar fylgisaukningu, sársaukafullar aðhaldsaðgerðir og landlæg spilling. Mikil óánægja er með aðhaldsaðgerðir og skattahækkanir fyrri ríkisstjórna sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Evrópusambandið settu sem skilyrði fyrir neyðarlánum árið 2010 og áttu að leiða til aukins hagvaxtar. Síðan þá hefur hagkerfið minnkað um 25% og laun hafa lækkað að sama skapi, um 20% grískra barna búa við mikla fátækt, milljónir njóta ekki sjúkratrygginga, atvinnuleysi er 28%, atvinnuleysi ungs fólks mælist um 60% og 90% atvinnulausra njóta engrar opinberrar aðstoðar. Trúverðugleiki Evrópusambandsins hefur skaðast mikið á þessum efnahagslegu hamförum sem það kallaði yfir grísku þjóðina og ekki nema von að Grikkir hafi kosið þann flokk sem vildi milda þessar aðgerðir og semja við lánveitendur um réttláta lækkun skulda.

En Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bera ekki ein sök á hamförunum. Hingað til hafa eigendur stórfyrirtækja, spilltir stjórnmálamenn og spilltir fjölmiðlar farið með völdin í Grikklandi. Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza og nú forsætisráðherra, orðaði það svo að þetta væri gríski syndaþríhyrningurinn, hið gríska samtryggingakerfi. Í þessu kerfi hafa auðmenn efnast á verksamningum við ríkið, komist hjá skattgreiðslum og fært gríðar mikið fé í erlend skattaskjól. Auðmennirnir stjórna auk þess umræðunni með eignarhaldi sínu á fjölmiðlum og skeyta engu um þótt þeir séu reknir með tapi. Grískur almenningur hefur verið látinn bera fjárhagslegar byrðar af þeim efnahagslegu hörmungum sem þetta kerfi leiddi til en auðmenn og stórfyrirtæki hafa áfram notið þeirra fríðinda sem spillingin færði þeim. Syriza boðaði andstöðu við þetta spillta kerfi og m.a. þess vegna hirti flokkurinn mikið fylgi af stóra vinstriflokknum, Pasok, sem fékk einungis 4,7% atkvæða í kosningunum á sunnudag.

Þannig að ástæðan fyrir þessum mikla stuðningi við Syriza er ekki sú að Grikkir séu allt í einu orðnir róttækir vinstrimenn upp til hópa. Flokkurinn stóð einfaldlega utan við kerfi spillingarinnar og andæfði nýfrjálshyggjustefnu Evrópusambandsins. Flokkurinn var líklega sá eini sem umbótasinnað fólk gat bundið vonir sínar við.

Staða Grikkja og Íslendinga er ekki ósvipuð. Í báðum löndum leiddi efnahagsleg og pólitísk spilling til hruns sem almenningur ber byrðarnar af og erlendar skuldir beggja ríkja eru óviðráðanlegar.

Hér á landi var spillingin t.d. fólgin í því að stjórnmálamenn handvöldu kaupendur við einkavæðingu ríkiseigna og heimiluðu útgerðarmönnum að veðsetja óveiddan fisk í sjónum. Peningaprentunin sem fylgdi í kjölfarið endaði með hörmungum. Gengi krónunnar lækkaði um 50% og kaupmáttur almennings um 30%. Skuldir almennings hækkuðu upp úr öllu valdi, m.a. vegna verðtryggingar, og um 5.000 heimili hafa orðið gjaldþrota frá hruni. Íslenskir lífeyrissjóðir töpuðu 500 milljörðum og skattgreiðendur þurftu að verja svipaðri upphæð til að bjarga fjármálakerfinu. Börnum sem búa við fátækt fjölgaði mest hér á landi árin 2008-2012 samkvæmt skýrslu OECD en Grikkland kom þar næst á eftir. Hér kaupa auðmenn líka fjölmiðla til að stjórna umræðunni, rétt eins og í Grikklandi. Yfirtaka á DV er nýjasta dæmið um það og Morgunblaðið og 365 er í eigu auðmanna. Auðmenn stjórna líka báðum ríkisstjórnarflokkunum, víkja sér undan auðlegarskatti og auðlindagjöldum og koma miklu fé undan í erlend skattaskjól.

Skuldir íslenska ríkisins eru líka óyfirstíganlegar, rétt eins og þess gríska. Sem hlutfall af landsframleiðslu eru skuldirnar mjög háar í alþjóðlegu samhengi, hér um 97% en 175% í Grikklandi. Grikkir eru því óneitanlega í verri stöðu, en engu að síður eru vaxtagjöld þriðji stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins, eða rúmir 80 milljarðar. Viðskiptablaðið hefur bent á að með sama áframhaldi í ríkisrekstri megi gera sér vonir um að ríkissjóður verði orðinn skuldlaus árið 2513! Samtök atvinnulífsins hafa varað við að ríkisreksturinn verði ekki sjálfbær nema að þessar skuldir lækki verulega og það verði ekki gert með stefnu núverandi ríkisstjórnar sem hafi aukið enn á ríkisútgjöldin. Samtökin leggja til nýfrjálshyggjuleið Evrópusambandsins sem hefur reynst svo illa í Grikklandi, þ.e. niðurskurð og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það er þó ljóst að 1.500 milljarða króna skuld ríkissjóðs verður ekki greidd nema að mjög litlum hluta með sölu fyrirtækja eins og Landsvirkjun.

Það er því alveg jafn brýn þörf fyrir umbótasinnað stjórnmálaafl eins og Syriza hér á landi og í Grikklandi. Fróðlegt verður að sjá hvort einhver af stjórnarandstöðuflokkunum nái að móta sér slíkt hlutverk á þeim rúmu tveimur árum sem eru fram að næstu Alþingiskosningum. Eða hvort árangur Syriza verði kannski hvati til sameiningar íslensku vinstriflokkanna eða kosningabandalags stjórnarandstöðunnar. Það verður einnig spennandi að fylgjast með hvaða árangri Grikkir ná í samningum um lækkun ríkisskulda. Kannski setja þeir fordæmi sem íslensk stjórnvöld geta fylgt.