10. des. 2014

Elliði og milljarðarnir

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, birti nýverið grein á Kjarninn.is og lýsti þeim skatti sem lagður er á útgerðina. Nefndi hann að sjávarútvegurinn greiddi 16 milljarða í veiðigjöld árið 2013. Vissulega kann þetta að hljóma eins og há upphæð, ekki síst þegar hún er skrifuð í tölustöfum - 16.000.000.000 kr. Þetta, auk eðlilegs tekjuskatts og gjalda, nefnir Elliði ofurskatt og leggur til að álögur á útgerðina verði lækkaðar (Hann nefnir að vísu ekki að veiðigjöldin hafa þegar verið lækkuð um rúman helming). Enda eru 16 milljarðra helvítis hellingur. Eða hvað?

Heildartekjur ríkissjóðs þetta ár voru 544 milljarðar og af þeim komu 17 milljarða með áfengis- og tóbaksgjaldi. Það eru peningar sem sóttir voru í vasa almennings , einum milljarði meira en sjávarútvegurinn greiddi fyrir aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Vörugjöld af bensíni skiluðu ríkissjóði 11,5 milljörðum og skattur á olíu 7 milljörðum. Hæstar voru svo tekjurnar af sköttum á laun almennings, eða 110 milljarðar og af virðisaukaskatti, 142 milljarðar. Bara hækkun virðisaukaskatts á matvæli ein og sér skilar ríkissjóði átta milljörðum, eða helmingi þess sem útgerðin borgaði í veiðigjöld í fyrra.

Reyndar virðist hækkun matarskattsins um átta milljarða og tveggja milljarða hækkun gjalda á almenning í heilbrigðiskerfinu duga ríkisstjórninni til að mæta lækkun veiðigjalda - og rúmlega það. Í ár voru veiðigjöldin nefnilega lækkuð úr 16 milljörðum í um 7,5 milljarða og þau verða ekki nema 7,3 milljarðar á næsta ári samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Velferð útgerðarinnar er því borguð af almenningi.

Það er mikil undanlátssemi við atvinnugrein sem skilaði um 100 milljarða króna samanlögðum hagnaði á árunum 2012 og 2013. Arðgreiðslur þessi tvö ár voru um 18 milljarðar. Í samhengi hlutanna eru 16 milljarðar ekki hátt gjald fyrir að fá að verða moldríkur á að nýta auðlind sem er í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Ríkisstjórnin ætti miklu frekar að leitast við að auka veiðigjöldin um 10 til 30 milljarða, líkt og Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, hefur bent á að sé möguleiki yrðu aflaheimildir seldar á markaðsverði. En þá væru þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auðvitað ekki að vinna fyrir milljónunum sem útgerðin hefur greitt þeim og flokkunum á undanförnum árum. Menn bíta ekki höndina sem fæðir þá.