29. des. 2014

Ólíkindatólin, trúin og kirkjan

Ég skemmti mér dável þessa dagana við lestur bókarinnar Revolution eftir Russell Brand. Þetta er hin ágætasta hugvekja, skrifuð á gáskafullan hátt, því eins og Brand segir sjálfur þá má byltingin ekki vera leiðinleg. Þannig nálgast hann líklega umfjöllunarefnið á svipuðum nótum og Þórbergur Þórðarson sem ritaði í Bréfi til Láruað grunntónn tilverunnar væri meinlaust grín. Þeir leifa sér því báðir að orða hluti sem aðrir, sem eru uppteknari af því að láta taka sig alvarlega, gera ekki. Þórbergur sagði þess vegna frá því þegar hann settist niður í skógarrunn og skeit og bætti svo við: ,,Á setum sínum kemst maður í andlegt samfélag við náttúruna." Brand er stundum á svipuðum slóðum í sinni bók, t.d. í þessari mannlýsingu: ,,Hann borðar innanríkisráðherra í morgunmat, skítur fjármálaráðherrum og skeinir sér með forsætisráðherrum." Það má finna fleiri líkindi með höfundunum og verkum þeirra sem skrifuð eru með níutíu ára millibili, Bréf til Láru 1924 og Revolution 2014. Höfundarnir eru báðir vel máli farnir, gera stólpagrín að sjálfum sér, eru andlega leitandi ólíkindatól sem stunda hugleiðslu og alþjóðasinnaðir jafnaðarmenn sem deila hart á ríkjandi hugmyndakerfi og stofnanir - ekki síst kirkjuna.

Brand leggur út af áherslum kristinna íhaldsmanna á kynhneigð og segir þá mun áhugasamari um hana en Jesús hafi verið. Hann hafi lagt áherslu á allt aðra þætti mannlífsins, t.d. spillingarmátt peninga og mikilvægi samvinnu og samkenndar. Brand nefnir sem dæmi að það hafi ekki fokið hressilega í Jesú nema einu sinni, þ.e. þegar hann rak gjaldeyrisbraskarana (fyrstu bankamennina) úr bænahúsinu. Þá varð honum svo heitt í hamsi að hann velti um borðum - sami maður og var svo geðprúður og stilltur að hann tók því með jafnaðargeði þegar hann var negldur á krossinn. Hann virðist ekki einu sinni hafa látið það fara í taugarnar á sér þegar fólkið á Golgatahæð valdi þjófinn og morðingjann Barabbas þegar það fékk að náða einn úr hópi hinna krossfestu. Það virðist bara hafa verið fjármálabraskið sem reitti Jesús til reiði, öllu öðru óréttlæti tók hann með því að bjóða fram hinn vangann.

Þess vegna telur Brand að allir stjórnmálamenn sem skilgreina sig sérstaklega sem kristna hljóti að hafa það sem forgangsatriði að gjörbreyta fjármálakerfinu og draga úr völdum þess í samfélaginu. Allir stjórnmálamenn sem hafi lýst því yfir að þeir séu fylgjendur Jesú, líkt og David Cameron forsætisráðherra Breta, verði að forgangsraða þannig að þeir lækni hina sjúku eins og Jesú en einkavæði ekki heilbrigðiskerfið eins og ,,kunta." (e. cunt). Svo setur Brand upp lítinn leikþátt þar sem hann spyr breska forsætisráðherrann hvaða hluta kristindómsins hann trúi á og lætur hann svo svara að bragði: ,,Þennan þar sem ég mæti í kirkju í jakkafötum á jólum eða páskum og reyni að láta líta út fyrir að ég sé að hugsa á eilítið hátíðlegum nótum." Það er ekki ósvipað lýsingu Þórbergs í Bréfi til Láru á afstöðu sinnar tíðar valdastéttar til kristindómsins: ,,Þótt þið trúið kannski á guð og sækið kirkju ykkar á helgum, þá hugsið þið eins og enginn guð sé til. Þið eru efnishyggjumenn í húð og hár."

Biskup Íslands mætti í viðtal í sjónvarpsfréttum RÚV á jólum og sagði fyrst af öllu: ,,Guð er með okkur hér á jörð, guð kemur til okkar í barninu Jesú Kristi og Jesús er guð." Ég verð nú að viðurkenna að þetta sveif jafn hátt yfir mína vitsmunalegu slá eins og vítaspyrna Roberto Baggio á HM í knattspyrnu 1994. Ég veit ekkert hvað biskup var að fara með þessari setningu og get satt best að segja lesið jafn mikið út úr hennar orðum og þessum: ,,Salthneta er í skál á borðinu, hneta er ávöxtur og ávöxtur er hneta." Þetta kallar maður að fara illa með verðmætar sekúndur í sjónvarpi. En hvað um það. Það sem vakti athygli mína var að þegar þessum orðaleik biskups var lokið þá snéri hún sér fljótlega að umræðu um peninga - blankheitum kirkjunnar. Efnishyggjan vék fyrir andanum. Því miður hefur mér fundist boðskapur kirkjunnar háværastur þegar hann snýr að efninu - fjárhaglegri stöðu hennar sjálfrar og virðingarsess í samfélaginu. Það hefur sýnt sig í áhuga presta á sóknargjöldum, dagskrá RÚV og aðgangi presta að grunnskólum. Ef kirkjan er í raun og veru svona fátæk þá væri henni líklega nær að byrja á því að taka til í eigin ranni, t.d. með því að láta presta ekki hirða allar milljónirnar af hlunnindum kirkjujarða og gjöldum sem fólk þarf að greiða fyrir skírnir, fermingar, hjónavígslur, útfarir og kistulagningar. Það verður að teljast ólíklegt að prestar kirkjunnar velti við borðum braskaranna líkt og Jesú forðum, nema þá að þeir fái borgað sérstaklega fyrir það.

Brand segir á einum stað: ,,Eina túlkunin á trúarlegum boðskap sem við eigum að fylgja er sú að virða hið heilaga (e. divine) í okkur sjálfum og elska hið heilaga í öðrum. Við eigum að afneita einstaklingshyggju og fagnaðarboðskap efnishyggju okkar tíðar og þjóna einvörðungu því sem hefur okkur yfir slíkar hvatir. Öll tilbrigði allra trúarbragða sem holdgervast í skrautklæðum og höllum fyrir gaurinn sem stendur fremst í röðinni eru rugl (e. bollocks)." Mikið hljómar þetta nú betur en þetta þarna um hneturnar, skálina og ávextina - eða hvað það nú var sem biskupinn sagði í sjónvarpinu rétt áður en hún byrjaði að tala um peninga. Amabadama, vinsælasta hljómsveit landsins í dag, syngur í einu laginu: ,,Við erum hermenn, ekki herramenn. Berjumst um eitthvað betra en það sem engu máli skiptir. Það eru menn þarna úti sem eru milljóna dollara múltímenn og lögum eru undanskildir. Kynslóð eftir kynslóð, öld eftir öld, alltaf eru mikilvægt að útvaldir séu við völd. Þeir hafa haldið þrælunum gangandi með innantómum orðum en raunin er sú að fátt hefur breyst síðan forðum. Sumir eiga alltaf mikið meira en nóg. Þeir standa saman og er skítsama ef þú vinnur og vinnur en aldrei, aldrei eignast neitt. Þrældómaveröld spyr hvenær verður þessu breytt. Ekki vil ég sjá að börnin erfi þetta gallaða kerfi, þar sem ríkir verða ríkari og valdafíkn er ríkjandi."

Amabadama á erindi við samtímann. Og Russell Brand líka. Samt eru þau eflaust víða léttvæg fundin í samanburði við kirkjuna, sem því miður - og nú leyfi ég mér að leita á náðar anatómíu þeirra Þórbergs og Russell - virðist föst með höfuðið í eigin rassi.