4. des. 2014

Jón, smjörklípan og prófkjörsstyrkir

Það tekur því varla að eyða orðum í tillögu Jóns Gunnarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um að færa átta svæði í virkjanaflokk rammaáætlunar – svo óraunhæf er hún og illa rökstudd. Mig grunar helst að svo ofsafengin tillaga sé einungis sett fram á þessum tímapunkti til að létta pressunni af fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins nú þegar afgreiða á afar umdeilt fjárlagafrumvarp sem gerir m.a. ráð fyrir hækkun á matarskatti, aukinni kostnaðarþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og lækkun veiðigjalda. Fyrrverandi formaður flokksins kallaði t.d. einn þátt frumvarpsins einfaldlega rugl. Tillaga Jóns Gunnarssonar myndi líklega flokkast sem smjörklípa í frasabók þess formanns.

Af þessum átta svæðum sem Jón leggur til að fari í virkjanaflokk eru tvö, Hagavatn og Hólmsá, óafgreidd frá verkefnastjórn rammaáætlunar. Það er því óhugsandi að Alþingi geti afgreitt tillögu um þessi svæði. Önnur tvö svæði eru á miðju hálendinu, þ.e. Hágöngur og Skrokkalda. Þetta eru litlar virkjanir sem Samtök ferðaþjónustunnar, ferðafélög, jeppafólk og fleiri hafa mótmælt harðlega vegna áhrifa sem þær myndu hafa á víðerni hálendisins. Það er því afar ósennilegt að á Alþingi sé meirihluti fyrir þessum tillögum. Þannig að eftir stendur spurningin um tvær eða þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Slagurinn verður um þær.

Jón hefur sagt að það sé brýnt að taka ákvörðun um fleiri virkjanir til að skapa störf fyrir landflótta iðnaðarmenn og til að afla þjóðinni tekna. Samt er það nú svo að nýjustu tölur Alþjóðabankans staðfesta að Íslendingar eiga enn heimsmetið í raforkuframleiðslu, með meira en tvöfalt meiri framleiðslu á mann en næsta land á eftir okkur. Okkur skortir því ekki orku eða iðnaðarframleiðslu til að halda úti fúnkerandi hagkerfi og mannsæmandi velferðarkerfi. Nei, vandinn er annar þó að Jón Gunnarsson neiti að horfast í augu við hann. Þannig benti OECD t.d. á það í skýrslu um Ísland í haust að það væri óvíst hvort orkufyrirtækin væru að selja orkuna á nægilega háu verði til að hafa upp í kostnað af framleiðslu hennar. Áður hafði McKinsey dæmt stóriðjustefnuna úr leik vegna allt of lágrar arðsemi orkufyrirtækjanna. Um skattaundanskot stóriðjunnar er svo óþarfi að fjölyrða.

Þannig að virkjanir virðast ekki besta leiðin til að afla þjóðinni tekna. En hún er vissulega góð gróðaleið fyrir afmarkaðan hóp eigenda fyrirtækja, t.d. þeirra sem styrktu Jón Gunnarsson fjárhagslega í prófkjörsbaráttu fyrir síðustu Alþingiskosningar, þ.á.m. Kraftvélar, Fjarðargrjót, Ístak og Magna. Nei, ætli það sé ekki frekar íslenska láglauna- og lággengisstefna sem hefur hrakið íslenska iðnaðarmenn úr landi? Það eru launin og gengismunurinn sem toga í menn, ekki skortur á vinnu. Enda virðist framkvæmdir við stóriðju hafa haft meiri áhrif á atvinnuþátttöku erlendra iðnaðarmanna í íslensku hagkerfi en innlendra. Láglauna-innflytjendastefnan er nefnilega ekkert síður rekin í smíðum en skúringum. Það er síðan kaldhæðni örlaganna að Framsóknarflokkurinn, sá flokkur sem hefur gengið lengst í daðra við andúð á útlendingum til að afla sér fylgis, er líka sá flokkur sem hefur með stóriðjustefnu sinni stuðlað mest að því að fjölga hér innflytjendum og þrýsta þannig niður launum í landinu.

Stóriðjustefna Jóns Gunnarssonar og Framsóknarflokksins hefur þannig ekkert með þjóðarhag að gera – hún er bara hagsmunagæsla fyrir örfáa atvinnurekendur á kostnað launafólks.